Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi, sækist eftir oddvitasæti flokksins í kjördæminu í komandi Alþingiskosningum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Willum Þór.
Willum Þór settist fyrst á þing fyrir Framsóknarflokkinn árið 2013. Síðan þá hefur hann setið nær sleitulaust á þingi en hann var varaþingmaður flokksins um tíma árið 2017. Á þessu kjörtímabili gegndi Willum formennsku í fjárlaganefnd auk þess sem hann er þingflokksformaður flokksins. Þá hefur Willum setið í efnahags- og viðskiptanefnd, allsherjar- og menntamálanefnd og forsætisnefnd.
Í tilkynningunni segir Willum yfirstandandi kjörtímabil hafa verið viðburðaríkt og krefjandi. „Næstu misseri verða mikilvæg í viðspyrnunni og miklar áskoranir m.a. á sviði efnahagsmála, ríkisfjármála og atvinnumála. Stór mál sem þarf að takast á við af ábyrgð, festu og skynsemi,“ segir þar einnig.
„Ég trúi því að reynsla mín af þeim ábyrgðarstörfum sem mér hefur verið trúað fyrir komi að góðum notum við þær áskoranir sem framundan eru,“ segir í tilkynningu Willums.