Í lok desember 2017, þegar fyrstu áramót eftir þingkosningarnar það ár stóðu fyrir dyrum, var sameiginlegt fylgi stjórnarflokkanna þriggja 54,3 prósent. Þá sögðust 25,1 prósent landsmanna styðja Sjálfstæðisflokkinn, 17,3 prósent Vinstri græn og 11,9 prósent Framsóknarflokkinn. Þá mældust þeir með meira fylgi en þeir fengu samtals 52,9 prósent í kosningunum í lok október 2017.
Nú, fjórum árum síðar og við fyrstu áramót eftir þingkosningarnar haustið 2021, er staðan að nokkru leyti öðruvísi. Flokkarnir þrír endurnýjuðu stjórnarsamstarf sitt þrátt fyrir að bæði Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur hefðu tapað fylgi í kosningunum. Stóri sigurvegari þeirra var Framsóknarflokkurinn sem bætti meira við sig en samstarfsflokkarnir töpuðu. Samanlagt fengu þeir nákvæmlega sama fylgi og þeir mældust með í lok árs 2017 þegar talið var upp úr kjörkössunum, eða 54,3 prósent atkvæða.
Sjálfstæðisflokkurinn dalar líka frá kosningunum, alls um 1,1 prósent, og nýtur nú stuðnings 23,3 prósent kjósenda. Vert er að taka fram að Sjálfstæðisflokkurinn hefur tilhneigingu til að mælast með minna fylgi í könnunum en hann fær í kosningum. Framsóknarflokkurinn bætir einn stjórnarflokkanna við sig frá kosningunum og um síðustu áramót sögðust 17,7 prósent að þeir myndu kjósa flokkinn ef gengið yrði til kosninga nú.
Piratar á flugi en Miðflokkur að hverfa
Sá stjórnarandstöðuflokkur sem hefur bætt mestu fylgi við sig á fyrstu mánuðum yfirstandandi kjörtímabils eru Píratar. Nú segjast 12,5 prósent landsmanna að þeir myndu kjósa flokkinn, sem er 3,9 prósent meira en hann fékk í kosningunum í september í fyrra. Píratar hafa sögulega oft mælst með meira fylgi í könnunum en þeir fá í kosningum. Flokkurinn er nú að mælast sem þriðji stærsti flokkur landsins, stærri en Vinstri græn sem voru það eftir síðustu kosningar.
Samfylkingin bætir lítillega við sig frá kosningum og mælist nú með 10,5 prósent fylgi, sem er nánast sama fylgi og Vinstri græn mælast með.
Viðreisn er á svipuðum slóðum og í haust með 8,7 prósent fylgi og sömu sögu er að segja með Flokk fólksins, sem mælist með 8,6 prósent fylgi, og Sósíalistaflokk Íslands, sem mælist með 4,5 prósent fylgi.
Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem telur nú tvo þingmenn, heldur áfram að dala og mælist nú með einungis 3,4 prósent fylgi, sem er 2,1 prósentustigum minna en hann fékk í síðustu kosningum. Fylgi Miðflokksins hefur aldrei mælst minna í mælingum Gallup frá því að það var fyrst mælt í aðdraganda kosninganna 2017.
Niðurstöður um fylgi flokkanna á landsvísu eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 1. til 30. desember 2021. Heildarúrtaksstærð var 7.890 og þátttökuhlutfall var 51,2 prósent. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,6-1,4 prósent. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.