Eitt sinn kom Halldór, móðurafi minn, færandi hendi úr einhverri siglingunni. Hann gaf mér tuskuapa í smekkbuxum og með eyrnalokk í öðru eyranu. Hann sagði að tuskuapinn héti Múhameð. Ég held að hann hafi ekki órað fyrir vandræðunum sem annar nóbelsverðlaunahafi átti eftir að koma sér í út af spámanninum Múhameð. Ég held að hann hafi bara viljað færa heiminn heim í hús.
Múhameð hefur fylgt mér alla tíð síðan, þegar sonur minn fæddist þurftum við að setja hann inn í frysti til að drepa lífríkið í feldinum. Nú er sonur minn svo hræddur við Múhameð að við þurfum að hafa hann lokaðan ofan í kassa. Kannski má hann vera hræddur! Fyrir nokkrum árum var bresk kennslukona í Súdan, Gillian Gibbons, handtekin fyrir að leyfa sjö ára nemendum sínum að nefna bangsa Múhameð í skólaverkefni – en það er algengt karlmannsnafn á meðal múslima. Þetta þótti svo mikil móðgun við spámanninn að hundruðir manna kröfðust þess að hún yrði líflátin. Ef við afi hefðum verið stödd á öðrum stað á öðrum tíma með tuskuapann hefðum við verið fangelsuð og kannski uppskorið fjörutíu vandarhögg, jafnvel líflátin, fyrir græskulaust uppátæki afans og það er eitthvað rangt við það.
Grunnstoð frekar en heilagt
Um daginn birtist pistill eftir mig hérna í Kjarnanum þar sem ég sagði að tjáningarfrelsið væri heilagt. Ég held að það sé gáfulegra að segja að tjáningarfrelsið sé grunnstoð. Grunnstoð sem við reisum nútímaleg samfélög á því án þess er hætt við að bæði mannréttindi og frelsi til annarra hluta séu í hættu. En tjáningarfrelsið er auðvitað ekki án fyrirvara. Og Ísland er langt í frá heilagt í þeim efnum. Sem dæmi má nefna að blaðið Spegillinn lagði upp laupana hér um árið þegar ritstjórinn, Úlfar Þormóðsson, var dæmdur fyrir guðlast. Myndir eftir manninn minn, Þórarinn Leifsson, sem sýndu þáverandi ríkisstjórn Íslands við mannát voru bannaðar á sýningu. Hann málaði líka eitt sinn mynd af forseta Íslands, Vigdísi Finnbogadóttur, með Mercedes-Benz-merki um hálsinn á öldurhúsi í Reykjavík en lögvaldið lét starfsfólk öldurhússins mála svart yfir myndina. Viku seinna bætti hann um betur með því að mála Ólaf biskup í félagsskap tígrisdýrs sem var með Benz-merkið í munninum, líkt og það hefði étið Vigdísi. Hann fékk lögbann á myndina, auk þess sem biskupinn lét hafa eftir sér í fjölmiðlum, gott ef ekki á forsíðu Tímans, að þetta væri afskaplega óyndislegt athæfi.
Ætli myndin hafi ekki líka stangast á við lög um guðlast sem fólki hefur verið tíðrætt um upp á síðkastið. Auðvitað verjum við okkur sjálf með lögum sem kveða á um sekt ef við hæðumst að eða smánum annað fólk vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar og kynvitundar. Við áskiljum okkur rétt til að lögsækja aðra fyrir ummæli um okkur.
Táknræn skotmörk
Sumir telja að skopmyndir af Múhameð hæðist að menningarheimum múslima. Að vissu leyti er það rétt en við lifum á tímum þar sem það fyrirfinnst alltaf einhver reiðubúinn að hæðast að hvers kyns táknmyndum, sama þá hvort um er að ræða Krist eða Múhameð. Það má ekki myndgera Múhameð spámann en nú eru tímar mikilla fólksflutninga, þegar menningar mætast í fjölmennum vestrænum borgum þar sem allt heilagt er dæmt til að verða afhelgað og sama hvað hver segir þá verða alltaf teiknaðar myndir af Múhameð.
