Ýmislegt bendir til þess að fullur efnahagsbati náist ekki mjög skjótt eftir að farsóttinni er lokið en efnahagsbatinn gæti orðið kröftugur framan af eftir að takmörkunum er létt. Það helgast af því að þá er verið að taka í notkun vinnuafl og framleiðslutæki sem eru ónýtt en það er fljótlegri leið til vaxtar en að skapa störf með fjárfestingum í nýrri framleiðslustarfsemi. Þetta skrifar Már Guðmunsson, fyrrverandi seðlabankastjóri í grein sinni í síðasta tölublaði Vísbendingar, sem birtist í gær.
Samkvæmt grein Más er efnahagssamdrátturinn sem varð í faraldrinum ólíkur flestum öðrum efnahagssamdráttum, þar sem hann átti hvorki rætur að rekja til efnahagslegs ójafnvægis í aðdragandanum né eyðileggingar á framleiðslugetu. Þetta hafi vakið vonir um að efnahagsbatinn gæti orðið hraður eftir faraldurinn..
Már segir þó slíkan viðsnúning munu óvíðast ganga fullkomlega upp, þar sem framleiðslugeta gæti hafa skerst a meðan á faraldrinum stóð. Þessi skerðing gæti hafa orðið vegna þess að hæfni atvinnulausra hafi minnkað, framleiðslutæki hafi verið flutt úr landi eða vegna þess að viðskiptasambönd hafi glatast.
„Auk þess ýmislegt sem bendir til þess að faraldurinn muni leiða til breytinga á neyslumynstri og skipulagi framleiðslu sem muni kalli á tilfærslu framleiðsluþátta og aðra aðlögun,“ segir Már. „Þá er líklegt að varúðarsparnaður heimila verði að óbreyttu meiri og fjárfestingarvilji fyrirtækja minni á næstu árum sakir þess að kreppan hefur fært þeim þau skilaboð að umhverfi þeirra er áhættusamara en þau töldu áður,“ bætir hann við.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu með því að smella hér.