Ég er sannfærður um að sagan dæmi það sem stórkostlegasta glæp löggjafans og ótrúlegasta samsæri gegn velferð almennings beggja vegna Atlantsála fyrr og síðar.“
Svo komst bandaríski þingmaðurinn John H. Reagan að orði um frumvarp sem bandaríska þingið hafði gert að lögum árið 1873. Reagan var síður en svo einn um að hneykslast; annar þingmaður kallaði lögin glæp aldarinnar og sá þriðji hélt því fram að þau væri þyrnikóróna á höfði verkafólks. Í ljósi þess að fæst okkar gætu gert sér í hugarlund til hvaða laga þessi orð þingmannanna vísa má kannski gera því skóna að þeir hafi lagt heldur vel í með þessum einkunnum – í það minnsta fyrirfinnast fáir sem svekkja sig enn á lögunum nú 140 árum síðar, eins og Reagan taldi víst. En hvaða löggjöf var það sem fór svona fyrir brjóstið á þeim? Það er kannski ótrúlegt, en lögin sem vöktu þessi hörðu viðbrögð fjölluðu um myntsláttu – eins banalt og það kann nú að hljóma.
Tvífættur
Forsagan er þessi. Bandaríkjadalur hafði verið tvífættur fram að þrælastríðinu 1861, sem merkti að bæði gull og silfur stóðu gjaldmiðlinum að baki. Myntslátta hins opinbera var „frjáls“, svo fram að þeim tíma gat hver sem fært fram ýmist gull eða silfur og látið slá fyrir sig dali, en hlutfall gulls og silfurs í myntum var ákveðið með lögum. Í þrælastríðinu var þetta fyrirkomulag lagt af tímabundið og pappírsseðill sem kallaður var grænbakur (e. greenback) tekinn upp, en með því að taka dalinn af málmfæti gátu stjórnvöld leyft sér að fjármagna stríðsreksturinn með seðlaprentun. Eftir að stríðinu lauk ríkti hins vegar einhugur um að sýna ráðdeild og setja dalinn á málmfót aftur, enda var þannig hægt að koma í veg fyrir óhóflega þenslu í peningamagni og tilheyrandi verðbólgu. Og þar kemur að myntsláttulögunum ógurlegu 1873.
Þegar dalurinn var settur á málmfót að nýju ákvað bandaríska þingið nefnilega að það skyldi gert með gulli, en myntslátta silfurs var afnumin með öllu. Þetta gæti virst minniháttar breyting, og jafnvel þingmennirnir sem afgreiddu frumvarpið veltu henni ekki mikið fyrir sér. Hún átti hins vegar eftir að hafa veruleg neikvæð áhrif á bandaríska hagkerfið næstu ár og áratugi. Vandinn var sá að flestöll stórveldi heims tóku upp gullfót um svipað leyti, um leið og gullvinnsla dróst mikið saman (með öðrum orðum jókst eftirspurn eftir gulli mikið á meðan framboðið stóð í stað) og gullverð hækkaði mikið. Þegar gull er notað sem gjaldmiðill er öll þjóðarframleiðslan umreiknuð í gull, og því er óumflýjanlegt að hærra gullverð merki að almennt verðlag lækki. Í raun var verðhækkun gulls því birtingarmynd ónógs peningamagns í hagkerfum heimsins, ekki síst því þjóðarframleiðsla Bandaríkjanna jókst mikið í hlutfalli við gullið sem tiltækt var til greiðslumiðlunar á sama tíma.
Skuldugir bændur í bobba
Afleiðing þessa varð meiriháttar verðhjöðnun, eða sem nam um 23%, á árabilinu 1880-1896. Hún hafði sérstaklega slæm áhrif á bændur, en þeir voru flestir stórskuldugir. Verðhjöðnunin hafði því enn fremur í för með sér að veruleg verðmæti fluttust frá bændum á vesturströnd Bandaríkjanna til banka á austurströndinni, enda hækkuðu skuldir þeirra að raungildi vegna verðhjöðnunarinnar. Það þarf því engan að undra að undir lok 19. aldar hafi myndast verulegur pólitískur þrýstingur úr ranni popúlista um að gera silfur aftur að lögeyri samhliða gulli – en það var m.a.s. eitt helsta kosningamál demókrata í forsetakosningunum 1896. Umræðan snerist auðvitað síst um málmana sem slíka; aðalatriðið var að silfur var tiltækt í verulegu magni, og því hefði verið hægt að þenja út peningamagnið sem því nam hefði dalurinn verið settur aftur á silfurfót og vinna þar með gegn verðhjöðnuninni.
Þessar hápólitísku hagfræðilegu deilur voru gerðar ódauðlegar árið 1900 – en reyndar með nokkuð óvæntum hætti. Það dylst nefnilega engum sem les ævintýrið um Galdrakarlinn í Oz eftir blaðamanninn L. Frank Baum að þar er um að ræða myndlíkingu fyrir deilur um frjálsa sláttu silfurmyntar undir lok 19. aldar. Jafnvel titillinn sjálfur vísar til þeirra, en oz. er enska skammstöfunin fyrir únsu – hefðbundna þyngdareiningu gulls.
