Síðasta sumar hættu þrír lykilmenn hjá tölvuleikjarisanum CCP. Mennirnir þrír, Reynir Harðarson, sem var einn stofnenda og listrænn stjórnandi CCP, Þorsteinn Högni Gunnarsson, sem var yfir viðskiptaþróun hjá fyrirtækinu, og Kjartan Pierre Emilsson, áður yfirleikjahönnuður Eve Online og framkvæmdastjóri CCP í Sjanghæ árum saman, ákváðu að þær breytingar sem voru að eiga sér stað á tölvuleikjageiranum væru þess eðlis að þeir gætu ekki látið vera að taka þátt í þeim.
Breytingin sem um ræðir er sýndarveruleiki.
Spilarinn er inni í leiknum, ekki að horfa á hann
Í október 2014 stofnuðu þeir fyrirtækið Sólfar Studios sem framleiðir efni fyrir sýndarveruleika. Flestir tengja sýndarveruleikabyltinguna við Oculus Rift, tæki sem lítur úr eins og voldug skíðagleraugu sem færa notendur inn í sýndarveruleikaveröld. Það er erfitt að lýsa því með orðum fyrir þeim sem ekki hafa prófað hversu mikil breyting sýndarveruleikatól sem eru í þróun eru frá þeirri upplifun sem tölvuleikjanotendur fá við að spila leiki í dag. Auðveldast er kannski að segja að spilaranum líður eins og hann sé inni í leiknum, í stað þess að vera að spila hann af skjá.
Fyrir mörgum hljómar tilurð svona tóla eins og framtíðarmúsik. En stærstu fyrirtæki í heimi, fyrirtæki á borð við Facebook (sem keypti Oculus Rift) og Sony (sem er að framleiða sýndarveruleikatól fyrir Playstation-tölvu sína), eru að veðja stórum fjárhæðum á sýndarveruleikann og að setja gríðarlega fjármuni í að koma honum á almennan markað. Þeim er fúlasta alvara og það er búist við því að byrjað verði að selja tæknina til tölvuleikjaspilara innan tólf mánaða.
En það er ekki nóg að vera með byltingarkennda tækni. Það þarf að gera eitthvað með hana. Afþreyingarþyrstir tölvuleikjaspilarar þurfa leiki til að spila. Og þar kemur Sólfar Studios, fyrirtæki Reynis, Þorsteins og Kjartans til sögunnar.
Langaði aftur í bílskúrinn
„Við hættum allir hjá CCP síðasta sumar og Sólfar var stofnað í október,“ segir Reynir. Fyrirtækið er því einungis rúmlega sex mánaða gamalt. Hann segist hafa kolfallið fyrir sýndarveruleikanum þegar hann sá í fyrsta sinn prufuefni fyrir Oculus Rift-tækið. „Við sem stöndum að Sólfari fórum strax að tala um þetta. Að þetta væri of gott tækifæri til að sleppa að taka þátt í þessari þróun sem er að fara að eiga sér stað. Ég hef aldrei fengið svona tilfinningu áður. Þetta er ein stærsta breytingin sem hefur orðið á tölvuleikjageiranum frá upphafi. Annars vegar að sýndarveruleikinn sé kominn og hins vegar að hægt sé að nálgast vél, Unreal 4, sem gerir manni kleift að búa til efni án þess að vera með her forritara.“
Á einfölduðu máli gerir Unreal 4-vélin, sem er framleidd af Epic, nánast öllum kleift að gera hágæðatölvuleiki. Áður fyrr voru það nánast einvörðungu forritarar sem gátu gert það sem vélin gerir. Og vélin er ókeypis. Þess í stað tekur Epic fimm prósent af sölutekjum tölvuleikjanna sem framleiddir eru með hjálp Unreal 4-vélarinnar.
En það voru fleiri ástæður fyrir því að þeir ákváðu að stofna Sólfar. Reynir segir að eftir öll þessi ár hjá CCP, sem var þegar mest var með um 600 starfsmenn (um 300 í dag) og starfsemi víða um heiminn, hafi þá langað að komast aftur á byrjunarreit. „Okkur langaði að vera með mjög litla starfsemi þar sem þarf ekki að halda marga fundi,“ segir Reynir og hlær. „Þegar starfsmenn fyrirtækis ná ákveðnum fjölda þá þarf að byggja upp ákveðna innviði. Það þarf marga stjórnendur og svo þarf stjórnendur til að stýra stjórnendunum. Á endanum ertu kominn með fyrirtæki eins og CCP. Það er óumflýjanleg afleiðing þess að stækka og auðvitað ekkert að því. Slík stækkun er áskorun sem þarf að takast á við og CCP hefur gert það mjög vel. Okkur langaði bara aftur í bílskúrinn.“
Flestir tengja sýndarveruleikabyltinguna við Oculus Rift, tæki sem lítur úr eins og voldug skíðagleraugu sem færa notendur inn í sýndarveruleikaveröld.
