Sautján ríkustu stjórnendur vogunarsjóða í Bandaríkjunum eru hvítir karlar á eða yfir miðjum aldri. Þetta kemur fram á lista Forbes yfir þá stjórnendur vogunarsjóða og miðlara á Wall Street sem þénuðu mest á árinu 2014.
Í efsta sætinu er hinn 59 ára gamli sjö barna faðir Steve Cohen (sjá aðalmynd með frétt), sem þénaði um 1,3 milljarð dala (um 142 milljarða króna) á síðasta ári. Heildareignir Cohn, sem stofnaði vogunarsjóðinn Point72 Asset Management, eru taldar vera 11,4 milljarðir dala, rúmlega 1.500 milljarðar króna. Hann er í sæti 109 yfir ríkustu menn heims á nýbirtum lista Forbes.
Paul Singer stýrir holdgervingi hrægammasjóðanna, Elliott Management sjóðnum.
Soros og Singer
Nokkur vel þekkt nöfn eru á listanum yfir stjórnendur vogunarsjóða sem þénuðu mest á síðasta ári. Á meðal þeirra eru George Soros, sem situr í öðru sæti listans. Hann þénaði 1,2 milljarð dala, 162 milljarða króna, til að bæta í þá rúmlega þrjú þúsund milljarða króna sem hann átti þá þegar.
Í 16. sætinu er Paul Singer, stofnandi og forstjóri Elliott Management. Hann er sjötugur milljarðamæringur af gyðingaættum sem hefur meðal annars unnið sér það til frægðar að hafa stutt dyggilega við bakið á baráttunni fyrir auknum réttindum samkynhneigðra í Bandaríkjunum.
Sjóður hans er einn sá hataðasti í veröldinni, enda hefur hann einbeitt sér að því að fjárfesta í skuldum ríkja, eða fyrirtækja innan ríkja, sem glíma við neyð og jafnvel greiðsluþrot. Hann er því holdgervingur hugtaksins hrægammasjóður. Elliott-sjóðurinn hefur til að mynda gert sig mjög gildandi í Argentínu og Kjarninn greindi frá því í fyrrasumar að félög eða sjóðir tengdir honum hefðu verið að eignast kröfur á föllnu íslensku bankanna.
Feroz Dewan situr í átjánda sæti á lista Forbes yfir þá stjórnendur vogunarsjóða sem þénuðu best í fyrra.
Alinn upp í Singapore
Efsti maður á lista sem er ekki hvítur er Feroz Dewan, sem er af indversku bergi brotinn en er alinn upp í Singapore. Hann situr í 18. sæti. Dewan stýrir og er á meðal eigenda vogunarsjóðsins Tiger Global Management, sem skilaði 17 prósenta ávöxtun á árinu 2014. Dewan er talinn hafa þénað um 200 milljónir dala, um 27 milljarða króna, í fyrra.