Vinstri græn munu ekki sækjast eftir því að taka þátt í viðræðum um meirihlutasamstarf í borginni. Frá þessu greinir Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna í Reykjavík, á Facebook.
Líf segir það gleðilegt að flokkurinn hafi haldið sínum borgarfulltrúa en að niðurstöður kosninganna séu veruleg vonbrigði fyrir flokkinn. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinsti grænna, sagði í Silfrinu á RÚV í morgun að flokkurinn þurfi að velta fyrir sér hvort hann eigi erindi í borgarstjórn eftir niðurstöðu kosninganna.
Líf segir að flokknum hafi ekki tekist að afreka það sem þau höfðu væntingar til, að styrkja rödd félagslegs réttlætis, kvenfrelsis og umhverfisverndar í borgarstjórn með því að bæta við borgarfulltrúum.
Fráfarandi meirihluti féll í kosningunum í gær og fær tíu borgarfulltrúa kjörna. Líf segir að Vinstri græn muni veita nýjum meirihluta öflugt og málefnalegt aðhald og verði ávallt tilbúin til samstarfs um mál sem miða að framgangi femínisma, félagslegs réttlætis, umhverfisverndar og loftslagsaðgerða.
Ljóst er að staðan í borginni er snúin og flækist jafnvel enn þá meira með yfirlýsingu Lífar um að Vinstri græn ætli ekki að taka þátt í meirihlutasamstarfi.
Við Vinstri græn héldum okkar borgarfulltrúa og er það gleðilegt. Hins vegar eru niðurstöður kosninganna veruleg...
Posted by Líf Magneudóttir on Sunday, May 15, 2022
Viðreisn lýsir yfir vilja til áframhaldandi meirihlutasamstarf
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í borginni, gefur hins vegar í skyn í færslu á Facebook að flokkur hennar sé reiðubúinn til að halda áfram í meirihluta í borgarstjórn.
Hún segir ljóst að næsta verkefni í borginni verði að mynda starfhæfan meirihluta til að leiða Reykjavík næstu fjögur árin.
„Ég vona að okkur beri gæfa til að það verði meirihluti sem mun áfram leiða Reykjavík í átt að því að verða meiri borg. Borg þar sem hægt verður að byggja upp lifandi borgarstemningu í öllum hverfum með skynsamri þéttingu og aukinni atvinnu og þjónustu inn í hverfin. Borg þar sem haldið verður áfram að einfalda þjónustu og færa hana nær borgarbúum, þar sem stutt verður við atvinnulífið og þar sem haldið verður þétt um rekstur borgarinnar. Það eru málefnin sem þurfa að ráða för í þessum næsta fas,“ skrifar Þórdís Lóa og bendir á þetta séu þau áherslumál sem Viðreisn lagði upp með í nýafstaðinni kosningabaráttu.
Viðreisn fékk 5,2 prósent fylgi og missti einn borgarfulltrúa. Þórdís Lóa verður því eini borgarfulltrúi Viðreisnar í borginni. Hún segir það mikil vonbrigði að Pawel Bartoszek hafi ekki náð kjöri. „Hann hefur unnið vel með fólki í öllum flokkum og haldið vel utan um skipulagsmálin. En hann mun áfram starfa mér við hlið sem varaborgarfulltrúi og við tvö munum áfram vera rödd samtals, yfirvegunar og frjálslyndis í borgarstjórn,“ skrifar Þórdís Lóa.
Hún segir Viðreisn vera öfgalausan miðjuflokk sem geti unnið bæði til hægri og vinstri „En áherslur okkar virtust ekki ná almennilega í gegn í síðustu vikunni, þegar baráttan um atkvæðin hófst fyrir alvöru. Það breytir því ekki að baráttan okkar var jákvæð og skemmtileg og ég er stolt af henni, “ segir í færslu Þórdísar Lóu.
Nú er búið að telja upp úr kjörkössunum og ljóst að næsta verkefni hér í Reykjavík er að mynda starfhæfan meirihluta til...
Posted by Þórdís Lóa on Sunday, May 15, 2022