Þessi færsla er úr eldra greinasafni Kjarnans og gæti þess vegna birst furðulega.
Auglýsing

Þótt lög og reglugerðir telji orðið þúsundir blaðsíðna koma upp aðstæður á hverjum degi sem fólk þarf að leysa úr af eigin rammleik. Yfirleitt tekst fólki vel til en stundum vandast málin og erfiðar, jafnvel vandræðalegar aðstæður geta skapast í tómarúminu.

Hér verður farið yfir fimm slík tilvik, hversdagslegar aðstæður sem engar reglur gilda um. Í fyrsta lagi er til skoðunar hvor eigi að hringja til baka þegar símtal slitnar, í öðru lagi hvort og þá hvenær gestgjafi eignist áfengi, sem er afgangs frá gestum eftir heimboð, í þriðja lagi hvort fara megi fram fyrir gömlu röðina í verslun þegar nýr afgreiðslukassi opnar, í fjórða lagi hvort henda megi rusli á gólfið í bíó og svo loks hvort pör borgi tvöfalt eða jafnt á við einhleypa í sameiginlegum gjöfum.

Allt eru þetta atriði sem hafa valdið gríðarlegri óvissu. Hér þarf að viðhafa snögg viðbrögð og ekki gefst tími til að halda þjóðfund með blöðrum og stikkorðum, heldur þarf einhver að taka sér norður-kóreskt landsföðurvald og semja reglur. Ég hef sem sagt ákveðið að taka það að mér.

Auglýsing

Þegar símtal slitnar, hvor á að hringja til baka?


Upp getur komið sú hvimleiða pattstaða þegar það slitnar í miðju símtali að báðir reyna að hringja til baka. Þá er á tali hjá báðum út af því að þeir eru að hringja í hvorn annan. Svo getur það gerst að báðir ákveða að hætta að reyna á sama tíma og ekkert gerist í drykklanga stund, þar til báðir byrja aftur. Svona getur þetta gengið í marga hringi.
Þetta er auðvitað bagalegt og einhver hagfræðingurinn gæti sjálfsagt reiknað út samfélagslegt tap Íslendinga af völdum þess hve miklum tíma er eytt í símtöl sem þessi á ári. En um þetta á að gilda einföld regla sem eyðir óvissunni (og sparar samfélaginu stórfé).

Reglan byggir á því að þátttakendum í símtali má skipta í tvennt. Annars vegar er það leiðtogi símtalsins, þ.e. sá sem hringdi upphaflega og hins vegar starfsmaður á plani símtalsins, sá sem hringt var í.

Þegar hlutverkum hefur verið skipt með þessum hætti einfaldast málið verulega. Leiðtoginn ber að sjálfsögðu alla ábyrgð á því að hringja aftur ef svo illa fer að sambandið slitnar en starfsmanni á plani ber að halda kyrru fyrir á meðan og undir engum kringumstæðum reyna að hringja til baka, nema fyrirskipanir þess efnis berist frá leiðtoganum, t.d í formi sms-skeytis.

Hér er því sett fram eftirfarandi regla:
> Þegar símtal slitnar ber sá sem hringdi upphaflega (leiðtogi símtalsins) ábyrgð á að hringja til baka í þann sem var hringt í (starfsmann á plani símtals).

Eignast gestgjafi áfengi sem er afgangs frá gestum?


Þetta er aðstaða sem oft kemur upp. Boðið er heim og gestirnir taka með sér áfengi en skilja það eftir hjá gestgjafanum. Er við hæfi að gesturinn mæti síðar og endurheimti áfengið eða má gestgjafinn slá eign sinni á afganginn?

Hér getur t.d. það vandræðalega augnablik orðið að þegar gesturinn mætir einhverjum dögum síðar sé gestgjafinn í þann mund að dreypa á afganginum.
Almennt verður að miða við að gestgjafinn eignist það áfengi sem skilið er eftir hjá honum, enda ekki hægt að leggja það á gestgjafann að geyma áfengi vikum eða jafnvel mánuðum saman. Þó þarf að huga að tvennu í þessu samhengi. Fyrir það fyrsta, hversu veglegt var heimboðið og í öðru lagi hversu verðmætt var áfengið fyrir gestinn?

