Ungur Húsvíkingur, Axel Flóvent, er með vel á aðra milljón spilanir á Soundcloud og er nýkominn heim úr tónleikaferðalagi um Þýskaland og Bretland. Þrátt fyrir það er hann ekkert sérstaklega þekktur hér á landi.
Axel spilar í annað skipti á Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni í byrjun næsta mánaðar, og í tilefni hátíðarinnar framleiddu Airwaves og Landsbankinn tvö myndbönd með Axel auk þess sem tekið var við hann stutt viðtal. Þar kemur meðal annars fram að hann hafi næstum ekkert dvalið í Reykjavík fyrr en hann kom þangað til að koma fram á Airwaves í fyrra. „Ég lærði eiginlega bara alveg á Reykjavík með því að fara á Airwaves og vera að þekkja staðina.“
Axel Flóvent - viðtal from Landsbankinn þinn on Vimeo.
Axel Flóvent segir líka að honum hafi leiðst mjög mikið sem barni, það er áður en hann fór að stunda og semja tónlist eftir að hann eignaðist sinn fyrsta gítar tíu ára gamall.
Lagið Dancers er líklega þekktasta lag Axels hérlendis, en það hefur verið í spilun á útvarpsstöðvum undanfarið. Kjarninn frumsýnir hér myndbandið við lagið, og einnig lagið Fireworks.
https://www.youtube.com/watch?v=Rh5ubIRHsPM
Axel Flóvent vinnur að nýrri plötu um þessar mundir, en hann gaf út EP plötuna Forest Fires í sumar. Hann samdi í fyrra við breksa plötufyrirtækið Trellis Records, um útgáfu í Bretlandi. Þá var hann aðeins nítján ára gamall og nemandi í Verkmenntaskólanum á Akureyri, en nokkur útgáfufyrirtæki sýndu honum áhuga eftir að hann fór að setja tónlist sína inn á Soundcloud.
https://www.youtube.com/watch?v=V7zjY9kkhZM