Árni Svanur Daníelsson vefprestur svarar sjö spurningum Kjarnans.
Hvað gleður þig mest þessa dagana?
Að hjóla um fallegu borgina okkar, einsamall eða með frúnni og börnunum.
Hvert er þitt helsta áhugamál?
Bíóið er númer eitt um þessar myndir því nú snýr RIFF aftur. Ég sit í dómnefndinni sem veitir kvikmyndaverðlaun kirkjunnar. Framundan er veisla fyrir augun, eyrun og kollinn.
Hvaða bók lastu síðast?
Structure in Fives eftir Henry Mintzberg. Kennslubók í opinberri stjórnsýslu. Sannarlega ekki mjög lifandi texti en gagnlegt verkfæri til að greina og skilja stofnanir og skipulagsheildir.
Hvert er þitt uppáhalds lag?
Þessa dagana er All About That Bass með Meghan Trainor í uppáhaldi hjá okkur Heiðbjörtu Önnu sem er yngsta dóttirin. Grípandi lag og góður boðskapur.
Til hvaða ráðherra berðu mest traust?
Ég treysti helst ráðherrum sem sýna náungakærleika í verki frekar en orði.
Ef þú ættir að fara til útlanda á morgun og mættir velja land, hvert myndir þú vilja fara?
Til Þýskalands, nánar tiltekið Berlínar sem er uppáhaldsborgin.
Hvað fer mest í taugarnar á þér?
Fólk sem segist ekki hafa tíma til njóta lífsins.