Því hlýtur að vera hættulegt að stuðla að því að þessar myndir séu slíkt tabú að þær geti gert teiknara, hvar sem er í heiminum, að táknrænu skotmarki fyrir ofstækisfólk. Þær þurfa að fá að birtast og fara í gegnum sitt skeið. Múhameð og Kristur verða að sitja við sama borð, og líka allar hinar helgu táknmyndirnar, að öðrum kosti geta saklausustu uppátæki, hvar og hvenær sem er, leitt til hörmunga. Hörmunga sem bitna ekki síst á vel meinandi fjöldanum, hófsömum múslimum út um allan heim.
Margtuggið tjáningarfrelsið
Ég held að múslimar upp til hópa, búsettir í Evrópu til lengri tíma eða jafnvel alla ævi, láti ekki myndir sem þessar trufla sitt daglega líf, jafnvel þótt þær geti ýtt undir staðalímyndir og verið móðgandi, krossað fínar línur og virkað niðurlægjandi. Stundum eru skopmyndir notaðar markvisst í þeim tilgangi eins og þegar skopast var að gyðingum á sínum tíma, nokkuð sem mér finnst, persónulega, að sé ekki sambærilegt við t.d. Charlie Hebdo þar sem var gert grín að öllu, auk þess sem einhverjar myndir þar hafa verið teknar úr upprunalegu samhengi í umræðunni. Eðli skops er að stinga, það særir, það afskræmir og það kætir, meira að segja áramótaskaupið, en það hjálpar okkur líka til að hlæja að sjálfum okkur og öðlast margræðni í hugsun, í því felst frelsun.
Múhameð á forsíðu Charlie Hebdo.
Þó verður seint sagt um margtuggið tjáningarfrelsið að það sé trygging fyrir jafnræði allra hópa í misskiptum, flóknum heimi, jafnvel þó að það sem grunnstoð samfélags sé skásta sýnilega leiðin til að sem flestir geti látið rödd sína heyrast. Til þess að jafnræðið verði sem mest þurfum við stöðugt að velta flöktandi birtingarmynd þess fyrir okkur, eygja mannlegan tvískinnungsháttinn, og rýna í öll orðin sem falla á degi hverjum, já, rökræða og rífast um þau. Þegar skopmyndirnar af Múhameð birtust fyrst í Jótlandspóstinum bjó ég í Danmörku og upplifði þær niðrandi í garð minnihlutahóps sem átti erfitt uppdráttar í samfélaginu. Ég held ennþá að það sé fróðlegt að velta dönsku samfélagi fyrir sér í ljósi þessara mynda; atburðir eru sjaldnast annað hvort svartir eða hvítir í mannlegri sambúð.
En þegar skopmyndir af Múhameð eru notaðar sem ástæða fyrir öðru eins ódæði þarf allt þetta saklausa fólk að sitja undir hatursorðræðu, fyrirlitningu og allskonar aðdróttunum, jafnvel ofbeldi. Mannhatri sem það á ekki skilið frekar en ég eða þú. Angela Merkel steig fram nú í vikunni og sagði: Der Islam gehört zu Deutschland. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ætti að stíga fram og segja hið sama um Ísland. Hann ætti að sýna þeim landsmönnum sem eru múslimar stuðning í verki.
Múslimar myrtir
Eiginlega átti Sigmundur Davíð lítið erindi í gönguna í Frakklandi, maður sem virðist halda að hugtakið tjáningarfrelsi sé samheiti við hagsmunagæslu og popúlisma Framsóknarflokksins. Hann átti ekki heima þar frekar en barnamorðinginn Benjamin Netanyahu sem labbaði þar þétt upp við aðra þjóðhöfðingja (án þess að ætlunin sé að líkja þeim saman að öðru leyti).
Og talandi um Benjamin Netanyahu. Í gær sá ég átakanlegt viðtal á einhverri stöðinni í þýska sjónvarpinu. Það var við lítinn dreng sem hafði misst bæði hönd og fót í árásum Ísraelsmanna á Palestínu síðastliðið sumar. Hann hafði líka misst mömmu sína og þrjú systkini. Drengurinn hafði verið fluttur til lækninga til Þýskalands þar sem hann dvelur nú ásamt fjölda annarra barna í svipuðum aðstæðum.
