Framsóknarflokkurinn er í vanda vegna meints daðurs hans við þjóðernispopúlisma. Forystumenn hans vilja reyndar ekkert viðurkenna það og líta mun fremur á flokkinn sem fórnarlamb óbilgjarnra árása einhvers óskilgreinds hóps pólitískra andstæðinga og nettrölla úr öllum áttum sem misskilji málatilbúnað flokksins vísvitandi og ítrekað.
En þegar lykilmenn í flokknum á borð við fyrrum formanninn Jón Sigurðsson, fyrrum sveitarstjórnarmanninn Ómar Stefánsson og fyrrum þingmanninn Ingvar Gíslason hoppa á gagnrýnisvagninn ásamt öllum þeim sem sögðu sig af listum eftir útspil Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur í vor þá verður það harmakvein hálf hjákátlegt.
Framsóknarflokkurinn hefur alltaf verið þjóðlegur flokkur. Það er hins vegar langur vegur milli þess að setja þjóðleg sérkenni í öndvegi og því að ala á hræðslu gagnvart minnihlutahópum og andúð sem byggir í besta falli á þekkingarleysi. Það hefur þó örlað á þeirri tilhneigingu hjá nokkrum lykilmönnum í flokknum á undanförnum áratugum, þótt enginn hafi hingað til gengið jafn langt og oddviti flokksins í Reykjavík í síðasta mánuði.
Verkafólkið kemur og staðsetur sig í landinu
Í júlí 1991 var Davíð Oddsson nýorðin forsætisráðherra og verið var að vinna í því að ganga frá samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Framsóknarmenn voru mjög á móti þeim samningi og málflutningurinn var oft á tíðum ekki ósvipaður því sem í dag heyrist þegar rætt er um Evrópusambandsaðild. Samningurinn var þó á endanum samþykktur naumlega á Alþingi í janúar 1993 og gekk í gildi tæpu ári síðar. Hann þykir vera ein helsta undirstaða þeirra miklu hagrænu framfara sem Ísland hefur gengið í gegnum síðan í byrjun tíunda áratugarins.
Efnilegur framsóknarmaður skrifaði á þessum tíma grein í Tímann, málgagn flokksins, sem bar fyrirsögnina „Hverjir eignast þá Ísland?“. Greinin var innlegg í umræðuna um EES-samninginn. Í greininni segir: „Að eignast laxveiðiár, bújarðir og heilu dalina heillandi, með þeim hætti hafa nú samgöngur breyst að þetta er nú ekkert mál. Ekkert af þessu virðist klárt í samningunum um Evrópska efnahagssvæðið eins og mál hafa þróast upp á síðkastið. Auðhringarnir myndu virkja og byggja upp verksmiðjur hér og koma með verkafólkið með sér og staðsetja það í landinu.“ Í greininni er alið á hættunni gagnvart hinu óþekkta með rakarlausum dómsdagsspám.
Útlendingar hafa auðvitað ekkert eignast kippur af laxveiðiám eða bújörðum né heilu dalina. Síðar voru það reyndar iðnaðarráðherrar Framsóknarflokksins, þau Finnur Ingólfsson og síðar Valgerður Sverrisdóttir, sem gerðu allt sem í valdi sínu stóð til að koma auðhringjunum hingað til lands og fá þá til að byggja verksmiðjur með því að selja þeim hræódýra orku, koma með verkafólk og „staðsetja það í landinu“.
Höfundur greinarinnar varð síðar formaður Framsóknarflokksins. Hann heitir Guðni Ágústsson.
„Höldum Íslandi íslensku"
Árið 1992 gaf Kjördæmasamband framsóknarmanna í Norðurlandi eystra út blaðið Einherja. Í leiðara annars tölublaðs þess það árið, sem kom út um miðjan apríl, skrifaði ritstjóri blaðsins um Evrópumál og sérstaklega EES-samninginn.