Heimboð eru misvegleg. Þegar hópur ungra karlmanna, svo dæmi sé tekið, hittist heima hjá einum þeirra er tilgangurinn yfirleitt eingöngu að tryggja húsaskjól á meðan áfengis er neytt og haldið á pöbbinn eftir á. Veitingar og undirbúningur eru í lágmarki, ef einhverjar yfirhöfuð. Eftir því sem aldurinn færist yfir og fólk gerist ráðsettara er meira lagt í heimboðin og tilkostnaðurinn verður meiri.

Að sama skapi er áfengi mismikilvægt eftir aldri þess sem á það. Ungt fólk hefur allajafna mikið fyrir því að útvega sér áfengi og ver til þess töluverðu hlutfalli af sínum ráðstöfunartekjum. Áfengi er dýrt hér á landi og okkur Íslendingum ekki treyst fyrir því að versla slíka vöru fyrr en eftir tvítugt og þá alls ekki í almennum matvöruverslunum. Eignarhald áfengis er því þýðingarmikið fyrir ungt fólk sem á ekki efni á því að fara á bari. Því er oft mikið á sig lagt til að tryggja sér áfengi og ungt fólk gefur t.d. hvort öðru ekki áfengi, ekki frekar en fangar gefa hvor öðrum sígarettur.

Allt hnígur þetta í þá átt að gestgjafi sem hefur haft ungt fólk í heimsókn verður að stíga varlega til jarðar í að slá eign sinni á afgangsáfengi. Eðlilegt er að gefa rúman frest í slíkum tilfellum, allavega vel fram yfir næstu helgi áður en hægt er að ganga í birgðirnar sjálfur.

Þegar fólk eldist breytist þetta. Heimboð eru veglegri og ýmsar aðrar skyldur falla til en að útvega húsaskjól færast yfir á gestgjafann, t.d. matreiðsla og að bjóða upp á borðvín með matnum. Gestgjafar í slíkum boðum eiga því almennt að geta gengið að því sem vísu að það áfengi sem verður afgangs sé þeirra, enda hafa þeir lagt töluvert í boðið.

Að þessu sögðu verður að gæta að því að gestir í boðum geti, áður en kvatt er, sótt það áfengi sem komið var með í boðið, t.d. ef gesturinn er með fleiri samkvæmi á dagskránni um kvöldið. Best er að gera slíkt svo lítið beri á og áður en kveðjuathöfn hefst, enda óþægilegt fyrir alla ef hjartnæmar þakkarræður eru t.d. brotnar upp með ósk um að sóttir verði tveir bjórar í ísskápinn.

Hér er því sett fram eftirfarandi regla:
> Áfengi sem verður afgangs í heimboði er eign gestgjafa frá og með kveðjustund í heimboði.
> Sé gesturinn ungur að árum getur gestgjafi ekki slegið eign sinni á afgangsáfengið fyrr en að liðinni einni helgi frá og með heimboðinu.

Má fara fram fyrir röðina þegar nýr afgreiðslukassi opnar í verslun?


Í flestum verslunum landsins eru afgreiðslukassar skipulagðir þannig að biðröð er við hvern og einn þeirra. Ef nýr kassi opnar myndast því nokkurs konar villta vesturs ástand meðal viðskiptavina sem rjúka úr gömlu röðinni til að vera fyrstir í þá nýju.

Ef það eru til dæmis fimm manns í röð á kassa og þrír þeirra ákveða að freista gæfunnar á nýja kassanum, getur sú staða komið upp að fimmti maðurinn í gömlu röðinni sé kominn framfyrir hina tvo.

Allir sjá hvers konar hrópandi óréttlæti slíkt hefði í för með sér. Forgangur úr fyrri röðum verður að halda sér, enda eru allir betur settir þótt röðin haldi sér og réttlætiskenning John Rawls þannig uppfyllt. Sá sem var fimmti í gömlu röðinni er nú skyndilega þriðji í þeirri nýju og þannig koll af kolli.

