Mælt er með því að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir því að Ísland verði sem fyrst metið með aðferðum Global Food Security Index (GFSI) í nýjum tillögum og greinargerð um aðgerðir til að auka fæðuöryggi Íslands. Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, hefur lagt tillögurnar sem eru í alls 16 liðum fyrir ríkisstjórn en þær miða að því að efla fæðuöryggi. Á vef stjórnarráðsins segir að í framhaldinu verði unnið með þessar tillögur í annarri stefnumótun stjórnvalda. Jóhannes Sveinbjörnsson, dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands vann tillögurnar og greinargerð.
Í greinargerðinni er fjallað nánar um GFSI mælikvarðann og lagt til að mat samkvæmt honum verði gerð sem fyrst. Slíkt geti sagt til um hversu góðar aðstæður eru fyrir fæðuöryggi í landinu. „Það er til dæmis gert með því að meta reglulega heildarfæðuneyslu á íbúa og fylgjast með þróun matvælaverðs og hvaða áhrif sú þróun hefur á þau sem búa við lökustu kjörin,“ segir á ver stjórnarráðsins.
GFSI mælikvarðinn hefur verið birtur árlega frá 2012 en Ísland er ekki á meðal þeirra 113 ríkja sem mælikvarðinn náði til í síðustu útgáfu. „Uppbygging GFSI endurspeglar betur en aðrir einstakir mælikvarðar þá þætti sem taka þarf tillit til þegar tryggja á fæðuöryggi þjóða,“ segir í greinargerð með tillögunum. Meginstoðir mælikvarðans eru fjórar; aðgengi, fæðukaupgeta, gæði og öryggi og loks náttúruauðlindir og þanþol fæðukerfa.
Hafa stofnað starfshóp um neyðarbirgðir
Ein tillagnanna snýr að neyðarbirgðum en lagt er til að neyðarbirgðahald sé á ábyrgð eins stjórnvalds á landsvísu sem eingöngu hefur með að gera birgðahald út frá sjónarhóli fæðuöryggis. Nú þegar hefur verið stofnaður sérstakur starfshópur um neyðarbirgðir á vegum forsætisráðuneytisins sem er ætlað að taka ákvarðanir um slíkt.
“Hvað varðar allar neyðarbirgðir er lagt til að stjórnvöld beri kostnað en semji um framkvæmdina við innflytjendur varanna. Til greina getur komið að hafa samvinnu við nágrannaþjóðir, einkum Norðurlöndin um neyðarbirgðir í einhverjum tilvikum. Lagt er til að fjármögnun neyðarbirgða byggi á föstum tekjustofnum, en sé ekki háð fjárlögum hvers árs,“ segir í tillögunni.
Megináherslu þarf að leggja á öryggi framboðs, þrátt fyrir baktryggingu í neyðarbirgðum, segir í annarri tillögu. Í því felst vinna við áhættugreiningar fyrir einstaka atburði sem snögglega geta leitt til ójafnvægis í fæðukerfi og framboðskeðjum á borð við stríðsógnir, heimsfaraldra og náttúruvár.
Hlutdeild innlendrar framleiðslu á grænmeti og kjöti lækkar
Lagt er til að reglulega fari fram mat á útkomum fæðuöryggis, „svo sem heildarfæðuneyslu á íbúa og sjálfsaflahlutfalli landsins fyrir einstaka fæðuflokka.“ Sjálfsaflahlutfall er notað til að meta fæðuöryggi og er skilgreint út frá hlutdeild heildarframleiðslu í landinu af heildarneyslu. Með hærra sjálfsaflahlutfalli eykst fæðusjálfstæði þjóða sem er mælikvarði á hversu vel fæðuframleiðsla fullnægir fæðuþörf þjóða, burtséð frá því hvort þjóðin velji að selja hluta af framleiðslu sinni á alþjóðlegum mörkuðum og kaupa annars konar fæðu í staðinn eða ekki.
Þó sjálfsaflahlutfall sé ekki hluti af GSFI mælikvarðanum er margt sem mælir með því að fylgjast með því, að því er fram kemur í áðurnefndri greinargerð, en bent er á að hlutfallið hafi lækkað nokkuð hratt að undanförnu.
Í því samhengi er vitnað í nýlega skýrslu um fæðuöryggi á Íslandi þar sem segir: „Garðyrkjan sér fyrir um 43% af framboði grænmetis, búfjárræktin sér fyrir um 90% af kjöti, 96% af eggjum og 99% af mjólkurvörum. Innlend framleiðsla á korni til manneldis er um 1% af heildarneyslu.“ Þessar tölur gilda fyrir árið 2019 en til samanburðar var innlend framleiðsla á grænmeti og kjöti 56 og 98 prósent af markaðnum áratug fyrr. Fiskveiðar og fiskeldi sjá aftur á móti fyrir fiski sem nemur margfaldri þörf landsmanna.
Veikleikar fæðuframleiðslunnar hér á landi liggja í framleiðslu plöntuafurða. Að mati Jóhannesar Sveinbjörnssonar, höfundar greinargerðarinnar, liggja mestu sóknarfærin í aukinni framleiðslu korns, bæði til manneldis og fóðurs fyrir búfé, sem og í að auka hlutdeild innlendrar framleiðslu grænmetis. Vegna hnattstöðu landsins sé það hins vegar fjarlægur draumur að auka framleiðslu á öðrum plöntuafurðum til manneldis á borð við ávexti, hnetur og baunir.