Þessi færsla er úr eldra greinasafni Kjarnans og gæti þess vegna birst furðulega.

Ég er karl frekar en framsóknarkona

audur-jons.jpg
Auglýsing

Mig langar í blómahjólið, sagði þriggja ára sonur minn í hjólabúð þar sem við mæðginin vorum stödd fyrir nokkrum dögum.
Nei, viltu ekki frekar bláa hjólið með fiskunum? spurði ég í skringilega skipandi tón.
Nei, bara blómahjólið, sagði hann einlægur og benti á ljósfjólublátt hjól, skreytt rauðum blómum.
En sjáðu hvað bláa hjólið er flott, vældi ég. Það er Bubba-Byggis-bjalla á því!

Mig langar í blómahjólið, ítrekaði hann og greip utan um stýrið á því, líkt og hann ætlaði að hlekkja sig fastan við það. Mér var hætt að standa á sama, fyrr í vikunni hafði ég ætlað að kaupa bláa gúmmískó á hann en endað á því að leiða hann hamingjusaman út í pastelgrænum gúmmískóm með skærbleikum röndum á hliðunum. Sko ... byrjaði ég en þaggaði niður í sjálfri mér í tæka tíð. Það hefði lítið upp á sig að segja þriggja ára barni frá því að ég hefði lesið frétt um lítinn strák í útlöndum sem safnaði rauðum og ljósfjólubláum dótahestum, markaðssettum handa stelpum, en hafði orðið fyrir svo mikilli stríðni fyrir vikið að hann framdi sjálfsmorð.

almennt_05_06_2014

Takk, David Bowie


Fréttin hafði gert mig svo hrædda að ég hafði staðið sjálfa mig að því að hugsa: Skítt með það að stelpur eigi að leika sér með strákadót og strákar með stelpudót! Sonur minn á ekki að þurfa að upplifa neitt í líkingu við það sem þessi vesalings drengur gerði.

Auglýsing

Þetta átti ekki bara við um dótið. Fyrr en varði hætti ég að nota bleiku sokkana og ljósfjólubláu peysurnar sem Hjallastefnumóðirin, systir mín, hafði gefið honum frá dóttur sinni (dökkfjólubláu peysurnar héldust þó í notkun). Á þessum tímapunkti var ég komin nokkuð langt frá frjálslyndu, óléttu mömmunni sem ætlaði að klæða soninn sem oftast í bleikt og helst aldrei í blátt. Mömmunni sem ætlaði líka að fá hann til að leika með dúkkur til að örva sköpunargleðina og um leið forða honum frá sundskýlum og drykkjarmálum skreyttum forljótum myndum af brosandi kappakstursbílum (ég skildi hreinlega ekki fólk sem keypti annan eins óskapnað handa börnum).

Skyndilega rifjaðist þetta upp fyrir mér þar sem ég stóð og horfðist í augu við þrjóskan son minn. Í sömu andrá mundi ég líka að á þessum stað, á þessari stundu, var ég aðeins örfáum skrefum frá gamla sögufræga heimilinu hans David Bowie, þarna sömu megin götunnar á Hauptstrasse. Þar gerði hann garðinn frægan, ásamt Iggy Pop, þegar ég var á aldur við son minn og þótti hafa svo heppileg áhrif á borgina, sem og hún á hann, að í síðustu viku var opnuð veigamikil sýning um ástríðuþrungið samband David Bowie og Berlínar. Ég horfði á son minn og sá David Bowie; ég glotti skelmislega og mundi að sjálfri hefði mér alltaf þótt kvenlegir karlmenn og karlmannlegar konur þokkafull með eindæmum. Í rauninni eru allir karlar að einhverju leyti konur og allar konur að einhverju leyti karlar.

