Bandaríski hugbúnaðarrisinn Google hefur á undanförnum árum fært sig úr sinni hefðbundnu internetframleiðslu og hafið stórsókn á markaði með snjalltæki. Nýjasta undrið úr smiðjum Google er Google Glass, einskonar snjallgleraugu sem færir tæknina í jaðarsjón notenda.
Einn þeirra sem hafði hvað mest áhrif á útkomu Google Glass er yfirhönnuður á hönnunarstofu Google, Robert Wong að nafni. Hann er í ítarlegu viðtali í Kjarnanum um það hvernig hönnun snertir alla þætti veruleika okkar. Og ekki síst tæknina sem við neytum á hverjum degi.
Verkefni hönnunarstofu Google sem Wong stýrir eru margþætt. Teymið hans hefur meðal annars annast hin svokölluðu „Doodles“ sem birtast reglulega fyrir ofan leitarstrenginn á forsíðu Google. Sjálfur segist hann ekki alveg vita hvað það er sem hann gerir, annað en að reyna að varpa upp mynd af því hvernig tæki nánustu framtíðar eigi að líta út.
„Ég vildi að það væri einhver einföld starfslýsing, en þetta er lítið teymi grafískra hönnuða, textahöfunda og kvikmyndagerðarmanna. Ímyndaðu þér þróunarstofu, en í staðinn fyrir vísindamenn og verkfræðinga eru listamenn og hönnuðir. Og vegna þess að við erum listamenn og hönnuðir er verkefnið okkar að fikta í tækjum og tólum, ímynda okkur hvað hægt er að gera með núverandi tækni eða hvernig hægt er að sameina tækin til að búa til ný.“
Þetta er útgáfa af viðtalinu við Robert Wong í Kjarnanum. Lestu viðtalið í heild sinni í nýjasta Kjarnanum hér.