Mynd: Landsbankinn

Léleg arðsemi Landsbankans tilkomin vegna þess að bankinn á stóran hlut í Marel

Stóru bankarnir þrír birtu nýverið uppgjör sín vegna fyrri hluta ársins 2022. Hagnaður Íslandsbanka og Arion banka jókst milli ára og arðsemi þeirra var yfir markmiðum. Hagnaður Landsbankans dróst hins vegar verulega saman og arðsemi hans var langt frá markmiði. Ástæðan er einföld: eign bankans í Marel lækkaði verulega í virði.

Hagn­aður Lands­bank­ans, eina stóra við­skipta­bank­ans sem er að nær öllu leyti í eigu íslenska rík­is­ins og sá eini sem er ekki skráður á hluta­bréfa­mark­að, dróst umtals­vert saman á fyrri hluta árs­ins 2022 í sam­an­burði við sama tíma­bil í fyrra. 

Á fyrstu sex mán­uðum þessa árs hagn­að­ist bank­inn um 5,6 millj­arða króna en á sama tíma­bili á árinu 2021 nam hagn­aður bank­ans 14,1 millj­arði króna. Hann dróst því saman um 8,5 millj­arða króna milli ára. 

Á sama tíma jókst hagn­aður Íslands­banka um rúm­lega tvo millj­arða króna og hagn­aður Arion banka um 1,6 millj­arð króna, þótt taka verði fram að salan á Valitor vigtaði umtals­vert í upp­gjöri þess banka. 

Allir bank­arnir setja sé arð­sem­is­mark­mið. Helsti mæli­kvarð­inn á árangur þeirra er hversu vel þeim tekst að ávaxta eigið fé sitt. Þannig náði Arion banki 16,9 pró­sent arð­semi á sitt eigið fé á fyrstu sex mán­uðum árs­ins og Íslands­banki náði 10,9 pró­sent arð­semi. Báðir bank­arnir græddu umfram mark­mið sín. Það gerði Lands­bank­inn hins vegar ekki. Bank­inn hefur sett sér það mark­mið að ná tíu pró­sent arð­semi á eigin fé sitt á ári. Á fyrri hluta yfir­stand­andi árs var sú arð­semi 4,1 pró­sent, og því langt frá settu mark­mið­i. 

Við­snún­ingur upp á 7,9 millj­arða króna

Af hverju er rík­is­bank­inn að hagn­ast svona miklu minna en hinir stóru bank­arn­ir? Þjón­ustu­tekjur hans juk­ust gríð­ar­lega milli ára, alls um 24 pró­sent. Og vaxta­tekjur hans sömu­leið­is, alls um 13 pró­sent, sam­hliða mik­illi stækkun á útlána­safni bank­ans og hærra vaxta­stigs í ljósi þess að stýri­vextir hafa hækkað úr 0,75 í 4,75 pró­sentu­stig frá því í maí í fyrra.

Ástæða þess að hagn­aður Lands­bank­ans var mun minni en hinna er vegna þess „gang­virði hluta­bréfa­eignar bank­ans“. Á manna­máli þýðir það að Lands­bank­inn á mjög mikið af hluta­bréf­um, miklu meira en hinir bank­arnir tveir. Þegar þau hluta­bréf hækka í virði þá hefur það mikil áhrif á gengi Lands­bank­ans en þegar þau lækka þá verða áhrifin hratt nei­kvæð. 

Á fyrri hluta árs­ins 2022 lækk­aði virði hluta­bréfa í eigu bank­ans um 5,3 millj­arða króna, en þau hækk­uðu um 2,6 millj­arða króna á sama tíma­bili í fyrra. Þarna er því um við­snún­ing upp á 7,9 millj­arða króna að ræða. 

Hlut­ur­inn í Marel lækkað mikið

Langstærsta hluta­bréfa­eign bank­ans er 3,5 pró­sent óbeinn hlutur í Mar­el, lang­verð­mætasta skráða félagið á íslenska hluta­bréfa­mark­að­in­um, í gegnum 14,1 pró­sent eign­ar­hlut í Eyri Invest, stærsta eig­anda Mar­el. Sá hlutur var um 23,6 millj­arða króna virði í lok jún í fyrra, eftir mikla hækk­un­ar­hr­inu sem átti sér stað sam­hliða því að kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn skall á. Alls hækk­uðu hluta­bréf í Marel um 93,2 pró­sent frá því í mars 2020 og til ágúst­loka 2021. Þau næstum tvö­föld­uð­ust. Og virði þeirra bréfa sem Lands­bank­inn heldur á í félag­inu jókst um sama hlut­fall. 

