Kínverski snjallsímaframleiðandinn Xiaomi er í fjármögnunarhugleiðingum og safnar nú nýju hlutafé upp á einn milljarð Bandaríkjadala, um 120 milljarða íslenskra króna, þar sem ráð er fyrir því gert að heildarvirði félagsins sé 45 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur 5.400 milljörðum íslenskra króna. Fyrir sextán mánuðum síðan var fyrirtækið metið á tíu milljarða Bandaríkjadala, eða um 1.200 milljarða króna. Verðmæti félagsins hefur því rúmlega fjórfaldast á skömmum tíma.
Xiaomi er svo til óþekkt utan Kína, en hlutdeild þess á heimsmarkaði er þó gríðarlega mikil. Dótturfélög þessa snjallsímarisa koma meðal annars að því að framleiða ýmsa hluta sem nýttir eru í iPhone síma Apple og einnig síma frá Samsung. Þá eru símar frá fyrirtækinu vinsælir í Kína og öðrum Asíu-ríkjum.
Í umfjöllun Wall Street Journal segir að ef fyrirtækinu tekst að afla þess fjár sem að er stefnt, þá muni það verða eitt verðmætasta nýsköpunarfyrirtæki á sviði tækni á heimsvísu.