Það rignir og það rignir. Og rignir svolítið meira. Stundum heilmikið meira. Jarðvegurinn er löngu orðinn mettaður af vatni og ef úrkoman heldur áfram að aukast, eins og spáð hefur verið, gætu orðið svokölluð skyndiflóð.
Þannig var ástandið í Sydney í Ástralíu í dag. Veðurstofan óttast að flóðin ánum Hawkesbury og Nepean verði meiri en þekkst hafa hingað til. Úrkoman í Sydneyhefur þegar náð ársmeðaltali – og apríl er rétt að byrja.
Rigningunum miklu á samkvæmt spám að slota á morgun, föstudag, og á sunnudag er von á sólskini. En þangað til eru nokkrar klukkustundir sem gætu skipt sköpum fyrir marga. Og í næstu viku er aftur spáð mikilli úrkomu.
Simone Baluch var meðal þeirra sem þurftu að yfirgefa heimili sitt í dag. Hún býr í hverfi sem kallast Chipping Norton – í húsi sem afi hennar og amma keyptu á áttunda áratug síðustu aldar. Á öllum þeim tíma sem fjölskyldan hefur búið þar hefur aðeins þurft að rýma það tvisvar áður. En á síðustu vikum hefur Baluch þurft að flýja undan vatninu í þrígang. Hún lýstir því í samtali við dagblaðið The Sydney Morning Herald hvernig hún hafi verið að færa hluti milli hæða, til að forða þeim frá skemmdum, er vatnið hóf að flæða inn og það mun hraðar en hún átti von á. George-áin er skammt frá heimili hennar og hún flæddi yfir bakka sína í dag. Og veðurstofan óttast að hún eigi eftir að verða enn vatnsmeiri í kjölfar þrumuveðurs sem væntanlegt er í nótt.
Veðrið í og við Sydney í Nýja Suður-Wales á austurströnd Ástralíu, hefur einkennst af miklum öfgum í úrkomu síðustu vikurnar. Sem dæmi þá hafði vatnsborð Nepean-árinnar við Menangle-brúna náð 16,75 metrum í morgun sem er sambærileg hæð og áin náði í hamfaraveðri árin 1988. Og enn vex vatnið.
Íbúar hafa verið beðnir að vera sérstaklega á varðbergi, vera ekki á ferð um vegi og brýr og tilbúnir að yfirgefa heimili sín ef ástandið heldur áfram að versna. Jarðvegurinn er þegar orðinn fullmettaður af vatni og síðdegis í dag átti enn eftir að bæta í sem gæti þýtt hættuleg skyndiflóð. Slík flóð hafa þegar orðið og þar sem vatnið á enga leið niður í jörðina þá flæðir það inn á milli húsa og fram af klettum í hverfunum við sjávarsíðuna.
Árlega falla að meðaltali rúmlega 1.213 mm af úrkomu í Sydney. En á fyrstu þremur mánuðum ársins hefur úrkoman þegar mælst 1.226 mm.