Helga Vala Helgadóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar og Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra ræddu málefni fólks á flótta í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Þingmaðurinn byrjaði á því að vísa í frumvarp Jóns Gunnarssonar innanríkisráðherra til breytinga á lögum um útlendinga er varðar umsækjendur um alþjóðlega vernd sem birt er í samráðsgátt stjórnvalda. „Svo virðist sem hæstvirtur ráðherra sé þar hvort tveggja að leggja til lagabreytingar á sínu málefnasviði sem og á málefnasviði hæstvirts félagsmálaráðherra, sem hlýtur þá að vera samþykkur frumvarpinu,“ sagði hún.
Vildi hún í fyrirspurn sinni spyrja Guðmund Inga út í þær breytingar sem lagðar eru til að verði á þjónustu við fólk á flótta þess efnis að 30 dögum eftir synjun umsóknar falli öll þjónusta niður – þar með talið húsaskjól, framfærsla og heilbrigðisþjónusta. Helga Vala sagði að þar væri ekki undanskilinn hópur sem vegna veikinda sem komin væru til vegna flóttans, en hann væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu.
„Þá er vert að vekja athygli á að þessi 30 daga frestur er eingöngu fyrir þau sem koma beint frá ríki utan EES og þau sem koma ekki frá svokölluðum öruggum ríkjum. 30 daga fresturinn á ekki við hina, alla hina sem einhvern veginn komu frá öðrum ríkjum og missa rakleitt réttindi sín eftir að stjórnvöld hafa synjað umsókn þeirra. Nú skulum við átta okkur á því að með þessu getur sá sem lendir í slysi eða sá sem á við alvarlegan heilbrigðisvanda að etja ekki fengið nokkra einustu þjónustu hér á landi, ekki heilbrigðisþjónustu og viðkomandi skal búa á götunni í boði íslenskra stjórnvalda.“
Spurði hún hvað Guðmundur Ingi og Jón töldu sig ná fram með slíkum breytingum „að gera fólki að koma sér fyrir út undir vegg um borg og bæ á meðan beðið er brottflutnings og þar með geti stjórnvöld ekki haft neina yfirsýn yfir hvar fólkið er eða hvernig því vegnar né veitt því lífsnauðsynlega þjónustu á meðan það bíður brottvísunar“.
„Verð að viðurkenna að þetta er eitthvað sem ég þarf að setjast betur yfir“
Guðmundur Ingi kom í pontu og byrjaði á því að þakka þingmanni fyrir fyrirspurnina. „Umrætt frumvarp sem háttvirtur þingmaður nefnir hefur að geyma ákveðna þætti sem varða – ef ég er að horfa á sama frumvarp og háttvirtur þingmaður, þ.e. sem hefur að geyma ákveðna þætti er varða atvinnuleyfi,“ sagði ráðherrann en þegar hann var í miðri setningu var hrópað úr salnum að málið snerist ekki um það.
„Það er ekki svo. Það er þá hitt. Ókei, háttvirtur þingmaður er þá að tala um þjónustuna. Ég er búinn að ná því núna. Þakka þér fyrir, háttvirtur þingmaður. Ég verð að viðurkenna að þetta er eitthvað sem ég þarf að setjast betur yfir. Ég tel að þetta sé eitthvað sem við þurfum að skoða. Það hefur verið í umræðunni með hvaða móti eigi að reyna að takast á við þá þætti eða þann hóp af fólki sem orðið hefur eftir vegna COVID og hefur fengið frávísun frá landinu, með hvaða hætti megi auðvelda og hjálpa því fólki að komast heim til sín sem hefur neitað að fara heim. Verkefnið í mínum huga er með hvaða móti við getum leyst það. Síðan eru hér lagðar fram ákveðnar tillögur í þessu frumvarpi ráðherrans. En ég vil fá að kynna mér þetta betur, ég ætla að vera algerlega hreinskilinn með það, og mun gera það,“ sagði hann.
Óheppilegt að uppskipting Stjórnarráðsins bitnaði svona harkalega á fólki í neyð
Helga Vala sagði að það væri óheppilegt að uppskipting Stjórnarráðsins bitnaði svona harkalega á fólki í neyð þegar sá sem fer með þjónustu fólks í leit að vernd hér á landi væri ókunnugt um að í samráðsgátt lægi frumvarp frá innanríkisráðherra er varðar málefnasvið félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra.
„Þetta er eitt dæmi um þann rugling sem þessi uppskipting hefur valdið inni í stjórnkerfinu, eitthvað sem við hér í stjórnarandstöðunni höfum mótmælt harðlega, enda er yfirsýnin greinilega engin og ráðherrar þekkja illa sín málefnasvið. Auðvitað hefur maður fullan skilning á því að það taki tíma að setja sig inn í embætti, en það er óheppilegt þegar ráðherrar eru beinlínis að leggja fram frumvörp sem ekki eru á þeirra málefnasviði,“ sagði hún.
Spurði hún að endingu út í uppsögn á þjónustusamningi við Rauða kross Íslands, hvort Guðmundi Inga væri kunnugt um uppsögn á þeim samningi en starfsfólk Rauða krossins fékk uppsagnarbréfið afhent í dag, samkvæmt Helgu Völu.
Þurfa ráðrúm til að haga málum með samræmdum og góðum hætti
Guðmundur Ingi svaraði aftur og sagði að þær ákvarðanir sem þau hefðu tekið í félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytinu væru einfaldlega þær að gera samning við Útlendingastofnun núna í nokkra mánuði til þess að ekki kæmi rof í þjónustuna sem þau væru að taka við í ráðuneytinu og yrði á þeirra ábyrgð.
„Í þeim samningi sem ekki er búið að ganga frá er ekki fjallað um aðkomu Rauða krossins og ég er þeirrar skoðunar að á meðan við erum að reyna að samhæfa þjónustu hælisleitenda og þeirra sem hér hafa fengið alþjóðlega vernd þá þurfum við þetta ráðrúm sem ég vil gefa okkur, nokkra mánuði.
Meðan á þeim tíma stendur hef ég ekki hugsað mér að segja upp samningi við Rauða krossinn og hef ekki hugsað mér annað en að gera samning við Útlendingastofnun um að sinna þessum málum þar til við höfum fengið ráðrúm til að haga þessum málum með samræmdum og góðum hætti,“ sagði hann að lokum.