Að mörgu er að hyggja þegar grunur leikur á að myglusveppi sé að finna í fasteign. Í flestum tilfellum bera einstaklingar fjárhagslega ábyrgð á tjóninu. Erfitt getur verið að sækja bætur þegar um leyndan galla er að ræða. Í Noregi eru myglusveppir í húsum viðurkennt heilbrigðisvandamál en á Íslandi lítur kerfið undan. Embætti Landlæknis hefur ekki gefið út leiðbeiningar varðandi áhrif myglusveppa á heilsu fólks og erfitt getur reynst að fá viðeigandi læknisaðstoð.
Þegar hús mygla lítur kerfið undan
Fyrsta skrefið þegar húsráðanda grunar að raki og mygla sé í húsinu er að fá viðurkenndan fagaðila til að taka út fasteignina. Ef myglusveppir finnast er oft hægt að laga vandamálið með litlum tilkostnaði en í ákveðnum tilfellum getur viðgerðarkostnaður hlaupið á milljónum króna. Ábyrgðin liggur hjá húseiganda nema ef um staðfestan fasteignagalla er að ræða.
Verktakafyrirtæki, hönnuðir og aðrir sem bera ábyrgð á leyndum göllum í fasteign eru í mörgum tilfellum orðnir gjaldþrota eða hafa skipt um kennitölu þegar gallinn kemur í ljós. Þar af leiðandi getur reynst erfitt að sækja bætur. Byggingastjórar bera fjárhagslega ábyrgð á þeim verkum sem þeir hafa umsjón með þegar ofangreindir aðilar geta ekki staðið straum af kostnaði á viðgerð. Í mörgum tilfelllum er bæði tímafrekt og dýrt fyrir húseigendur að leita réttar síns og oft slagar lögfræðikostnaður húseiganda hátt upp í bótakröfuna.
Í Noregi er byggingarreglugerð mjög ítarleg og sveitarfélög bera ábyrgð á eftirliti. Fimm árum eftir að hús er byggt gerir viðkomandi sveitarfélag úttekt á húsinu þar sem meðal annars er farið yfir hvort leyndir gallar séu til staðar.
Þetta er örstutt brot úr áframhaldandi umfjöllun Kjarnans um myglusveppi. Lestu hana í heild sinni í nýjasta Kjarnanum hér.