Réttur manna til að birta og geyma upplýsingar og sjónarmið persónuverndar takast á í tveimur nýjum dómum Evrópudómstólsins. Þessir dómar geta haft ófyrirséðar afleiðingar á alla útgáfustarfsemi og jafnvel bókasöfn.
Leitarvélar á netinu eru bókasöfn nútímamannsins. Rúmur helmingur Íslendinga notar Google daglega og níu af hverjum tíu vikulega samkvæmt könnun MMR. Bókasöfn, útgáfufyrirtæki og fjarskiptafyrirtæki hafa aðlagast þessari stafrænu þróun þannig að efni er nú aðgengilegt lesendum hvar sem er, hvenær sem er.
Vefurinn timarit.is er ágætt dæmi um vel heppnað verkefni af þessu tagi. Þar geta lesendur nú nálgast hátt í níu hundruð titla og fleiri en fjörutíu þúsund greinar á stafrænu formi. Vefurinn býður einnig upp á leitarsíu sem auðveldar notendum að finna efni frá upphafi útgáfustarfsemi á Íslandi, svo sem dagblöð fram til dagsins í dag.
Timarit.is hefur án efa bætt aðgengi almennings að fjölmiðlum fortíðarinnar. Ekki aðeins vegna þess að fólk getur nú nálgast þetta efni á netinu án endurgjalds, heldur sömuleiðis vegna þeirra fjölbreyttu leitarmöguleika sem síðan býður upp á.
Rétturinn til að gleymast
En ekki eru allir á eitt sáttir um hvort að efni sem tengist fortíð þeirra, ástvina og fjölskyldumeðlima, eigi yfir höfuð erindi við lesendur og almenning. Nú er talað um „réttinn til að gleymast“ eftir að Evrópudómstóllinn staðfesti þann 13. maí að Google bæri að fjarlægja hlekk, þar sem hægt var að nálgast upplýsingar um Spánverjann Mario Costeja Gonzáles frá árinu 1998.
Gonzáles var ósáttur við tvær tilkynningar um nauðungaruppboð á fasteign í hans eigu sem birtust í spænska blaðinu La Vanguardia og teknar voru upp í leitarniðurstöðum Google. Spænska gagnaverndin (AFPD) sótti málið fyrir hans hönd og taldi að þótt La Vanguardia hefði löggilda ástæðu fyrir því að birta upplýsingarnar, bryti miðlæg söfnun og úrvinnsla slíkra upplýsinga gegn friðhelgi einkalífs, sérstaklega þegar leitað er að nöfnun einstakra manna.
Á þetta sjónarmið féllst dómstóllinn, sem taldi leitarlista sem þennan brjóta gegn Evróputilskipun um vernd persónuupplýsinga og sagði að „ ... þessar upplýsingar geta átt við ýmsa þætti einkalífs hans og án leitarvélarinnar hefði verið erfitt að tengjast þeim. Netnotendur geta þar af leiðandi fengið mjög nákvæma mynd af því fólki sem leitað er að.“
Í ljósi þessa getur dómurinn haft margvísleg áhrif á fjölmiðlun og eðli upplýsinga. Lesendur vefsíða geta samkvæmt honum óskað þess að hlekkir um þá verði fjarlægðir eða faldir í leitarvélum jafnvel þótt þær hafi upphaflega verið birtar með löglegum hætti. Í þessu sambandi talar Evrópudómstóllinn um að gæta jafnvægis, þar sem meta verði aðstæður hverju sinni og mikilvægi upplýsinganna í þjóðfélagsumræðunni. Dómurinn setur ekki skorður við söfnun og varðveislu slíkra upplýsinga, en segir að huga verði að persónuvernd við úrvinnslu og framsetningu þeirra.
Þetta er stutt útgáfa af grein um þetta efni sem birtist í nýjustu útgáfu Kjarnans. Lesa má greinina í heild í nýjustu útgáfu Kjarnans hér.