„Ég er sammála varaformanni Framsóknarflokksins um að fjármálaráðherra þurfi að axla ábyrgð á þessu klúðri öllu. Hvernig datt honum í hug að það væri góð hugmynd að gefa þessum valda hópi afslátt af eigum okkar? Er hann búinn að gleyma aðdraganda og eftirmálum hrunsins? Eða var þetta kannski bara „svokallað hrun“ sem óþarfi er að draga einhvern lærdóm af?“
Þetta skrifar Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar á Facebook-síðu sína í morgun.
Fram kom í Morgunblaðinu í morgun að Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra segðist ekki hafa verið hlynnt þeirri aðferðafræði sem var beitt við sölu á 22,5 prósent hlut í Íslandsbanka 22. mars síðastliðinn. Hún telur brýnt að í ljósi þeirrar gagnrýni sem sett hefur verið fram á bankasöluna þurfi Ríkisendurskoðun að fara yfir framkvæmd og aðferðir. Einni kunni að vera rétt að fela fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands að fara yfir málið.
Lilja segir að hún hafi viljað almennt útboð en ekki að bréfin yrðu seld til valins hóps fjárfesta. Lilja, sem er einn þriggja ráðherra ríkisstjórnar sem situr í ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins, segist hafa komið þeim sjónarmiðum sínum skýrt á framfæri í aðdraganda útboðsins. „Ég hef alltaf talið skynsamlegt að taka lítil og hægfara skref. Hafa vaðið fyrir neðan sig. Ekki einblína á verð, heldur gæði framtíðareigenda. Önnur leið var hins vegar valin og því miður er fátt sem kemur á óvart í þessu máli og hver útkoman varð.“
Hún segir að ábyrgðin hljóti að vera stjórnmálamanna sem tóku ákvörðun í málinu.
Vega þarf og meta kosti samfélagsbanka
Oddný segir jafnframt í stöðuuppfærslu sinni á Facebook að vinnubrögðin kalli á afsögn Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra.
„Hann selur pabba sínum á afslætti, stórum leikendum í bankahruninu, fjárfestingasjóði sem keypti og seldi strax aftur í fyrra útboði og menn sem voru að vinna við útboðið fengu að kaupa svo dæmi séu tekin úr þessari fráleitu niðurstöðu.
Sjálfstæðismenn greiddu atkvæði gegn lögum um ferlið sem fara á eftir þegar hlutur í bönkum er seldur. Þar er ábyrgð fjármálaráðherrans algjörlega skýr. Og jafnvel þó að Sjálfstæðismenn hafi ekki samþykkt sjálfir lögin verða þeir að fara eftir þeim!“ skrifar hún.
Þá greinir hún frá því að hún hafi verið á móti því að selja hlutina. „Í stefnu okkar í Samfylkingunni segir að áður en ráðist sé í sölu á hlut ríkisins í bönkunum þarf að svara þeirri spurningu hvernig bankakerfi tryggi góða og trausta þjónustu við fólk og fyrirtæki. Þar þurfa leiðastefin að vera fjölbreytni, samkeppni, öflugt eftirlit, neytendavernd og örugg ódýr innlend greiðslumiðlun.
Samhliða örri tækniþróun og nauðsyn grænna fjárfestinga eru augljósar áskoranir til staðar í fjármálaumhverfinu. Vega þarf og meta kosti samfélagsbanka og mikilvægt er að breytt kerfi verði til þess að áhætta í fjárfestingabankastarfsemi verði áhyggjuefni eigenda fjárfestingarbanka en ekki ríkisins. Þar liggur mikilvægur lærdómur bankahrunsins sem stjórnarflokkarnir hirða ekki um,“ skrifar hún.
Aðeins eru rúm 12 ár frá því að einkareknir bankar hrundu á Íslandi með afar neikvæðum efnahagslegum afleiðingum. Rannsókn á þeirri einkavæðingu hefur ekki farið fram, þrátt fyrir samþykki Alþingis á slíkri rannsókn.
Ég er sammála varaformanni Framsóknarflokksins um að fjármálaráðherra þurfi að axla ábyrgð á þessu klúðri öllu. Hvernig...
Posted by Oddný Harðardóttir on Monday, April 11, 2022