Aðspurður um hver var ástæða þess að Samfylkingunni gekk jafn vel í Reykjavík og raun ber vitni, segist Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, sem er í ítarlegu viðtali í nýjasta Kjarnanum, ekki vita það almennilega. „Það er mjög mismunandi hvað fólk segir. Húsnæðismálin eru eitt þeirra mála sem fólk nefnir. Svo er þetta líklega samspil margra þátta. Ríkisstjórnin hefur ekki verið að setja fram spennandi sýn á framtíðina. Mér finnst hún ekki skilja Reykjavík. Mér finnst hún ekki skilja þörfina fyrir fjölbreytt atvinnulíf; þekkingargreinar, græna hagkerfið eða skapandi greinar. Hún hefur talað fyrir mjög gamaldags lausnum í atvinnumálum. Ég held að það hafi hjálpað í þeirri merkingu að fólk sjái okkur sem valkost. Reykjavík þarf að eiga skýra rödd. Og það er mikilvægt að líta á borgarlíf og spennandi borgarþróun sem tækifæri en ekki ógn.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_06_19/20[/embed]
Borgin getur ekki gert allt í atvinnumálum, og á ekki að gera það. En við settum atvinnustefnu fyrir tveimur árum þar sem við erum að reyna að vinna að aukinni fjölbreytni í atvinnulífinu. Þetta kristallaðist í aðalskipulaginu.
Ég held að ríkisstjórnin hafi gert mikil mistök með því að skera niður styrki til rannsókna, vísinda og til Kvikmyndasjóðs. Svo er auðvitað ferðaþjónustan dæmi út af fyrir sig. Við Íslendingar veðjuðum á hana til að fjölga störfum mjög hratt. Ég hef hins vegar áhyggjur af því að hún verði ekki í stakk búin til að borga góð laun. Það á að vera rauði þráðurinn til framtíðar, að skapa vel borgandi störf. Þar er áhersla okkar hér í borginni. Við eigum ekki að vera að keppa við láglaunasvæði heimsins heldur þurfum við að skapa okkur sérstöðu og byggja á hugviti og þekkingu sem skapar verðmæti og getur staðið undir launum og þeirri velferð sem við viljum búa við.“
Þetta er örstutt brot úr viðtalinu við Dag. Lestu það í heild sinni í nýjasta Kjarnanum hér.