Málið vandast þó ef tvær mismunandi raðir koma saman í nýju röðina. Hvor röðin hefur forgang í nýju röðina? Ef gæta ætti ítrustu sanngirni þyrfti sennilega að leyfa þeim sem lengst hefur beðið í annarri hvorri röðinni að vera fyrstur og svo kæmi sá sem lengst hefði beðið í hinni röðinni og svo framvegis. Slíkt yrði þó augljóslega of flókið og því verður að fara blandaða leið. Ef farið er úr tveimur röðum þá verður sú röð sem fyrst kemur á nýja kassan að fá að vera á undan. En hins vegar bera að virða innbyrðis skipan úr gömlu röðinni.

Hér er því sett fram eftirfarandi regla:
>Þegar nýr kassi opnast í verslun, skulu þeir sem fara yfir úr gömlum röðum vera jafnsettir innbyrðis á nýja kassanum.

Má henda rusli á gólfið í bíó?


Sjarminn við að fara í bíó liggur ekki síst í smáatriðunum. Bíóferð er fullkomin afsökun til að raða í sig gosi, poppi, nammi og fylla svo á í hléi með meira gosi og poppi, allt á innan við tveimur tímum og þurfa ekkert að spá í því hvað verður um ruslið. Því er bara hent á gólfið og þykir sjálfsagt. Gamla tuggan sem er oft sögð við börn, „myndirðu ganga svona um heima hjá þér?“ á t.d. ekki við um bíó. Enginn annar samkomustaður fólks býður upp á þennan valkost. Í leikhúsi kastar enginn rusli á gólfið, hvað þá á veitingastöðum eða kaffihúsum. Bíóferðir eru okkar guilty pleasure þegar kemur að rusli og tiltekt.

Á því hefur hins vegar borið upp á síðkastið að fólk sé farið að fá samviskubit yfir þessu og sé jafnvel farið að stunda vitleysu eins og að telja sig þurfa að að henda ruslinu sjálft.

Rétt er að fyrirbyggja þennan misskilning alveg með eftirfarandi reglu:
> Réttur bíógesta til að henda rusli á gólf byggir á gamalli venju og er skýr.

Borga pör tvöfalt eða jafnt á við einhleypa í sameiginlegum gjöfum?


Algengt er í veislum, giftingum, afmælum og útskriftum að hópur taki sig til og leggi saman í púkk fyrir gjöf. Kostnaðinum er þá deilt jafnt á þá sem koma að gjöfinni en hvernig á að telja pör í hópnum? Er parið talið sem einn eða tveir hausar í púkkinu?

Pör geta lent í að ofgreiða í gjöfum ef telja á þau tvöfalt en á móti kemur þá geta þau líka sloppið ódýrt ef þau eru talin sem einn haus, enda fær parið nafnið sitt á kortið, tekur þátt í veislunni en borgar bara helming á við aðra.

Hér getur auðvitað skipt máli hversu vel parið þekkir viðkomandi. Þekkja báðir makar þann sem býður eða bara annar makinn? Önnur leið er að spyrja sig að því hvað myndi gerast ef parið væri ekki saman, yrði þeim báðum boðið í veisluna? Að vísu verður að fara varlega í slíkt, enda kannski ekki mjög rómantískt að byrja kvöldið á slíkum vangaveltum: „Ef ég myndi hætta með þér þá myndi Maggi aldrei bjóða þér, ástin mín“.

Þetta má einnig nálgast út frá veisluföngum – tekur makinn mikið til sín í mat og drykk eða er hann neyslugrannur og bara í vatninu? Ef svo er, má færa rök fyrir því að óþarfi sé að rukka hann fyrir gjöfina en ef hann er á beit horfir málið öðruvísi við.

Ef allt er í hnút má hér henda fram ákveðnum Salómonsdóm, í þá veru að pör greiði 1.5 á við einhleypa.
Hér er því sett fram eftirfarandi regla:
> Þegar hópur (þrír eða fleiri) stendur sameiginlega að gjöf, skal telja pör sem einn aðila í gjöfinni. Parið skal þá gæta að því að neysla matar og drykkjar í veislunni sé í samræmi við þetta hlutfall.
> Þetta á þó ekki við ef báðir makar þekkja þann sem fær gjöfina, svo vel að þeim hefði báðum verið boðið. Þá skal parið greiða tvöfalt í gjöfinni.

Hugmyndin sú að reglurnar verði kallaðar „hversdagsreglurnar“ og fólk geti þá vísað til þeirra þannig, sbr. „þetta er bara alveg skýrt í hversdagsreglunum“.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiPistlar