Í lok júlí var virði þeirra 29 félaga sem skráð eru á Aðalmarkað Kauphallar Íslands og First North markaðinn 2.620 milljarðar króna. Virði félaganna jókst um 115 milljarða króna frá lokum júní mánaðar.
Þetta kemur fram í viðskiptayfirliti Nasdaq Iceland, sem rekur íslensku Kauphöllina, sem birt var í gær.
Úrvalsvísitalan hækkaði um 7,9 prósent í síðasta mánuði. Viðskipti með skráð hlutabréf drógust saman um 16 prósent frá því sem þau voru í júlí í fyrra.
Heildarmarkaðsvirði hlutabréfa skráðra félaga í Kauphöll Íslands lækkaði umtalsvert á fyrstu fimm mánuðum ársins. Frá áramótum og út maímánuð lækkaði virði þeirra um 358 milljarða króna, niður í 2.198 milljarða króna. Í maímánuði einum saman lækkaði það um 243 milljarða króna, eða um tíu prósent. Sú lækkun sem varð á úrvalsvísitölunni, sem mælir gengi þeirra tíu skráðu félaga sem eru með mesta seljanleika hverju sinni, í þeim mánuði, var mesta lækkun sem orðið hefur innan mánaðar á vísitölunni síðan í maí 2010, eða í tólf ár.
Í júní voru þrjú félög skráð í Kauphöllina. Ölgerðin og Nova voru skráð á Aðalmarkað og Alvotech á First North markaðinn samhliða skráningu í Bandaríkjunum.
Ef sú tala er dregin frá heildarvirði skráðra félaga má sjá að virði hinna 26 sem skráð voru á markað í byrjun júní 2.309,3 milljarðar króna. Virði þeirra hefur því aukist um 111,3 milljarða króna í júní og júlí.
Fleiri hækkað en lækkað á árinu
Sú mikla dýfa sem íslenskur hlutabréfamarkaður gekk í gegnum á fyrstu mánuðum þessa árs kom í kjölfar mikils uppgangs á árunum 2020 og 2021.
Á árinu 2020 hækkaði úrvalsvísitalan um 20,5 prósent og heildarvísitala hlutabréfa um 24,3 prósent. Markaðsvirði þeirra 23 félaga sem skráð voru á markaðina tvo á því ári hækkaði um 312 milljarða króna á því ári, eða um 24 prósent. Í fyrra gekk enn betur. Bréf í öllum félögum á aðalmarkaði, og öllu nema einu á First North, hækkuðu. Alls hækkaði úrvalsvísitalan um 33 prósent og heildarvísitala hlutabréfa um 40,2 prósent. Þau tvö félög sem hækkuðu mest í virði, Arion banki og Eimskip, tvöfölduðu markaðsvirði sitt.
Á árinu 2021 voru hlutabréf fjögurra félaga tekin til viðskipta í Kauphöll. Síldarvinnslan og Íslandsbanki voru skráð á aðalmarkað og PLAY og Solid Clouds á First North. Skráning þeirra spilaði rullu, ásamt miklum hækkunum á virði annarra félaga, í því að markaðsvirði skráðra bréfa hækkaði um næstum þúsund milljarða króna í fyrra og var 2.556 milljarðar króna um síðustu áramót.
Alls hafa 15 skráð félög hafa hækkað í virði það sem af er ári en 14 lækkað. Mest hafa Eik (29,5 prósent) og Icelandair Group (29 prósent) hækkað en
lækkunin hefur að stærstu leyti verið drifin áfram af því að Marel, langstærsta félagið í Kauphöll Íslands, hefur lækkað um rúmlega 30 prósent frá áramótum. Um síðustu áramót var markaðsvirði Marel 663,5 milljarðar króna. Það er nú komið niður í 465,7 milljarða króna, sem þýðir að 197,8 milljarðar króna hafa horfið af markaðsvirði Marel á sjö mánuðum.
Nýju félögunum sem skráð voru á markað í júní hefur vegnað mismunandi á fyrstu metrum sinnar skráðu tilveru. Ölgerðin hefur hækkað um 14,6 prósent á meðan að Nova hefur lækkað um átta prósent. Alvotech, hefur síðan lækkað um 18,17 prósent og er nú, líkt og áður sagði, verðmetið á 265,6 milljarða króna.