Á uppgangsárunum fyrir hrun höfðu íslenskir athafnamenn, og sérstaklega bankamenn, uppgötvað að þeir væru merkilegri og klárari en allir aðrir í heiminum. Þeir höfðu auðvitað rangt fyrir sér, eins og stærsta efnahagshrun miðað við höfðatölu vottar. Á þessum árum tókst þeim hins vegar að hlaða í nokkra gjörninga sem á þeim tíma hafa ugglaust þótt nýmóðins og til merkis um hvað íslenska elítan væri miklir heimsborgarar. Þegar þeir eru skoðaðir í baksýnisspeglinum eru þessar yfirgengilegu góðærisathafnir þó í besta falli hlægilegar. Og pínulítið sorglegar.
1. Afmælistónleikar Kaupþings
Sumarið 2007 fagnaði Kaupþing 25 ára afmæli. Af því tilefni hélt bankinn tónleika á Laugardalsvelli þar sem allir helstu tónlistarmenn þjóðarinnar tróðu upp auk strákahljómsveitarinnar Luxor og annarra góðærisskemmtiatriða á vegum Einars Bárðarsonar. Veislustjóri og kynnir var Páll Óskar, sem kom iðulega fram milli atriða til að segja fólki að einhvers konar aðsóknarmet hefði verið slegið. Tónleikahaldararnir héldu því nefnilega fram að 50 þúsund manns hefðu mætt, sem er rúmlega þrefalt magn þeirra áhorfenda sem völlurinn tekur í stúku og stæði. Talan var enda dæmalaust rugl. Í besta falli voru gestir tæplega 20 þúsund. RÚV var síðan með allt í beinni útsendingu og herlegheitin kostuðu marga tugi milljóna hið minnsta. Um eina umfangsmestu ímyndarauglýsingu allra tíma var að ræða.
Bubbi Morthens stal annars senunni þegar hann sagði á milli laga að ef gjaldkeri í Kaupþingi gæfi pening yrði hann rekinn, en ráðherrar í ríkisstjórninni gætu gefið hundruð milljóna króna án þess. Bubbi hvatti síðan til þess að ráðherrarnir yrðu reknir. Stuðmenn kláruðu síðan þetta súra kvöld með rauða hálsklúta líkt og litlir gos-skátar. Firringin náði hámarki þegar Bo Halldórs tók lagið með þeim í skotapilsi.
Lestu topp fimm listann í heild sinni í nýjasta Kjarnanum hér.
Auglýsing