Alls hafa þeir Íslendingar sem velja að ráðstafa séreignarsparnaði sínum til að greiða niður húsnæðislán greitt þau niður um 109,9 milljarða króna frá miðju ári 2014 í annars vegar almennu úrræði og hins vegar undir hatti úrræðis sem kallast „Fyrsta fasteign“. Þessi ráðstöfun er skattfrjáls og ávinningur þessa hóps í uppsöfnuðum skattafslætti er áætluð 26,8 milljarðar króna. Alls hafa 38 prósent allra sem eru á vinnumarkaði, eða 21 prósent þjóðarinnar í heild, nýtt sér umrædd úrræði.
Þeir sem nýta sér séreignarlífeyrissparnað til að greiða niður húsnæðislán sitt samkvæmt úrræðum sem stjórnvöld hafa innleitt á undanförnum árum fá líka annan ávinning.
Þetta kemur fram í tölum sem fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur tekið saman fyrir Kjarnann.
Fjölgað um 27 prósent á einu ári
Það þýðir að hópurinn sem nýtt hefur sér úrræðin hefur notað samtals 71,2 milljarða króna af eigin séreignarsparnaði til að borga inn á húsnæðislán eða sem útborgun fyrir húsnæði frá árinu 2014.
Um er að ræða hóp sem telur alls 79.747 manns. Hann skiptist þannig að 62.400 hafa nýtt sér almenna úrræði en 17.347 hafa nýtt sér „Fyrstu fasteign“ frá því að það úrræði varð virkt árið 2017. Þeim sem nýtt hafa sér úrræðin hefur fjölgað um tæp 27 prósent á einu ári.
Í skýrslu sérfræðingahóps um höfuðstólslækkun sem unnin var í aðdraganda þess að almenna úrræðinu var hleypt af stokkunum árið 2014 kom fram að meðallaunatekjur fjölskyldna sem spöruðu í séreign og skulduðu í fasteign væri mun hærri en meðallaunatekjur þeirra sem spara ekki. „Almennt eru tekjur þeirra sem spara í séreignalífeyrissparnaði mun hærri en hinna sem ekki gera það,“ stóð orðrétt í skýrslunni.