Birgir Þórarinsson, sem kjörinn var á þing fyrir Miðflokkinn fyrir tveimur vikum í Suðurkjördæmi, hefur ákveðið að segja skilið við flokkinn og ganga til liðs við þingflokk Sjálfstæðisflokks. Varamaður hans í kjördæminu, Erna Bjarnadóttir, styður ákvörðunina. Birgir greinir frá þessu í grein sem hann skrifar í Morgunblaðið í dag.
Við þessi vistaskipti fjölgar þingmönnum í þingflokki Sjálfstæðisflokks úr 16 í 17 og meirihluti sitjandi ríkisstjórnar fer í 38 þingmenn.
Í greininni í Morgunblaðinu segir Birgir að traust milli hans og forystu Miðflokksins sé brostið. „Þessi staða rekur rætur sínar allt aftur til hins svokallaða Klausturmáls. Eins og kunnugt er gagnrýndi ég málið opinberlega og viðbrögð þeirra sem í hlut áttu. Ég gat þess jafnframt að ég óskaði engum þess að vera þolandi eða gerandi í máli sem skók þjóðina dögum saman og enn er minnst á í fjölmiðlum. Að baki standa fjölskyldur sem hafa átt erfitt vegna málsins. Ég gagnrýndi samflokksmenn mína sem í hlut áttu vegna þess að heilindi við eigin samvisku og sú ábyrgð að breyta rétt í þjónustu við kjósendur er fyrsta skylda þingmanna. Eftir gagnrýni mína á Klausturmálið naut ég aldrei fulls trausts innan hópsins og um tíma var beinlínis litið svo á að ég væri vandamálið.“
Andstætt kristilegum gildum
Eftir að Klausturmálið svokallaða kom upp á yfirborðið seint á árinu 2018 sagði Birgir opinberlega að framferði sexmenninganna sem voru á Klaustri 20. nóvember væri andstætt kristilegum gildum. Í þeim hópi voru fjórir þáverandi þingmenn Miðflokksins og tveir sem síðar gengu til liðs við flokkinn úr Flokki fólksins. Þeir þingmenn Miðflokksins sem tóku þátt í samsætinu á Klaustri þyrftu, að mati Birgis, að gera það upp við sig hvort þeir segðu af sér eða ekki. Þeir sögðu ekki af sér.
Birgir sagði enn fremur að gera þyrfti greinarmun á þeim þingmönnum sem létu óviðurkvæmileg orð falla um konur, samþingmenn og ýmsa aðra á Klaustri, og þeim sem hlustuðu á en þögðu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hafi verið á meðal þeirra sem þögðu. Hann hefði, að mati Birgis, átt að grípa inn í tal hinna þingmanna flokksins, þeirra Gunnars Braga Sveinssonar og Bergþórs Ólasonar, sem ræddu meðal annars með kynferðislegum og niðrandi hætti um Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra.