Fjárhags- og viðskiptaupplýsingafyrirtækið Creditinfo hefur hafið undirbúning að því að flytja höfuðstöðvar sínar úr landi. Reynir Grétarsson, stærsti eigandi Creditinfo og einn stofnenda, staðfestir yfirvofandi flutning höfuðstöðvanna frá Íslandi í samtali við Kjarnann, en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.
Reynir sendi tölvubréf á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Bjarna Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra í kjölfar þingsályktunartillögu Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra, um að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið og draga umsókn Íslands að sambandinu til baka. Þar hvatti hann ráðherrana til að grípa til aðgerða til að bæta stöðu íslenskra fyrirtækja með alþjóðlega starfsemi og tilkynnti um ákvörðun Creditinfo að flytja höfuðstöðvar sínar úr landi.
Í niðurlagi tölvubréfins segir: „Ég tel að það eigi að vera forgangsverkefni [stjórnvalda] að hlúa að rekstrarumhverfi sérhæfðra þekkingarfyrirtækja. Það verður best gert með að finna lausnir sem ógna ekki íslensku hagkerfi heldur þvert á móti styðja aukinn hagvöxt. Ég leyfi mér að leggja til að stjórnvöld bregðist fljótt við og finni leiðir sem eru til þess fallnar að bæta enn rekstrarskilyrði íslenskra fyrirtækja. Ég er auðvitað tilbúinn að koma með frekari upplýsingar eða á annan hátt aðstoða við að finna lausn á vandanum.“ Engin viðbrögð hafa borist frá áðurnefndum ráðherrum við tölvubréfinu.
Í dag starfa hátt í þrjú hundruð manns hjá Creditinfo í sautján löndum víðs vegar um heiminn, þar af um sextíu á Íslandi. Creditinfo Group, sem er móðurfélag Creditinfo, var á árunum 2004 til 2008 valið eitt af 500 framsæknustu frumkvöðlafyrirtækjum Evrópu af samtökunum Europe's Entrepreneurs for Growth. Hagnaður Creditinfo Group fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir á síðasta ári nam (EBITDA) tæplega 3,4 milljónum evra eða röskum hálfum milljarði íslenskra króna.
Creditinfo hefur þar með bæst í hóp íslenskra frumkvöðlafyrirtækja sem hyggur á brotthvarf frá Íslandi vegna gjaldeyrishafta og efnahagsástandsins. Kjarninn hefur greint frá því að þrýstingur erlendra hluthafa Marels, CCP og Össurar, um að flytja skuli höfuðstöðvar fyrirtækjanna úr landi, fari ört vaxandi.