Talið er að yfir þúsund manns hafi farist í jarðskjálfta af stærðinni 7,8 sem reið yfir í Nepal klukkan rúmlega sex í morgun að íslenskum tíma. Ljóst er að tala látinna á eftir að hækka enn frekar, því margra er saknað eftir skjálftann. Nú vinna björgunarsveitir og íbúar á svæðinu hörðum höndum að því að grafa fólk úr rústum bygginga, sem féllu margar hverjar eins og spilaborgir þegar skjálftinn skók Nepal.
Skjálftinn átti upptök sín mitt á milli tveggja stærstu borga landsins, Katmandú og Pokhara, en þetta var öflugasti jarðskjálfti sem mælst hefur á svæðinu í áttatíu ár. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Nepal, og fjöldi ríkja og helstu hjálparsamtök heims heitið Nepölum aðstoð.
Grannríki Nepals fundu vel fyrir skjálftanum, en í Indlandi, Tíbet og Bangladess hefur verið tilkynnt um manntjón sökum hans. Þá létu að minnsta kosti þrettán lífið í snjóflóði við Everestfjall, en Íslendingarnir Vilborg Arna Gissurardóttir og Ingólfur Ragnar Axelsson, sem hyggjast klífa fjallið, eru bæði heil á húfi sem og fjórir aðrir Íslendingar sem vitað er um í Nepal.
Rauði krossinn á Íslandi hefur ákveðið að leggja fimm milljónir króna til hjálparstarfsins í Nepal, þar sem starfsmenn og sjálfboðaliðar vinna baki brotnu við að aðstoða þolendur jarðskjálftans mikla. Hægt er að styrkja Rauða krossinn með því að hringja í 904-1500 (framlag: 1.500 kr), 904-2500 (framlag 2.500 kr) eða 904-5500 (framlag 5.500 kr). Einnig er hægt að leggja fé inn á reikning Rauða krossins 0342-26-12, kt. 530269-2649.