Dalvíkingurinn Heiðar Helguson, einn dáðasti knattspyrnumaður þjóðarinnar, er orðinn trillukarl. Eftir að farsælum atvinnumannaferli hans í Englandi lauk, flutti hann ásamt fjölskyldu sinni aftur til Íslands, og keypti sér kvóta og smábát sem hann gerir nú út frá Hafnarfirði. Heiðar er fámáll maður, og hefur helst kosið að tjá sig á knattspyrnuvellinum. Hann tjáir sig nú í fyrsta skipti um lífið eftir atvinnumennskuna í fótbolta, í einlægu og ítarlegu viðtali við Kjarnann.
Tók sér tíma til að ákveða hvað hann vildi gera
Eftir að Heiðar flutti aftur til Íslands ásamt fjölskyldu sinni, eiginkonunni Eik Gísladóttur og þremur sonum, tók hann sér nokkra mánuði til að íhuga hvað hann ætti nú að taka sér fyrir hendur. Flestir knattspyrnumenn sem snúa aftur úr atvinnumennsku kjósa að vera áfram viðrinir fótboltann, en Heiðar ákvað að róa á gamalkunn mið. Úr varð að hann ákvað að hella sér út í útgerð. "Ég keypti mér lítinn bát á Ólafsvík og sigldi honum til Hafnarfjarðar í snarvitlausu veðri. Fjölskyldan mín á Dalvík hefur meira og minna unnið við sjávarútveginn síðustu hundrað ár, þannig að þessi ákvörðun lá bara vel við," segir Heiðar.Sem ungur maður fór Heiðar nokkra túra með togaranum Blika EA, og varð mjög sjóveikur í hvert skipti. "Ég ældi úr mér lungun, þannig að þegar ég ákvað að fara aftur í sjómennskuna krosslagði ég bara fingurna og vonaði að sjóveikin væri farin fyrir fullt og allt. Það virðist hafa virkað, því ég hef ekki orðið sjóveikur enn."
Rómantíkin við sjómennskuna heillaði
Knattspyrnuhetjan fyrrverandi, sem ákvað að gerast trillukarl, er mjög sátt við ákvörðunina. "Mig langaði mikið að gera eitthvað þar sem ég gæti ráðið mér sjálfur. Ég er ekki með neina einustu menntun og það takmarkaði svo sem möguleikana mína líka," segir Heiðar og hlær. "Svo hef ég líka gaman af líkamlegri vinnu og vil stjórna mér sjálfur, hvenær ég vinn og hvenær ekki."Fyrir mann sem hefur haft af því atvinnu að keppa í hópíþrótt frá unga aldri, hljóta að vera mikil viðbrigði að vera nú orðinn einyrki, einn út á ballarhafi að róa. "Auðvitað er þetta mikil breyting frá því að mæta í vinnuna með þrjátíu gaurum og spila fótbolta. Samt er ekkert dásamlegra en að vera einn út á sjó í góðu veðri. Það getur vitanlega verið einmannalegt að standa í þessu einn, þannig að ég er duglegur að draga konuna mína, strákana mína eða vini og vandamenn með mér í veiðitúra. Það er engin skortur á sjálfboðaliðum í kringum mig," segir Heiðar.
Þetta er örstutt brot úr ítarlegu viðtali við Heiðar Helguson. Lestu það í heild sinni í nýjasta Kjarnanum hér.