Varhugaverð umhverfisáhrif


Við nánari umhugsun hafði frjálsynda mamman byrjað að forpokast strax upp úr fæðingu sonarins. Í einni af fyrstu vagnferðunum hafði vinkona hrósað mér fyrir að breiða bleikt teppi yfir strák. Hrósið hafði öfug áhrif, systir mín hafði lánað mér teppið og ég breitt það umhugsunarlaust yfir barnið, en þetta varð til þess að ég fór að velta fyrir mér hvort það væri sjálfhverft af mér að taka ekki meira tillit til meintra almennra þarfa drengja í þessu tilliti. Eins var mér brugðið þegar leikskólakennari spurði af hverju ég hefði keypt stelpuregngalla á hann. Þetta er ekki stelpugalli, másaði ég stressuð og benti á að regngallinn væri rauður. Þá brosti leikskólakennarinn og sagði: Já, en þessir gallar eru bara til í rauðu og bláu.

Í ljósi fjölda keimlíkra atvika er kannski ekkert skrýtið að fréttin af drengnum ógæfusama hafi skotið mér skelk í bringu. Nú er svo komið að sonur minn á nánast bara dótabíla og flestir þeirra eru brunabílar, þó að einn og einn lögreglubíll hafi fengið að slæðast með. Hann er svo eldheitur í brunabílaleikjunum að hann gegnir helst nafninu Sam (Sammi brunavörður) og kallar mömmu sína oftast nær Elvis (starfsfélagi Samma þessa). Reyndar á hann líka járnbrautarlest, dótadýr og Legókubba. Jú, og ljósfjólublátt hjól með rauðum blómum sem hann valdi sér sjálfur og mamma hans lét eftir honum að kaupa, þökk sé David Bowie.

Sonur minn skrönglast um Berlín þvera og endilega á meintu stelpuhjóli með hjálpadekkjum og pastelgrænir skór með skærbleikum sólum hamast á pedulunum. Þetta er hans smekkur og meira er ekki um það að segja. Ef hann kýs frekar að drekka úr glasi með forljótum brosandi bíl en til dæmis norrænni gæðahönnun á borð við Múmínálfabolla, þá má hann það líka. Honum er frjálst að skreyta sig með öllum heimsins litum. Þetta er jú eftir allt saman hans líf. Og sannleikurinn einfaldlega sá að stundum geta mömmur verið ósköp vitlausar ... og smekklausar.

Órökréttur ótti framsóknarmanna
En já, þá að niðurlagi þessa pistils og raunar sjálfu innihaldinu (bið lesandann að afsaka langan inngang). Já, nokkur orð um órökréttan ótta. Það var órökréttur ótti sem stýrði því að ég gleymdi öllu því sem ég trúi á og vil standa fyrir, bæði sem manneskja og móðir. Ég stóð ekki nógu styrkum fótum þegar ég las illa þýdda frétt á íslenskum vefmiðli um eitt af öllum þessum börnum sem deyja daglega í heiminum af ólíkum ástæðum. Ein af öllum þessum hraðsoðnu fréttum sem engin fréttaskýring fylgir. Frétt, sem gæti þess vegna verið tilbúningur, varð til þess að ég varð svo hrædd um barnið mitt að ég gaf skít í hag barna almennt.

Þessi frétt og téðar afleiðingar hennar hafa þó fengið mig til að skilja konurnar í Framsókn betur. Ég held að þær séu, þannig lagað, velviljaðar manneskjur og góðar mömmur, frænkur og vinkonur. En ég held að þær eigi það sameiginlegt að hafa á viðkvæmum tímapunkti lesið eina af þessum illa skrifuðu fréttum um margslungin, flókin átök fólks hér og þar úti í hinum stóra heimi; eina af óteljandi samhengislausa fréttum sem við innbyrðum daglega, nánast án þess að taka eftir því. Nema að af einni eða annarri ástæðu tóku þær nógu vel eftir þessari tilteknu frétt þann daginn til að óttast svo um börnin sín að þær urðu reiðubúnar að kynda undir fordæmingu á öðrum börnum. Í fljótu bragði, og oftar en ekki ómeðvitað, virðist eina leiðin til að takast á við óttann sú að finna tákngerving fyrir allar hugsan­legar hættur. Í augum þeirra varð það Músliminn með stóra M-inu. Eða kannski öllu heldur, ég veit það ekki, en kannski: Útlendingurinn.

