Eftir að hafa lesið frumvarpið um hinn svokallaða náttúrupassa hefur höfuð mitt fyllst efasemdum og vantrú á að verið sé að fara bestu og einföldustu leiðina til þess að afla tekna fyrir íslenska náttúru. Verði lögin samþykkt sé ég ekki annað en heimilt verði að taka gjald af landsvæðum í einkaeigu sem ekki kjósa aðild að náttúrupassanum. Lögin myndu gefa svo skýrt fordæmi að engin leið væri að koma í veg fyrir slíkt.
Svæðisbundnar rukkanir af því tagi hafa verið kallaðar „skúravæðing“ og tilraunir sem gerðar voru í Námaskarði síðastliðið sumar leiddu til þess að fararstjórar leiddu hópa eftir nýjum leiðum að hverasvæðinu og settu þá í hættu til þess að komast undan greiðslu aðgangseyris.
Allir virðast vera sammála að þetta sé ekki eftirsóknarvert fyrirkomulag en innleiðing náttúrupassans gerir slíka innheimtu löglega með sínu fordæmi kjósi landeigendur að standa utan passans.
Ráðherrann sem treysti ekki ríkinu
Þegar ráðuneytið var að undirbúa málið á síðasta ári var oft stungið upp á því að einfalt komugjald yrði innheimt af flugfarþegum til að forðast eftirlit og tryggja að allir greiddu.
Þessu var yfirleitt svarað þannig að þegar slíkt gjald væri innheimt sem skattur hyrfi það í svarthol ríkissjóðs og engin trygging væri fyrir því að féð rynni til þess málaflokks sem innheimt væri fyrir. Til þess að forðast þetta ætlaði ráðherra að koma á fót sjálfseignarstofnun sem annaðist varðveislu og útdeilingu fjárins.
„Þess vegna má vel ætla að margir ferðamenn muni sleppa við kaup á náttúrupassa og njóti líklega aðstoðar íslenskra leiðsögumanna sem virðast flestir vera mjög andvígir áminnstum náttúrupassa.“
Í frumvarpinu sem nú liggur fyrir eru þessar hugmyndir horfnar og skal gjald fyrir náttúrupassann renna óskipt í ríkissjóð. Vel má spyrja sig hvort það traust sem ráðherra virðist nú bera til ríkisins dugi ekki til þess að horfa til innleiðingar komugjalds.
Í frumvarpinu virðist ekki vera gert ráð fyrir því að allir erlendir gestir kaupi náttúrupassa. Með því að gera kaup á passanum valkvæð er óhjákvæmilegt að hafa einhvers konar eftirlit með því á áfangastöðum að ferðamenn séu með passann.
Sporvagn er ólíkur Gullfossi
Vitnað hefur verið til eftirlits í lestarkerfum erlendis og sagt að þessháttar handahófskenndu eftirliti verði beitt. Ég hef farið miðalaus í sporvagna erlendis, stundum í hreinni glópsku en stundum vísvitandi. Ég hef oft séð starfsmenn dönsku járnbrautanna að störfum við miðaeftirlit. Þeirra starfsaðstaða um borð í lestinni er afar ólík því sem gerist í mannþröng og óreiðu eins og rekast má á við Geysi eða á Þingvöllum um háannatímann.Við slíkar aðstæður er vonlaust að ætla sér að stunda einhvers konar eftirlit.
Þess vegna má vel ætla að margir ferðamenn muni sleppa við kaup á náttúrupassa og njóti líklega aðstoðar íslenskra leiðsögumanna sem virðast flestir vera mjög andvígir áminnstum náttúrupassa.
Ég skal passa dyrnar
Einu sinni var reynt að setja salerni með peningalás upp á vinsælum áningarstað til að eignast svolítinn pening til uppbyggingar og halda náttúrunni hreinni. Það þurfti altsvo að setja 100 krónu pening í lásinn og þá opnaðist klósettið. Þetta þekkja margir af torgum erlendis og kostar hálfa eða ein evru að opna hurðina.
Þetta gat ekki gengið á Íslandi því íslenskum fararstjórum var svo í nöp við innheimtuna að þeir stunduðu það að setja einn 100 krónu pening í lásinn til að opna og stóðu svo við hurðina og pössuðu að hún lokaðist ekki til fulls og þannig var hægt að hleypa heilli rútu á dolluna fyrir einn 100 kall.
„Það er því dapurlegt ef ráðherra og ráðuneyti ferðamála ætla að þvinga í gegnum þingið í krafti flokkshollustu þá leið sem minnst samstaða virðist ríkja um í samfélaginu.“
Íslensk náttúra hefur lengi verið munaðarlaus í þeim skilningi að enginn hefur borið skýra ábyrgð á því að byggja upp og vernda þá staði sem mestra vinsældra njóta. Þjóðgarðar og Umhverfisstofnun eru fjársvelt fyrirbæri sem lítt hafa getað hafst að undanfarin ár. Mesta verkið við uppbyggingu göngustíga á vinsælum slóðum hefur verið unnið af erlendum sjálfboðaliðum. Þeir starfa undir leiðsögn aðkominna fagmanna og því er lítil eða engin þekking á því innanlands hvernig skuli standa að viðhaldi og uppbyggingu göngustíga.
Ekki í boði að gera ekkert
Brýn fjárþörf til uppbyggingar á ferðamannastöðum á Íslandi blasir við hverjum sem heimsækir fjölfarna staði. Verði ekki gripið til aðgera strax spillum við og eyðileggjum með álagi og yfirgangi náttúrunni sem er höfuðástæðan fyrir heimsókn flestra erlendra ferðamanna, segullinn sem dregur þá til okkar.
Það er því dapurlegt ef ráðherra og ráðuneyti ferðamála ætla að þvinga í gegnum þingið í krafti flokkshollustu þá leið sem minnst samstaða virðist ríkja um í samfélaginu. Aðrar og einfaldari leiðir virðast blasa við hvort sem um væri að ræða einföld komugjöld eða aukna og skilvirkari skattheimtu á ferðaþjónustu en nú tíðkast. Það er vægast sagt undarlegt að sú atvinnugrein sem stendur orðið jafnfætis sjávarútvegi í framlagi til þjóðarbúsins skuli búa við mun minni skattheimtu en aðrar greinar.
Fari það svo að málið koðni niður með einhverjum hætti og nauðsynlegri gjaldheimtu fyrir íslenska náttúru verði ekki komið á er ábyrgð hins þvermóðskufulla ráðherra mikil. Það er nefnilega ekki í boði að gera ekki neitt.