Þessi færsla er úr eldra greinasafni Kjarnans og gæti þess vegna birst furðulega.
Auglýsing

Þótt lög og reglu­gerðir telji orðið þús­undir blað­síðna koma upp aðstæður á hverjum degi sem fólk þarf að leysa úr af eigin ramm­leik. Yfir­leitt tekst fólki vel til en stundum vand­ast málin og erf­ið­ar, jafn­vel vand­ræða­legar aðstæður geta skap­ast í tóma­rúm­inu.

Hér verður farið yfir fimm slík til­vik, hvers­dags­legar aðstæður sem engar reglur gilda um. Í fyrsta lagi er til skoð­unar hvor eigi að hringja til baka þegar sím­tal slitn­ar, í öðru lagi hvort og þá hvenær gest­gjafi eign­ist áfengi, sem er afgangs frá gestum eftir heim­boð, í þriðja lagi hvort fara megi fram fyrir gömlu röð­ina í verslun þegar nýr afgreiðslu­kassi opn­ar, í fjórða lagi hvort henda megi rusli á gólfið í bíó og svo loks hvort pör borgi tvö­falt eða jafnt á við ein­hleypa í sam­eig­in­legum gjöf­um.

Allt eru þetta atriði sem hafa valdið gríð­ar­legri óvissu. Hér þarf að við­hafa snögg við­brögð og ekki gefst tími til að halda þjóð­fund með blöðrum og stikkorð­um, heldur þarf ein­hver að taka sér norð­ur­-kóreskt lands­föð­ur­vald og semja regl­ur. Ég hef sem sagt ákveðið að taka það að mér.

Auglýsing

Þegar sím­tal slitn­ar, hvor á að hringja til baka?Upp getur komið sú hvim­leiða patt­staða þegar það slitnar í miðju sím­tali að báðir reyna að hringja til baka. Þá er á tali hjá báðum út af því að þeir eru að hringja í hvorn ann­an. Svo getur það gerst að báðir ákveða að hætta að reyna á sama tíma og ekk­ert ger­ist í drykk­langa stund, þar til báðir byrja aft­ur. Svona getur þetta gengið í marga hringi.

Þetta er auð­vitað baga­legt og ein­hver hag­fræð­ing­ur­inn gæti sjálf­sagt reiknað út sam­fé­lags­legt tap Íslend­inga af völdum þess hve miklum tíma er eytt í sím­töl sem þessi á ári. En um þetta á að gilda ein­föld regla sem eyðir óviss­unni (og sparar sam­fé­lag­inu stór­fé).

Reglan byggir á því að þátt­tak­endum í sím­tali má skipta í tvennt. Ann­ars vegar er það leið­togi sím­tals­ins, þ.e. sá sem hringdi upp­haf­lega og hins vegar starfs­maður á plani sím­tals­ins, sá sem hringt var í.

Þegar hlut­verkum hefur verið skipt með þessum hætti ein­fald­ast málið veru­lega. Leið­tog­inn ber að sjálf­sögðu alla ábyrgð á því að hringja aftur ef svo illa fer að sam­bandið slitnar en starfs­manni á plani ber að halda kyrru fyrir á meðan og undir engum kring­um­stæðum reyna að hringja til baka, nema fyr­ir­skip­anir þess efnis ber­ist frá leið­tog­an­um, t.d í formi sms-­skeyt­is.

Hér er því sett fram eft­ir­far­andi regla:

> Þegar sím­tal slitnar ber sá sem hringdi upp­haf­lega (leið­togi sím­tals­ins) ábyrgð á að hringja til baka í þann sem var hringt í (starfs­mann á plani sím­tals).

Eign­ast gest­gjafi áfengi sem er afgangs frá gestum?Þetta er aðstaða sem oft kemur upp. Boðið er heim og gest­irnir taka með sér áfengi en skilja það eftir hjá gest­gjaf­an­um. Er við hæfi að gest­ur­inn mæti síðar og end­ur­heimti áfengið eða má gest­gjaf­inn slá eign sinni á afgang­inn?

Hér getur t.d. það vand­ræða­lega augna­blik orðið að þegar gest­ur­inn mætir ein­hverjum dögum síðar sé gest­gjaf­inn í þann mund að dreypa á afgang­in­um.

Al­mennt verður að miða við að gest­gjaf­inn eign­ist það áfengi sem skilið er eftir hjá hon­um, enda ekki hægt að leggja það á gest­gjafann að geyma áfengi vikum eða jafn­vel mán­uðum sam­an. Þó þarf að huga að tvennu í þessu sam­hengi. Fyrir það fyrsta, hversu veg­legt var heim­boðið og í öðru lagi hversu verð­mætt var áfengið fyrir gest­inn?

Heim­boð eru mis­veg­leg. Þegar hópur ungra karl­manna, svo dæmi sé tek­ið, hitt­ist heima hjá einum þeirra er til­gang­ur­inn yfir­leitt ein­göngu að tryggja húsa­skjól á meðan áfengis er neytt og haldið á pöbb­inn eftir á. Veit­ingar og und­ir­bún­ingur eru í lág­marki, ef ein­hverjar yfir­höf­uð. Eftir því sem ald­ur­inn fær­ist yfir og fólk ger­ist ráð­sett­ara er meira lagt í heim­boðin og til­kostn­að­ur­inn verður meiri.