Oddviti Framsóknar ber blak af skoðunum sínum með því að segjast hafa dvalið á meðal múslima, enda mynd af henni rauðnefjaðri með blæju nokkuð áberandi í kosninga­baráttunni. Við þessa framsóknarkonu vil ég segja: Ég er femínisti sem hætti að þora að klæða soninn í rauð föt. Málið er að við manneskj­urnar þurfum daglega að endurskoða eigin hugarheim, annars endar allt í tómri vitleysu. Ég vil líka segja að ef þið framsóknarkonur teljið framgöngu ykkar til marks um að konur geti allt, þá er ég hér með hætt að vera kona. Ég er karl. Og sonur minn kallar mig Elvis.

Pistillinn birtist fyrst í nýjustu útgáfu Kjarnans. Lestu hana hér.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Sjókvíaeldi hefur aukist hratt á síðustu árum
Sjókvíaeldi hefur 13-faldast á sex árum
Umfang laxeldis hefur margfaldast á síðustu árum og útlit er fyrir að það muni vaxa enn frekar í náinni framtíð. Gangi spár eftir mun sjókvíaeldi á laxi árið 2023 verða tæplega helmingi meira en það var samanlagt á árunum 2010-2018.
Kjarninn 7. maí 2021
Eldgos hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli þann 19. mars síðastliðinn.
„Nýr ógnvaldur“ við heilsu manna kominn fram á suðvesturhluta Íslands
Lungnalæknir segir að lítið sé vitað um langtímaáhrif vegna gasmengunar í lágum styrk til lengri tíma og áhrif kvikugasa í mjög miklum styrk í skamman tíma á langtímaheilsu. Nauðsynlegt sé að rannsóknir hefjist sem fyrst.
Kjarninn 7. maí 2021
Viðsnúningur Bandaríkjanna í óþökk lyfjarisa
Óvænt og fremur óljós stefnubreyting Bandaríkjanna varðandi afnám einkaleyfa af bóluefnum gegn COVID-19 hefur vakið litla kátínu í lyfjageiranum. Deildar meiningar eru um hvort afnám einkaleyfa kæmi til með að hraða framleiðslu bóluefna.
Kjarninn 7. maí 2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Ísland skoðar að kaupa 100 þúsund skammta af Spútnik V og vill fá þorra þeirra fyrir 2. júní
Viðræður hafa átt sér stað milli fulltrúa íslenskra stjórnvalda og þeirra sem framleiða og markaðssetja hið rússneska Spútnik V bóluefni. Ísland myndi vilja fá að minnsta kosti 75 þúsund skammta fyrir 2. júní.
Kjarninn 7. maí 2021
Tæknivarpið
Tæknivarpið
Tæknivarpið – Sonos fær uppreist æru og Framsóknarmaður vill aldurstakmark á snjalltæki
Kjarninn 7. maí 2021
Bólusetningar ganga nú mjög hratt fyrir sig á Íslandi og samhliða dregur úr takmörkunum.
Fjöldatakmarkanir hækkaðar í 50 manns frá og með næsta mánudegi
Opnunartími veitingastaða verður lengdur um klukkustund, leyfilegur fjöldi í verslunum tvöfaldast, fleiri mega vera í sundi og fara í ræktina. Grímuskylda verður hins vegar óbreytt.
Kjarninn 7. maí 2021
Skálað á kaffihúsi í Danmörku.
Ýta við ferðaþjónustunni með 32 milljarða króna „sumarpakka“
Danska ríkisstjórnin ætlar að setja 1,6 milljarða danskra króna, um 32 milljarða íslenskra, í „sumarpakka“ til að örva ferðaþjónustu landsins.
Kjarninn 7. maí 2021
Kvótinn um 1.200 milljarða króna virði – Þrjár blokkir halda á tæplega helmingi hans
Miðað við síðustu gerðu viðskipti með aflaheimildir þá er virði þeirra langtum hærra en bókfært virði í ársreikningum útgerða. Í næstu viku munu örfáir eigendur útgerðar selja tæplega 30 prósent hlut sinn í henni.
Kjarninn 7. maí 2021
Meira úr sama flokkiPistlar
None