Leikir seldir í stafrænum búðum
Bílskúrinn er reyndar skrifstofa beint fyrir ofan bar og fyrir neðan skrifstofu Þingvallarnefndar, með útsýni yfir Austurvöll. Þar vinna nú fjórir starfsmenn en þeir verða sjö von bráðar. En hvað eru þeir nákvæmlega að gera? Kjartan svarar því. „Við erum að búa til efni fyrir þessar nýju sýndarveruleikagræjur sem eru að fara að koma út, líklega innan næstu tólf mánaða. Við ætlum að vera tilbúnir með tvo leiki þegar þetta fer allt af stað og með aðra tvo í þróun.“ Planið sé svo að gefa út tvo leiki á ári að jafnaði. Leikirnir verða seldir í svokölluðum „búðum“, svipuðum t.d. App Store, hjá þeim framleiðendum sem bjóða upp á sýndarveruleika. Gert er ráð fyrir því að að hver leikur muni kosta á bilinu 15-20 dali, 2.000-2.700 krónur. „Það sem er svo sérstakt við þetta sem við erum að gera er að markaðurinn er svona eins og App Store var í árdaga. Ef þér tekst að gera eitthvað flottara en aðrir þá ætti að vera tiltölulega auðvelt að koma sér fyrir. Sérstaklega fyrir okkur sem erum ágætlega þekktir í þessum tölvuleikjaheimi.“
Reynir segir að allar hugmyndir þeirra að leikjum séu sniðnar að viðmótinu, sýndarveruleikanum, á meðan að margir aðrir séu að reyna að aðlaga leiki sem þegar eru til að hinu nýja viðmóti. „Við notum viðmótið til að móta leikina og þeir verða mjög upplifunarmiðaðir. Það gerist alltaf eitthvað ótrúlegt. Þetta er svolítið eins og að stjórna draumi. Eins og að fara inn í draumaheim.“
„Sudoku væri til að mynda ekki góður leikur fyrir sýndarveruleika. Í þessu viðmóti er ekki nóg að skora stig eins og í mörgum tölvuleikjum þar sem spilarinn hleypur í gegnum þá, drepur allt sem hann sér og tekur í raun ekki eftir neinu í umhverfinu. Í sýndarveruleikanum er þetta aðeins öðruvísi. Þú vilt vera á staðnum og því skiptir máli að upplifunin sé mjög góð.“
Hann bendir á að ekki henti allir leikir í sýndarveruleika. „Sudoku væri til að mynda ekki góður leikur fyrir sýndarveruleika. Í þessu viðmóti er ekki nóg að skora stig eins og í mörgum tölvuleikjum þar sem spilarinn hleypur í gegnum þá, drepur allt sem hann sér og tekur í raun ekki eftir neinu í umhverfinu. Í sýndarveruleikanum er þetta aðeins öðruvísi. Þú vilt vera á staðnum og því skiptir máli að upplifunin sé mjög góð.“
Og í nákvæmlega þeim, gæðunum, ætlar Sólfar að skara fram úr. Að sögn Kjartans telja þeir að það vanti hágæðaefni inn á þennan markað. „Við teljum okkur geta framleitt það, með okkar reynslu, þekkingu og samböndum. Við teljum okkur geta skapað okkur sérstöðu í þeim efnum. Næstu tvö árin verða örugglega mjög umrótasöm í þessum heimi. Það verða framfarir og tækin sjálf verða betri og betri. Þetta er mögulegt núna. Eftir kannski þrjú ár verða komnir leikir með mikið framleiðslufjármagn á bakvið sig inn á þennan markað og hundrað manna fyrirtæki að búa þá til. En núna er þetta rosalega mikið Alaska-frumkvöðla tilfinningin. Að vera á kanó að sigla á móti straumnum. Okkar viðskiptahugmynd er að þegar þetta fer á flug verðum við komnir með forskot. Það er engin spurning í okkar huga að þessi markaður á eftir að verða risastór. Það er bara spurning um hversu hratt það gerist.“ Reynir skýtur inn í líkingu sem Íslendingar ættu að geta tengt við. „Í því ölduróti sem verður á næstu árum er betra að vera á litlum hraðskreiðum spíttbát, ekki hægu olíuskipi.“
Það er að miklu að keppa. Greiningarfyrirtæki spá því að innan fárra ára verði sýndarveruleikaleikjamarkaðurinn 30-40 milljarða dala markaður. Það gera 4.000-5.550 milljarða króna. Fyrirtæki þarf ekki stóran hluta af þeirri köku til að verða mjög arðbært.
