Víða um land hafa framkvæmdaaðilar nú uppi áform um uppbyggingu vindorkuvera, svo mjög að stundum er jafnvel talað um „vindmyllukapphlaup“ í þeim efnum. Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, sem lét af störfum sem forstjóri Skipulagsstofnunar á síðasta ári eftir níu ár í embætti, segir þetta vera stöðu sem „dregur fram ýmsa þekkta veikleika í stjórnkerfi skipulagsmála og stjórnsýslu og ekki síður stjórnkerfi orkumála og samspili orku- og skipulagsmála“.
Í ítarlegu viðtali við Kjarnann sem birtist á dögunum sagði Ásdís Hlökk mjög mikla þörf á að sett væri fram skýrari og útfærðari stefna í orkumálum og sagði núverandi orkustefnu tala „frekar almennum orðum“.
„[Þ]að sem við eigum eftir að fá rætt í meiri þaula og útfært og ná sameiginlegum skilningi um er hvað ætlum við og þurfum við að framleiða mikla orku í þessu landi til næstu áratuga, til hvaða nota á þessi orka að fara og hvernig tryggjum við að hún fari þangað. Þetta eru spurningar sem í mínum huga verða að fást skýrari svör við af hálfu löggjafans og stjórnvalda og verður að fara fram opnara samtal um, meira en bara að einhverjir hópar setjist niður og búi til módel um hvað sá hópur telur æskilegt að framleiða mikla orku í landinu,“ sagði Ásdís Hlökk.
Hvað skipulagsmálin varðar þurfi svo að setja fram stefnu um hvað eigi að ráða varðandi staðsetningu einstakra vindorkuvera.
„Vindorkan er þannig að hana þarf að staðsetja þar sem er vindur, og það vill svo til að það er víðast hvar á Íslandi, svo það er takmörkuð krítería, en engu að síður auðvitað atriði sem þarf að ganga út frá. Staðsetning einstakra vindorkuvera þarf einnig að ráðast af því hvar er hægt að koma þessum stóru íhlutum á vettvang, það þarf að vera höfn og góðir vegir og það þarf að vera hægt að koma orkunni frá sér inn á flutningskerfið, svo það eru ákveðnar tæknilegar breytur sem þarf að taka tillit til. En stóru, stóru skipulagsmálin sem er snúnast að takast á við, það eru áhrifin á ásýnd lands, á búsetulandslag og karakter og staðarsérkenni og ímynd svæða. Nándaráhrif á nágranna og svo áhrif á náttúrufar og þá ekki síst á fuglalíf, og auðvitað áhrif á aðrar atvinnugreinar, eins og ferðaþjónustuna, sem er auðvitað mjög stór atvinnugrein sem byggir á náttúru landsins,“ segir Ásdís Hlökk og bætir við að fyrir liggi í könnunum meðal erlendra ferðamanna að þeir komi til Íslands fyrst og fremst til að upplifa og njóta íslenskrar náttúru – víðsýnisins og landslagsins.
Bæði kostir og gallar við að vindorkan fari í ramma
„Auðvitað fela þessi stóru hreyfanlegu mannvirki í sér mikla breytingu þar sem þau verða vel sýnileg. Það er áskorun að velja réttu verkefnin, réttu staðina,“ segir Ásdís Hlökk, sem segir í því tilliti að það fylgi því bæði kostir og gallar að vindorkuverkefnin fari í gegnum rammaáætlun.
„Rammaáætlun er sannarlega ekki gallalaust verkfæri og löngu tímabært að endurskoða verklag og umgjörð þar, en það er þó mikil lukka að vindorkan er þó í þessu rammaáætlunarferli enn sem komið er, því þar fer fram ákveðin samræmd greining á einum stað. En gallinn er meðal annars að rammaáætlunarverklagið skoðar hvern virkjunarkost fyrir sig, okkur skortir heildstæða stefnumótun og skoðun á samlegðaráhrifum af því að virkja vindinn víða,“ segir Ásdís Hlökk.