Aðalpersónur bókarinnar eiga sér samsvörun í helstu persónum og leikendum úr silfurdeilunni. Dórótea er persónugervingur bandarískra gilda á meðan hundurinn Tótó er bandaríska bindindishreyfingin, Teetotalers, sem studdi sláttu silfurmynta en var annars sérkennilegur hópur og fyrirferðarlítill í bandarískum stjórnmálum. Fuglahræðan tekur að sér hlutverk bænda; hún telur sig skorta heila en reynist síðan sú vitrasta í föruneytinu – rétt eins og bændurnir, sem þóttu stundum einföld stétt en skildu samt hin flóknu peningahagfræðilegu rök fyrir silfursláttu betur en flestir aðrir. Pjáturkarlinn táknar verkamenn, sem glatað höfðu hjarta sínu í iðnvæðingunni. Huglausa ljónið er síðan sjálfur William Jennings Bryan, forsetaframbjóðandi Demókrata árin 1896 og 1900 og einn helsti talsmaður þess að gefa sláttu silfurmynta frjálsa – sem popúlistar óttuðust að hefði ekki kjark til að fylgja málinu úr hlaði.
Vondar nornir
Vondu nornirnar í austri og vestri eru samsuða þeirra stjórnmálamanna og fjármálaafla á austur- og vesturströndinni sem lögðust gegn því að horfið yrði frá gullfætinum. Hagsagnfræðingurinn Hugh Rockoff telur t.d. að vondu norninni í austri hafi verið ætlað að tákna Grover Cleveland, Demókrata sem lagðist gegn frjálsri sláttu silfurmynta en var sigraður á landsfundi flokksins 1896 – rétt eins og vonda nornin sem flest út þegar hús Dóróteu lendir ofan á henni!
Föruneyti Dóróteu er talin trú um að það fái lausn allra vandamála sinna með því einu að fylgja gullna veginum, þ.e. gullfætinum, til Smaragðsborgarinnar, sem er auðvitað hliðstæða höfuðborgar Bandaríkjanna, Washington. Í því ljósi er kostulegt að lesa lýsingar Baums á Smaragðsborginni, en þar er óhemjufjöldi uppáklæddra manna og kvenna sem hefur ekkert skárra við tíma sinn að gera en tala hvert við annað. Þar er þeim uppálagt að hitta sjálfan Galdrakarlinn í Oz, tákngerving Mark Hanna, formanns Repúblikanaflokksins, en komast að því fyrir rest að hann er svikahrappur.
Launsögnin nær síðan hápunkti sínum þegar Dórótea kemst að því að hún hefur borið bjargráðið á fótum sér allan tímann, en hún kemst loksins til síns heima þegar hún smellir hælunum á töfraskónum sem hún hafði tekið af vondu norninni í austri þrisvar. Hérna bjagast sagan reyndar heilmikið í meðferð Hollywood, sem hafði lítinn áhuga á því að fylgja eftir peningahagfræðilegri myndlíkingu í einu og öllu; kvikmyndaútgáfa sögunnar frá 1939 var ein fyrsta litmynd sögunnar, og því var afráðið að hafa skóna rauða til þess að nýta hina nýju tækni til fulls – en í bókinni eru skórnir vitaskuld úr silfri, sannkallaður silfurfótur!
Svo fór reyndar að talsmenn silfurs höfðu ekki erindi sem erfiði og töpuðu forsetakosningum bæði 1896 og 1900, en bandaríska hagkerfið hlaut meina sinna bót þegar gull fannst í Klondike og Suður-Afríku og hægt var að þenja peningamagnið nægilega út til þess að snúa verðhjöðnun í -bólgu.
Sennilegast væri hægur vandi að skrifa barnabók um peningahagfræði nútímans, en hún er jafnvel enn ævintýralegri en deilurnar um silfur undir lok 19. aldar – enda beita galdrakarlar í seðlabönkum nútímans ýmsum töfrum sem hefðu verið óhugsandi fyrir hundrað árum. Íslenska ævintýrið yrði alveg sérstaklega spennandi, en þar kæmi við sögu skipbrot söguhetjunnar eftir áralangt flot á agnarlitlum fleka, refskák við hrægamma og ævintýralegur flótti úr Haftahöllinni, sem virðist í fyrstu veita söguhetjunni skjól en reynist vera fangelsi. Í stað silfurskónna gæti komið töfrakóróna, viðeigandi táknmynd fyrir þjóðargjaldmiðilinn, þótt sennilegast yrði hún ekki sérstaklega þægilegt höfuðfat – og svolítið viðkvæmt. Þá er bara að krossleggja fingur og vona að ævintýrið hljóti farsælan endi og verði ekki of langt til að nokkur nenni að lesa það.