Hann var ekki ánægður með þetta Evrópusamvinnubrölt. Í leiðaranum segir: „Sé það rétt að samningurinn um evrópskt efnahagssvæði feli í sér fullveldisskerðingu, að íslensk lög verði að víkja fyrir útlendum, að landið opnist fyrir erlendu vinnuafli, að yfirráðaréttur Íslendinga yfir landi og landhelgi sé ekki tryggður má ekki gera þennan samning[...]Við verðum að standa fast á trú okkar á íslenska þjóð, íslenskar náttúruauðlindir, íslenskt hugvit og íslenska tungu, engu af þessu megum við glata. Stöndum vörð um land og þjóð, höldum Íslandi íslensku“.
Ritstjórinn ungi sem vildi halda Íslandi íslensku heitir Gunnar Bragi Sveinsson og er í dag utanríkisráðherra.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_06_19/1[/embed]
Skref stigið afturábak
Í formannsstíð Halldórs Ásgrímssonar, og ekki síst eftir að Framsóknarflokkurinn komst aftur í ríkisstjórn árið 1996, virtist vera stigið skref til baka í þessu mikla þjóðernishyggjudaðri. Í október 1996 átti til að mynda sér stað forvitnileg umræða á Alþingi kjölfar fyrirspurnar um aðgerðir gegn útlendingaandúð. Svavar Gestsson, þá þingmaður, tók til máls og nefndi að þá um sumarið hefði verið nokkur umræða meðal almennings um útlendingahatur vegna þess að manni var vísað af veitingastað á grundvelli litarháttar. Hann vildi fá að vita hvort ríkisstjórninn ætlaði að grípa til aðgerða.
Halldór Ásgrímsson svaraði því til að hann héldi „að það sé nú þannig í okkar þjóðfélagi sem betur fer að almenningur þolir ekki að svona sé komið fram við fólk og það aðhald sem hefur t.d. verið að hálfu fjölmiðla í þessu máli hefur vakið menn til umhugsunar um það. Við skulum þess vegna vona að slíkt komi ekki fyrir aftur í okkar samfélagi þó við getum aldrei verið tryggir um það.“
Vildi láta reka dósent
Spólum áfram um fimmtán ár. Ný forysta hefur tekið við Framsóknarflokknum og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er orðinn formaður. Eiríkur Bergmann Einarsson, þá dósent og fyrrum varaþingmaður Samfylkingarinnar, skrifar grein í Fréttatímann í nóvember 2011 þar sem hann segir að „Í allra síðustu tíð hefur Framsóknarflokkurinn svo eilítið farið að daðra við þjóðernisstefnuna. Breytingar á merki flokksins vísar til að mynda í klassísk fasísk minni og áhersla hefur verið á að sýna þjóðleg gildi á fundum flokksins, svo sem glímusýningu undir blaktandi þjóðfánanum. Orðræða sumra þingmanna hefur í auknum mæli einkennkst af hollustu við þjóðernið. Enn þó er þó ekki ljóst hvort flokkurinn ætli sér að sækja lengra inn í þetta mengi“.
Framsóknarflokkurinn fór af hjörunum vegna þessa. Þingflokkur hans sendi frá sér reiða og sára yfirlýsingu og Vigdís Hauksdóttir, þingmaður flokksins, skrifaði grein þar sem hún meðal annars ávarpaði Eirík beint. Vigdís sagði Eirík hafa farið yfir „öfgahreyfingar í Evrópu og á Norðurlöndunum og lýsir hatri þeirra á innflytjendum. Þú ferð einnig yfir hin hræðilegu Úteyjarmorð og berð þetta svo allt saman við Framsóknarflokkinn og telur hann hafa breyst í þessa átt hin allra síðustu ár. Ég fyllist viðbjóði, doktor Eiríkur, á samlíkingunni og afþakka slíkar samlíkingar fyrir mína hönd og framsóknarmanna allra. Ég skora á skólastjórn Háskólans á Bifröst og rektor skólans að fara yfir hegðun doktors Eiríks sem starfsmanns ríkisstyrkts háskóla“.
Í þjóðernispopúlismahnakkinn
Síðan að þetta átti sér stað hefur Framsóknarflokkurinn nokkrum sinnum til viðbótar verið sakaður um að vera að feta hættulegar brautir þjóðernisrembu en að mestu sloppið við ásakanir um útlendingaandúð. Þangað til í vor.
