Hæstiréttur Íslands felldi í dag úr gildi frávísun Héraðsdóms Reykjaness í Aserta-málinu svokallaða. Héraðsdómur vísaði málinu frá dómi 14. mars síðastliðinn vegna óskýrleika í ákæru Sérstaks saksóknara. Í ákærunni er handboltamanninum Markúsi Mána Michaelssyni og þremur öðrum gefið að sök að hafa brotið gróflega gegn lögum um gjaldeyrismál.
Fjórmenningarnir eru ákærðir fyrir að hafa stundað viðskipti með krónur á aflandsmarkaði í gegnum sænska félagið Aserta fyrir rúmlega 14 milljarða króna á árinu 2009, eftir að gjaldeyrishöftunum var komið á. Með viðskiptunum er talið að hinir ákærðu hafi hagnast um að minnsta kosti 600 milljónir króna.
Í tölvupósti sem embætti Sérstaks saksóknara sendi verjendum fjórmenninga, við fyrirtöku málsins 14. mars síðastliðinn, kom fram að embættið líti ekki lengur á að gjaldeyrisviðskipti þeirra sem brot á gjaldeyrishöftum, mennirnir hafi hins vegar gerst sekir um að stunda viðskipti með gjaldeyri án þess að hafa til þess leyfi.
Dómur Hæstaréttar í dag þýðir að nú mun málið hljóta efnislega meðferð fyrir héraðsdómi. Dómur Hæstaréttar í málinu verður birtur á heimasíðu dómstólsins síðar í dag.