Benjamin Netanyahu er ekki þekktur fyrir að vera hrifinn af blaðamönnum sem fjalla um barnamorðin. Ólíkt Sigmundi hefur hann líklega eygt tækifæri til að hressa upp á ímyndina með því að mæta í þessa mikilfenglegu göngu.
Hvað um það. Í gær var fleira áhugavert í þýska sjónvarpinu. Meðal annars hringborðsumræður þar sem aldraður hugsuður, maður sem lifði helförina af, spurði hin í salnum hvort þau vissu hversu margir múslimar hefðu verið myrtir á síðasta ári.
Þeir eru ófáir.
Út um allar jarðir á fólk sem er kennt við múhameðstrú á brattann að sækja af ólíkum ástæðum. Sumt berst fyrir lífi sínu í stríðsástandi, margt er lokað inni í flóttamannabúðum, milljónir þrá að fá að lifa lífinu í virkum lýðræðisríkjum, óáreittir fyrir fordómum og hatursorðræðu. Hatursorðræðu sem blossar upp í hvert sinn sem öfgamönnum tekst að fremja hryðjuverk.
Einangrað fólk í Pegida
Raunar er skrýtið að tala um allt þetta ólíka fólk, með ólíkan bakgrunn og sem býr við ólík lífskjör, sem einn hóp undir þessu tiltekna heiti, múslimar. Fólk í gallabuxum með heyrnatólk í strætó, fólk að hræra í pottum á mannmörgum matsölustöðum, fólk að lækna börn á spítölum, fólk að kenna í háskólum eða fólk að læra þýsku, bara hvað sem er. Hér í Berlín er hlutfall múslima hátt og þau, múslimakonur- og karlar, eiga stóran þátt í að gera borgina að þeim mannvæna og margbreytilega stað sem hún er.
Þá er komið að því að alhæfa, jafnvel ýta undir staðalmyndir, en ég vil samt láta það flakka.
Þegar sonur minn átti afmæli í fyrra gaf fjölskyldan í bakaríinu á horninu, múslimar af tyrkneskum ættum, honum afmælistertu með áletrun. Í hvert skipti sem ég fer þangað með soninn er hann kjassaður og fær gefins góðgæti. Það er reyndar algengt að sonur okkar stórgræði á heimsóknum á matsölustaði eða í bakarí sem múslimar reka. Kúltúrinn, ef það er rétt að tala um kúltúr í þessu margbreytilega samhengi, er ekki bara barnvænn heldur líka mannúðlegur. Margir kenndir við þessa trú eiga það sameiginlegt að þeim fylgir hlýja í samskiptum. Eins og litla stráknum í neðanjarðarlestinni sem brosti fallega til mín eftir að hafa hlaupið sem eldibrandur, frá fjölskyldu sinni og á milli hæða, á eftir mér því ég hafði gleymt einni evru í miðasjálfsalanum.
Rannsóknir hafa sýnt fram á að þeir sem búa í fjölmenningarlegu umhverfi óttast síður innflytjendur og fólk af öðrum trúarbrögðum. Því einangraðra sem fólk er því frekar óttast það fjölbreytnina. Félagar í PEGIDA láta mest til sín taka á stöðum eins og Dresden sem er staðsett í fyrrum Austur-Þýskalandi og þar sem búa færri innflytjendur en í flestum öðrum þýskum borgum. Því er forvitnilegt að vita hvaða hópur þetta er af fólki sem hefur tekið sig til á Íslandi og stofnað, a.m.k. á netinu, afleggjara af PEGIDA. Ég er tilbúin að veðja hundrað þúsund kalli við hvern sem er að megnið af þessu fólki hefur ekki reynslu af því að búa í fjölmenningarlegu nútímasamfélagi innan um marga múslima. Ósköp einfaldlega vegna þess að ef þetta fólk hefði gert það, þá væri það ekki að gera sig að fíflum núna.