Vladimir Pútín, forseti Rússlands, telur að Sepp Blatter, fráfarandi forseti FIFA, eigi skilið Nóbelsverðlaun fyrir störf sín í þágu knattspyrnusambandsins. Í viðtali við svissnesku sjónvarpsstöðina RTS sagði Pútín að Blatter og aðrir æðstu stjórnendur alþjóðlegra íþróttasambanda eigi skilið viðurkenningu. Ef einhverjir eigi skilið Nóbelsverðlaun, þá sé það þetta fólk. The Guardian greinir frá í dag.
Blatter og Pútín hittust í St. Pétursborg síðasta laugardag þegar dregið var í riðla fyrir undankeppni Heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem verður haldið í Rússlandi 2018. Blatter opinberaði að FIFA styðji að fullu við bakið á gestgjöfum Rússum, en landið hefur glímt við mikla erfiðleika í efnahagslífinu að undanförnu. „Við vitum stöðuna á Blatter í dag. Ég vil ekki ræða smáatriði en ég trúi ekki orði af því sem sagt er um hann tengist spillingarmálum persónulega,“ sagði Pútín við fjölmiðla. Blatter tilkynnti í júní síðastliðnum að hann muni stíga niður af stóli forseta FIFA. Það gerði hann í kjölfar handtaka í maí síðastliðnum á níu stjórnendum FIFA og ákærum um peningaþvætti, mútur og spillinu. Blatter hefur alltaf haldið fram sakleysi sínu og hefur ekki verið ákærður. Það var bandaríska alríkislögreglan, FBI, sem rannsakaði starfsemi FIFA.
Stóra spillingarmálið hefur vakið spurningar um hvort stjórnvöld í Rússlandi og Katar, sem halda mótið 2022, hafi fengið útnefningu FIFA með löglegum og heiðarlegum hætti. Rússar hafa ætíð hafnað því að nokkuð misjafnt hafi viðhafst.
Líklegasti arftaki Sepp Blatter í starf forseta FIFA er Michael Platini, forseti UEFA. Búist er við að hann greini frá framboði sínu til forseta FIFA síðar í þessari viku, að því er segir í frétt á Fótbolti.net. Kosningarnar verða haldnar þann 26. febrúar á næsta ári.