„Það er ákveðinn vandi á höndum við að ákveða hvernig haga skal ákvarðanatöku um vindorkuna til framtíðar. Það hefur verið skoðað að fara sömu leið og gert er sumstaðar í nágrannalöndum okkar, að þessar ákvarðanir séu bara teknar af sveitarfélögunum, eins og aðrar skipulagsákvarðanir almennt, en þá verðum við að hafa það í huga að þar sem það er gert þá eru alltaf inngripsheimildir og möguleiki ríkisins til að taka yfir slíkar ákvarðanir. Slík inngripsúrræði höfum við ekki í íslenskum skipulagslögum. Ég hef nú gjarnan verið talskona þess að við eigum ekki að finna upp hjólið heldur kynna okkur hvað er gert annars staðar og taka mið af því við þróun á okkar skipulagslöggjöf, en við verðum þó að vera varkár við að taka ekki einstök ákvæði samhengislaust úr löggjöf og praxís annars staðar og stinga inn í okkar kerfi og vera mjög varkár ef valið verður að fara þá leið að færa þessar ákvarðanir meira eða alfarið til sveitarfélaga, þá verða að fylgja því einhverjar breytingar í þá veru að ríkisvaldið geti tekið þær ákvarðanir yfir og haft eitthvað um þær að segja,“ segir Ásdís Hlökk.
Þau sjónarmið hafa svo verið viðruð að best væri að nýta þau landsvæði sem þegar eru röskuð vegna orkuvinnslu undir vindorkuver.
„Ég held að við þurfum að gæta okkar á slíkum alhæfingum, því sú orkuvinnsla sem er fyrir felur í sér allt annars konar landnýtingu, annars konar mannvirki og allt önnur áhrif á landslag. Það er vissulega ákveðin einföldun en það er svolítið eins og að halda því fram að það sé ákjósanlegt að nýta svæði þar sem lengi hefur verið lágreist byggð til að byggja háhýsahverfi. Það á bara ekki alls staðar við. Ég hef til dæmis efasemdir um að það sé æskilegast að byggja vindorkuver við hálendisbrúnina þó að þar séu fyrir vatnsaflsvirkjunarsvæði sem eru vissulega röskuð og þar sem er tiltölulega handhægt að tengjast flutningskerfinu, þá erum við þarna á brúninni á þessum miklu víðernum og vin sem hálendið er. Þessi mál eru heilmikil áskorun fyrir okkar stjórnkerfi, ekki síst í því tilliti að sveitarstjórnir eru margar og með takmarkaða burði til að kljást við stóra aðila sem fara mikinn og bjóða jafnvel gull og græna skóga,“ segir Ásdís Hlökk.
„Ábyrgðarhluti“ að fara með stór áform inn í lítil samfélög
Hún segir líka víti að varast í þessum efnum. Það er ábyrgðarhluti að fara fram með stór framkvæmdaáform inn í lítil samfélög og sveitarfélög.
„Það geta orðið svo hatrammar deilur um uppbyggingu að það grær seint eða aldrei um heilt. Við höfum séð alltof mörg dæmi um þetta; vegaframkvæmdir, virkjanaframkvæmdir og fleira. Það er ábyrgðarhluti að fara inn í lítil samfélög með stór uppbyggingaráform og skiptir máli hvernig að því er staðið og hvernig mál eru borin upp og samskipti eru við nærsamfélagið, sveitarstjórn og svo framvegis,“ segir Ásdís Hlökk.
Einnig eigum við nú þegar standandi vitnisburð um að í okkar skipulagsframkvæmd höfum við ekki samtengt ákvarðanir sem eru háðar hver annarri nægilega vel.
„Við eigum hálfbyggt álver úti í Helguvík sem engar virkjanir voru fyrir og engar raflínur lágu að og svo er það þessi sorgarsaga sem er kísilverið í Helguvík, og fulláformað kísilver við hlið þess sem ekki hafa hafist framkvæmdir við. Við verðum að draga lærdóm af þessum verkefnum, þar sem farið hefur verið fram af svo miklu kappi í ákveðna uppbyggingu og að hefja framkvæmdir þótt að það liggi fyrir að forsendur uppbyggingarinnar séu ekki til staðar.“
Ítarlegt viðtal Kjarnans við Ásdísi Hlökk má lesa með því að smella hér.