Hækkun á nýsköpunarstyrkjum úr ríkissjóði hefur leitt til aukinnar ásóknar í styrkina, og frá 2011 til loka síðasta árs jókst veiting þeirra um 817,14 prósent. Í krónum þýðir það að árið 2011 voru veittir nýsköpunarstyrkir upp á 634,6 milljónir króna en í fyrra námu styrkirnir 5.185,5 milljónum króna. Á milli áranna 2019 og 2020 hækkaði veittur stuðningur um 145 prósent og félögin sem sóttu um stuðning fóru úr því að vera 163 í 201.
Ástæðan er sú að stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki var aukin sem hluti af ráðstöfunum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru í fyrra. Breytingarnar sem þá rötuðu í lög fólu í sér að við útreikning skattfrádráttar verði aðeins miðað við eina hámarksfjárhæð, sem verði 1,1 milljarður króna, við álagningu áranna 2021 og 2022 vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar. Þar af verði nýsköpunarfyrirtækjum heimilt, en ekki skylt, að telja til rannsóknar- og þróunarkostnaðar allt að 200 milljónum króna vegna aðkeyptrar þjónustu.
Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp frá þingflokki Viðreisnar um að gera þessa hækkun varanlega. Málið hefur hlotið framgang. Búið er að mæla fyrir því og það er nú til meðferðar hjá efnahags- og viðskiptanefnd. Hún hefur kallað eftir umsögnum um það og ein slík barst í gær, frá ríkisskattstjóra.
Hann hefur ýmislegt við frumvarpið að athuga.
Almennur rekstrarkostnaður sagður nýsköpun
Embætti ríkisskattstjóra bendir á í umsögn sinni að framkvæmd sú sem snerti nýsköpunarstyrki sé afar flókin þar sem erfitt geti verið að skilja á milli venjubundins rekstrarkostnaðar og kostnaðar vegna nýsköpunarverkefna. Á stundum þurfi sérhæfða þekkingu til að skilja þar á milli.
Áhyggjur ríkisskattstjóra eru ekki úr lausu lofti gripnar. Samkvæmt því sem fram kemur í umsögninni hefur reynslan af úthlutun nýsköpunarstyrkja úr ríkissjóði sýnt „að ekki er vanþörf á eftirliti með þessum málaflokki þar sem nokkur brögð hafa verið að því að við skattskil hafi almennur rekstrarkostnaður og kostnaður sem telja verður að tilheyri frekar eðlilegum endurbótum á fyrirliggjandi afurð sem viðkomandi fyrirtæki hefur tekjur af verið færður undir kostnað vegna staðfestra nýsköpunarverkefna.“
Ríkisskattstjóri bendir á að ekki hafi verið sett með lögum ákvæði um beitingu álags eða annarra refsiviðurlaga til að bregðast við eða skapa varnaðaráhrif vegna „háttsemi sem samrýmist ekki lögum þessum“.
Misnotkun kostnaðarsöm og raskar samkeppni
Í umsögninni segir að kostnaðargreinargerðir fyrirtækja sem sækjast eftir nýsköpunarstyrkjum, og áritaðar eru af endurskoðanda, skoðunarmanni eða viðurkenndum bókara byggi almennt einungis á niðurstöðum bókhaldsreikninga og staðhæfingum forstöðumanna viðkomandi fyrirtækja, um að tiltekinn kostnaður teljist rannsóknar- og þróunarkostnaður. Sjaldnast virðist því byggt á sjálfstæðu mati og skoðun fagaðila, að sögn ríkisskattstjóra. „Ekki ætti að þurfa að árétta að misnotkun á þessum stuðningi með óréttmætum kostnaðarfærslum getur leitt til verulegra útgjalda af hálfu hins opinbera, í formi óréttmætra endurgreiðslna, auk þess að raska samkeppni á markaði.“
Í ljósi alls þess telur ríkisskattstjóri „óvarlegt að gera ráðstafanir sem ljóst þykir að muni leiða til aukins umfangs málaflokksins til frambúðar, og aukinna endurgreiðslna úr ríkissjóði, án þess að hugað sé að því hvernig styrkja megi viðeigandi regluverk í því skyni að einfalda og styrkja umrædda framkvæmd. Slíkar breytingar væru jafnframt til þess fallnar að auka gagnsæi og fyrirsjáanleika gagnvart skattaðilum.“
Þá telur ríkisskattstjóri sérstaklega æskilegt að samhliða fyrirhugaðri breytingu lögunum, verði af henni, þá verði látið liggja skýrt fyrir hvort aðkeyptur kostnaður frá tengdum aðila skuli falla undir styrkhæfan kostnað eða ekki. Í lögunum eins og þau eru í dag einungis tekið á því hvernig fari með kostnað vegna aðkeyptrar rannsóknar- eða þróunarvinnu sem veitt er af ótengdum aðilum.