Framsókn gekk vægast sagt illa að ná í fylgi í aðdraganda borgarstjórnarkosninga. Oddvitaskipti og tilraunir til að gera flugvöllinn í Vatnsmýrinni að einhverju aðalmáli í kosningabaráttunni höfðu ekki borið árangur.
Átta dögum fyrir kosningar, þegar útlit var fyrir að það væri vonlaust fyrir Framsókn að ná inn manni í Reykjavík, varpaði Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, nýr oddviti flokksins , sprengju inn í kosningarnar með því að segja að „á meðan við erum með þjóðkirkju eigum við ekki að úthluta lóðum undir hús eins og moskur eða kirkjur fyrir grísku réttrúnaðarkirkjuna“. Í viðtali við Vísi sagðist hún hafa „búið í um eitt ár í Sádí Arabíu og byggi þessa skoðun mína ekki á fordómum, heldur reynslu.“
Þögnin vindur í segl andúðarskipsins
Í kjölfarið var lýst yfir stuðningi við Framsóknarflokkinn á Facebook síðu sem bar nafnið „Mótmælum mosku á Íslandi“. Sú síða var, og er, gróðrastía útlendingaandúðar. Hún hafði komist í fréttir um ári áður og þá höfðu um 2000 manns „like-að“ hana. Enn fleiri bættust á vagninn og allt í einu varð útlendingaandúð mjög sýnileg á íslenskum samfélagsmiðlum.
Forysta Framsóknarflokksins brást ekki við með nægilega skiljanlegum hætti til að hægt væri að sjá að hún þvæði hendur sínar af þessum meldingum Sveinbjargar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tjáði sig til að mynda ekki um málið fyrr en daginn eftir kosningar. Þá þurfti að þráspyrja hann til að fá út úr honum einhverja skoðun og hann eyddi mestum tíma sínum í að kvarta yfir því hversu vondir aðrir hefðu verið við Framsókn út af þessari umræðu.
Sveinbjörg var brött og sagði við Vísi fjórum dögum fyrir kosningar að hún túlkaði „þögn forystunnar þannig að ég eigi að fá að sigla þessu skipi í höfn[...] og ég þakka þeim þetta traust sem mér er sýnt með þessu“.
Daginn fyrir kosningar var hún svo gestur í þættinum „Stóru málin“ á Stöð 2. Þar greip Sveinbjörg frammí fyrir öðrum frambjóðanda og sagði: „Vilt þú búa í samfélagi þar sem, eins og Svíar þurftu að setja í síðustu viku, að það er refsivert, hver hefði getað ímyndað sér það, að Svíar þyrftu að setja lög þar sem væri refsivert að þvinga fólk í hjúskap.“
Ekki boðlegur hálfkæringur
Það er enginn vafi að skrefið í átt að því að gera útlendingaandúð að pólitísku stefnumáli var stigið til fulls af hluta Framsóknarflokksins með yfirlýsingum Sveinbjargar. Þær miðuðu að því að kynda undir hræðslu við hið óþekkta í þeim tilgangi að sanka að sér atkvæðum.
Það svínvirkaði líka. Flokkurinn fékk tvo fulltrúa í borgarstjórn í fyrsta sinn í 40 ár. Eftir kosningar lokaði Sveinbjörg Facebook-síðu sinni og þurrkaði þar með út allt sem hún hafði sagt þar í aðdraganda kosninga. Hún mætti svo í útvarpsviðtal og sagði ummælin hafa verið sett fram í hálfkæringi og að þau samræmdust ekki stefnu Framsóknarflokksins. Allt í plati.
Það er hins vegar alveg klárt að fullt af fólki kaus Framsóknarflokkinn vegna útlendingaandúðar. Fólk sem vill loka landamærum og halda „Íslandi íslensku“. Málinu verður því ekki sópað undir teppið með vandlætingu gagnvart því sem aðrir segja um það. Yfirlýsingarnar verða ekki teknar til baka með því að segja að þetta hafi bara verið djók. Flokkurinn mun þurfa að taka á málinu með skýrum hætti ef hann ætlar sér að hrista þennan vafasama stimpil af sér. Nú, eða einfaldlega að hætta þessu daðri sem staðið hefur yfir um áratugaskeið, umfaðma boðskapinn og gera hann að stefnu sinni.