Hlutur Lands­bank­ans í Marel í lok júní síð­ast­lið­ins var met­inn á 16,3 millj­arða króna. Hann hafði lækkað um 7,3 millj­arða króna á einu ári. Þar er því komin stærsta ástæðan fyrir því að hagn­aður Lands­bank­ans var jafn mikið úr takti við hagnað hinna stóru bank­anna tveggja á fyrri hluta árs­ins. 

Seldu hlut í Eyri Invest til Eyris Invest

Eign Lands­bank­ans í Eyri Invest á sér langa sögu. Bank­inn eign­að­ist hlut­inn eftir að hann var end­ur­reistur á grunni hins fallna Lands­banka Íslands eftir banka­hrun­ið. Eign­ar­hald Lands­bank­ans í Eyri Invest tald­ist lengi fela í sér tíma­bundna starf­semi í skiln­ingi laga um fjár­mála­fyr­ir­tæki, enda Marel í alls óskyldum rekstri. Fjár­mála­eft­ir­litið þrýsti lengi á bank­ann að minnka hlut sinn í fjár­fest­inga­fé­lag­inu og vorið 2016 bauð Lands­bank­inn eign­ar­hlut­inn allan til sölu. Fimm til­boð bár­ust en þeim var öllum hafnað þar sem þau þóttu ekki nógu há.

Í sept­em­ber 2018 hóf Fjár­mála­eft­ir­litið að leggja dag­sektir á Lands­bank­ann vegna þess að hann hafði ekki brugð­ist við þeim þrýst­ing­i. 

Í nóv­em­ber 2018 seldi bank­inn hluta þeirra bréfa sem hann átti í Eyri Invest, nán­ast að öllu leyti til Eyris Invest. Eftir það á bank­inn 14,1 pró­sent hlut í fjár­fest­inga­fé­lag­inu. Virði óbeins eign­ar­hluta hans í Marel í gegnum þann eign­ar­hlut var 9,9 millj­arðar króna í lok árs 2018 og því var hann enn 6,4 millj­örðum krónum verð­meiri um mitt þetta ár en þá þrátt fyrir mikla lækkun árið á und­an. 

Áttu 130 millj­arða króna í eigin fé

Eyrir Invest er eitt stærsta fjár­fest­inga­fé­lag lands­ins. Stærstu eig­endur þess eru feðgarnir Þórður Magn­ús­son og Árni Oddur Þórð­ar­son, for­stjóri Mar­el, með sam­an­lagðan 38,5 pró­sent eign­ar­hlut. Stærsta eign þess er, líkt og áður sagði, tæp­lega fjórð­ungs­hlutur í Mar­el. Eigið fé Eyris Invest var um 130 millj­arðar króna um síð­ustu ára­mót og hagn­aður þess á síð­asta ári einu saman nam um 23 millj­örðum króna. Sá hagn­aður var að lang­mestu leyti til­kom­inn vegna mats­breyt­inga á bréfum félags­ins í Mar­el.

Þórður Magnússon er stærsti einstaki hluthafinn í Eyri Invest og er stjórnarformaður félagsins.
Mynd: Eyrir Invest

Marel birti árs­hluta­upp­gjör sitt fyrir fyrri hluta árs­ins 2022 í síð­ustu viku. Í aðdrag­anda þess sendi félagið frá sér afkomu­við­vörun þar sem rekstr­ar­nið­ur­staða ann­ars árs­fjórð­ungs var undir vænt­ing­um, að uppi­stöðu vegna „áfram­hald­andi áskor­ana tengdum aðfanga­keðju og hárrar verð­bólgu sem leiddi til hæg­ari tekju­vaxtar en vænt var.“ Dag­inn eftir að afkomu­við­vör­unin var send út lækk­aði hluta­bréf í Marel um tæp ell­efu pró­sent. 

Í til­kynn­ingu til Kaup­hallar kom fram að Marel myndi grípa til aðgerða til að bæta rekstr­ar­af­komu sína þegar í stað. „Til að lækka kostnað hefur sú erf­iða ákvörðun verið tekin að fækka starfs­mönnum félags­ins um fimm pró­sent á heims­vís­u.“

Árni Oddur Þórðarson, næst stærsti einstaki hluthafinn í Eyri Invest, stýrir stærstu eign félagsins, Marel.
Mynd: Skjáskot

Þegar Marel birti loks upp­gjör sitt 27. júlí síð­ast­lið­inn var haft eftir Árna Oddi, for­stjóra félags­ins, í til­kynn­ingu að fram­legðin á árs­fjórð­ungnum hefði verið óvið­un­andi þrátt fyrir að nýtt met hefði verið sett í pönt­un­um. Gert væri ráð fyrir bættri rekstr­ar­af­komu á síð­ari helm­ingi árs­ins. 

Marel er áfram sem áður langstærsta félagið í Kaup­höll Íslands. Mark­aðsvirði þess við lokun mark­aða á föstu­dag var 465,7 millj­arðar króna.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar