Mikil breyting verður á stjórnarráðinu með myndun nýrrar ríkisstjórnar. Ráðherrum mun fjölga og verða tólf og fjölmörg ráðuneyti verða í raun brotin upp þar sem málaflokkar flytjast á milli. Samkvæmt heimildum Kjarnans er uppstokkunin svo víðfeðm að sum ráðuneytin eru ekki einu sinni komin með nafn.
En í meginatriðum verður skiptingin þannig að Sjálfstæðisflokkurinn heldur fimm ráðuneytum. Hann mun halda á fjármálaráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu og dómsmálum, sem verða í nýju innanríkisráðuneyti, og fara fyrir tveimur nýjum ráðuneytum til viðbótar.
Annað þeirra mun fara með loftslags- og orkumál og hitt verður með háskóla, iðnað og nýsköpun, en núverandi mennta- og menningarmálaráðuneyti verður brotið upp í nokkra hluta og málaflokkum þess dreift.
Framsókn bætir við sig
Framsóknarflokkurinn bætir við sig einu ráðuneyti og fær fjögur. Þar á meðal er innviðaráðuneyti sem fær málaflokka úr öðrum ráðuneytum, t.d. skipulagsmál, en verður byggt á grunni samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Stóru fréttirnar eru að Framsóknarflokkurinn mun stýra heilbrigðisráðuneytinu á næsta kjörtímabili og samkvæmt heimildum Kjarnans hefur verið ákveðið að skipa sérstaka stjórn yfir Landsspítalann. Þá mun Framsóknarflokkurinn stýra ráðuneyti grunnskóla og íþrótta og sameiginlegt ferðaþjónustu-, viðskipta- og menningarmálaráðuneyti.
Ráðherrakapallinn eftir
Ekki hefur verið greint frá því hverjir verða ráðherrar en búist er við að auk Katrínar muni Svandís Svavarsdóttir og Guðmundur Ingi Guðbrandsson áfram gegna ráðherraembætti fyrir Vinstri græn.
Hjá Sjálfstæðisflokknum þykir einboðið að Bjarni Benediktsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson verði ráðherrar. Líklegast þykir að fimmti ráðherrastóllinn fari til Guðrúnar Hafsteinsdóttur, oddvita í Suðurkjördæmi, en ráðherrakapallinn verður ekki kynntur fyrr en á þingflokksfundum í fyrramálið.
Hjá Framsóknarflokki verða Sigurður Ingi Jóhannsson, Lilja Alfreðsdóttir og Ásmundur Einar Daðason áfram ráðherrar og sennilegast bætist Willum Þór Þórsson í hópinn.
Sáttmáli kynntur á morgun
Stjórnarsáttmálinn verður kynntur á morgun ef flokksstofnanir samþykkja stjórnarsáttmálann í dag. Þingflokkar munu síðan funda á morgun og þar verður ráðherraskipan kunngjörð.
Einhverjar lagabreytingar mun þurfa til að breyta ráðuneytum og þing þarf að samþykkja þær. Svo er hægt að ráðast í aðrar breytingar með úrskurði forseta.