Skjáskot úr einum þeirra leikja sem Sólfar er að þróa um þessar mundir.
Skalar ekki niður Rolling Stones
Þeim er reyndar tíðrætt um kosti þess að vera með litla og sveigjanlega starfsemi. Hversu mikilvægt það sé að vera með einn í teyminu sem er góður í lykilþætti starfseminnar, að vinna með öðrum skapandi fyrirtækjum, að halda framleiðslukostnaði lágum svo að arðsemi geti verið mikil án þess að taka mikla áhættu.
Og þess vegna ákváðu þeir að stofna fyrirtækið á Íslandi. Reynir segir að teymið hafi skoðað hvort betra hefði verið að stofna Sólfar annars staðar í heiminum. Niðurstaðan hafi verið að Ísland sé frábær staður til að gera þetta. Svo lengi sem fyrirtækið helst lítið. „Við erum með gott net og sambönd á Íslandi. Það er til töluverður peningur hérna og við þekkjum samstarfsaðilana sem við getum unnið með vel. Hér er gott „talent-pool“, en það er ekki mjög stórt. Svo lengi sem við ætlum að vera með undir tíu manna fyrirtæki er Ísland frábær staður.
Ef við þurfum að stækka upp í 40 til 50 manns þá er strax orðin miklu meiri áskorun að vera á Íslandi. Við sáum það vel hjá CCP, sem hefur þurft að flytja inn ofboðslega mikið af fólki, að það er erfitt að fá hæfileikafólk frá öðrum löndum til að flytja til Íslands. CCP getur gert það vegna þess að þeir eru þekkt nafn í leikjaheiminum en ef þú ert lítið sprotafyrirtæki þá er kannski erfiðara að laða slíkt fólk hingað. En við viljum vera litlir, að minnsta kosti eitt til tvö ár fram í tímann. Það er mjög erfitt að meta hvað gerist svo. Þú gerir líka ekkert endilega betur með stærra teymi. Þú getur gert fleiri hluti en þeir eru ekkert endilega betri. Þú skalar til dæmis ekki upp Rolling Stones. Þeir yrðu ekkert betri ef það væru 50 í bandinu.“
En við viljum vera litlir, að minnsta kosti eitt til tvö ár fram í tímann. Það er mjög erfitt að meta hvað gerist svo. Þú gerir líka ekkert endilega betur með stærra teymi. Þú getur gert fleiri hluti en þeir eru ekkert endilega betri. Þú skalar til dæmis ekki upp Rolling Stones. Þeir yrðu ekkert betri ef það væri 50 í bandinu.
Búnir að sækja 500 þúsund dali
Þótt tækniframþróun hafi gert framleiðslu á efni eins og því sem Sólfar ætlar að framleiða mun ódýrari þá kostar hún samt peninga. Stofnendurnir voru reyndar ekki að hafa áhyggjur af fjármögnun þegar þeir stofnuðu fyrirtækið. Þeir fóru í það ferli eftir á.
Nú hefur fyrirtækið náð í 500 þúsund dali, 68 milljónir króna, í svokallaða englafjárfestingu frá ýmsum aðilum. Um helmingurinn kemur frá innlendu fjárfestunum Investa og Vilhjálmi Þorsteinssyni og hinn helmingurinn frá erlendum aðilum, aðallega frá Finnlandi. Þeir eru Vili Miettinen, Sisu Game Ventures, Isaac Kato og nokkrir aðrir alþjóðlegir englafjárfestar.
Kjartan segir að á teikniborðinu sé að ná í meira fjármagn í sumar eða haust til að tryggja reksturinn næstu árin. Það er augljóst að þeim líður vel að vera komnir „aftur í bílskúrinn“. Og finnst gaman að fara í gegnum öll vaxtarskrefin. Reynir segir raunar hreint út að það sé óvissan sem geri þetta allt saman skemmtilegt. „Sumum líður kannski illa í óvissunni. En okkur líður hvergi betur.“