Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir það vinnureglu í forsætisráðuneytinu að ráðherrann sé „aldrei sendur nema honum sé sérstaklega boðið.“ Þetta sé vegna þess að mjög margar uppákomur væru þess virði að sækja og nauðsynlegt hefði verið að takmarka slíkt.
Þetta sagði forsætisráðherra í viðtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag, í umræðum um hvers vegna hann fór ekki á samstöðufund vegna hryðjuverkanna í París. Hann sagði að hann hefði gjarnan viljað hafa haft tækifæri til þess að mæta. „Eftir að varð ljóst hvers eðlis væri var orðið of seint að komast á staðinn,“ sagði hann.
Hann tók undir margt af því sem kom fram í yfirlýsingu frá ráðuneytinu í dag, um að eftir á að hyggja hefði verið betra að einhver æðstu ráðamanna þjóðarinnar hefði mætt.
Umræðan skrýtin
Sigmundur Davíð sagði jafnframt að umræðan um fjarveru hans hefði um margt verið skrýtin. „Það gerist allt of oft þegar upp koma einhver alvarleg mál, sem eiga að vekja okkur til umhugsunar um mikil grundvallaratriði, þá snýst umræðan allt of mikið um eitthvað á yfirborðinu. Eitthvað sem leiðir umræðuna jafnvel út í móa. Það er nú það versta við þetta ef þetta hefur orðið til þess að leiða umræðu frá ýmsum mikilvægum álitaefnum eitthvað allt annað.“
Hann sagðist hafa fylgst mikið með umræðu í kjölfar hryðjuverkanna, meðal annars hvað varðar tjáningarfrelsi, ekki síst í erlendum fjölmiðlum. Þar væri talað um að menn þori ekki að ræða hvað sem er á Vesturlöndum. Spurður að því hvort hann sæi tilhneigingu til þessa í okkar samfélagi sagði Sigmundur Davíð margt minna á þessa gagnrýni og umræðu um stöðu tjáningarfrelsis. „Það er að segja, það er eins og það sé alltaf að þrengjast ramminn um það hvað megi ræða og rökræða sé meira að segja bönnuð um ákveðna hluti. Og ég er svolítið hræddur um að þessir fulltrúar stjórnarandstöðunnar sem voru að spyrja eitthvað út í þessa hluti í gær, ég er svolítið hræddur um að þeir sjái fyrir sér að ramminn þrengist frekar en að hann opnist. Nema kannski Píratarnir, sem hafa verið svolítið duglegir, sumir hverjir að minna á mikilvægi tjáningarfrelsisins.“