Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook, hefur viðurkennt að það hafi verið „sársaukafullt“ fyrir notendur Facebook þegar þeir voru knúnir til að niðurhala sérstöku appi fyrir skilaboðaforritið Messenger í snjalltæki sín. Áður var hægt að nota Messenger-forritið í gegnum Facebook appið en í haust tók fyrirtækið fyrir þá leið.
Zuckerberg sagði í samtali við The Verge að þetta hafi verið stór bón og að hann kunni að meta að notendur Facebook hafi látið sig hafa það að niðurhala nýja Messenger-appinu. Tilgangurinn hafi verið sá að búa til betri notendareynslu. Hvert app fyrirtækisins á að fanga einn hlut vel í stað þess að blanda öllum notkunarmöguleikum Facebook saman í einu appi.
Facebook-appið á þannig að snúast um fréttagátt samskiptamiðilsins (e. News Feed) og þar sem að yfir tíu milljarðar skilaboð séu send á dag úr Messenger þá fannst fyrirtækinu það vera of löng leið fyrir neytendur að fara í gegnum fréttagáttina inn í skilaboðaforritið. „Þú ert líklega að senda skilaboð til fólks um 15 sinnum á dag. Að þurfa að fara inn í app og fara í gegnum nokkur skref til að komast í skilaboðin skapar ákveðinn núning. Þetta er með því erfiðara sem við gerum, að taka svona ákvarðanir. Við gerum okkur grein fyrir því að við þurfum að vinna upp mikið traust og sýna fram á að sérstök skilaboðaþjónusta sé af hinu góða. Við erum með okkar hæfileikaríkasta fólk að vinna í þessu“.