Að sama skapi er áfengi mis­mik­il­vægt eftir aldri þess sem á það. Ungt fólk hefur alla­jafna mikið fyrir því að útvega sér áfengi og ver til þess tölu­verðu hlut­falli af sínum ráð­stöf­un­ar­tekj­um. Áfengi er dýrt hér á landi og okkur Íslend­ingum ekki treyst fyrir því að versla slíka vöru fyrr en eftir tví­tugt og þá alls ekki í almennum mat­vöru­versl­un­um. Eign­ar­hald áfengis er því þýð­ing­ar­mikið fyrir ungt fólk sem á ekki efni á því að fara á bari. Því er oft mikið á sig lagt til að tryggja sér áfengi og ungt fólk gefur t.d. hvort öðru ekki áfengi, ekki frekar en fangar gefa hvor öðrum sígar­ett­ur.

Allt hnígur þetta í þá átt að gest­gjafi sem hefur haft ungt fólk í heim­sókn verður að stíga var­lega til jarðar í að slá eign sinni á afgangs­á­fengi. Eðli­legt er að gefa rúman frest í slíkum til­fell­um, alla­vega vel fram yfir næstu helgi áður en hægt er að ganga í birgð­irnar sjálf­ur.

Þegar fólk eld­ist breyt­ist þetta. Heim­boð eru veg­legri og ýmsar aðrar skyldur falla til en að útvega húsa­skjól fær­ast yfir á gest­gjafann, t.d. mat­reiðsla og að bjóða upp á borð­vín með matn­um. Gest­gjafar í slíkum boðum eiga því almennt að geta gengið að því sem vísu að það áfengi sem verður afgangs sé þeirra, enda hafa þeir lagt tölu­vert í boð­ið.

Að þessu sögðu verður að gæta að því að gestir í boðum geti, áður en kvatt er, sótt það áfengi sem komið var með í boð­ið, t.d. ef gest­ur­inn er með fleiri sam­kvæmi á dag­skránni um kvöld­ið. Best er að gera slíkt svo lítið beri á og áður en kveðju­at­höfn hefst, enda óþægi­legt fyrir alla ef hjart­næmar þakk­ar­ræður eru t.d. brotnar upp með ósk um að sóttir verði tveir bjórar í ísskáp­inn.

Hér er því sett fram eft­ir­far­andi regla:

> Áfengi sem verður afgangs í heim­boði er eign gest­gjafa frá og með kveðju­stund í heim­boði.

> Sé gest­ur­inn ungur að árum getur gest­gjafi ekki slegið eign sinni á afgangs­á­fengið fyrr en að lið­inni einni helgi frá og með heim­boð­inu.

Má fara fram fyrir röð­ina þegar nýr afgreiðslu­kassi opnar í versl­un?Í flestum versl­unum lands­ins eru afgreiðslu­kassar skipu­lagðir þannig að bið­röð er við hvern og einn þeirra. Ef nýr kassi opnar mynd­ast því nokk­urs konar villta vest­urs ástand meðal við­skipta­vina sem rjúka úr gömlu röð­inni til að vera fyrstir í þá nýju.

Ef það eru til dæmis fimm manns í röð á kassa og þrír þeirra ákveða að freista gæf­unnar á nýja kass­an­um, getur sú staða komið upp að fimmti mað­ur­inn í gömlu röð­inni sé kom­inn fram­fyrir hina tvo.

Allir sjá hvers konar hróp­andi órétt­læti slíkt hefði í för með sér. For­gangur úr fyrri röðum verður að halda sér, enda eru allir betur settir þótt röðin haldi sér og rétt­læt­is­kenn­ing John Rawls þannig upp­fyllt. Sá sem var fimmti í gömlu röð­inni er nú skyndi­lega þriðji í þeirri nýju og þannig koll af kolli.

Málið vand­ast þó ef tvær mis­mun­andi raðir koma saman í nýju röð­ina. Hvor röðin hefur for­gang í nýju röð­ina? Ef gæta ætti ítr­ustu sann­girni þyrfti senni­lega að leyfa þeim sem lengst hefur beðið í annarri hvorri röð­inni að vera fyrstur og svo kæmi sá sem lengst hefði beðið í hinni röð­inni og svo fram­veg­is. Slíkt yrði þó aug­ljós­lega of flókið og því verður að fara bland­aða leið. Ef farið er úr tveimur röðum þá verður sú röð sem fyrst kemur á nýja kassan að fá að vera á und­an. En hins vegar bera að virða inn­byrðis skipan úr gömlu röð­inni.

Hér er því sett fram eft­ir­far­andi regla:

>Þegar nýr kassi opn­ast í versl­un, skulu þeir sem fara yfir úr gömlum röðum vera jafn­settir inn­byrðis á nýja kass­an­um.

Má henda rusli á gólfið í bíó?Sjarm­inn við að fara í bíó liggur ekki síst í smá­at­rið­un­um. Bíó­ferð er full­komin afsökun til að raða í sig gosi, poppi, nammi og fylla svo á í hléi með meira gosi og poppi, allt á innan við tveimur tímum og þurfa ekk­ert að spá í því hvað verður um ruslið. Því er bara hent á gólfið og þykir sjálf­sagt. Gamla tuggan sem er oft sögð við börn, „mynd­irðu ganga svona um heima hjá þér?“ á t.d. ekki við um bíó. Eng­inn annar sam­komu­staður fólks býður upp á þennan val­kost. Í leik­húsi kastar eng­inn rusli á gólf­ið, hvað þá á veit­inga­stöðum eða kaffi­hús­um. Bíó­ferðir eru okkar guilty plea­sure þegar kemur að rusli og til­tekt.

Á því hefur hins vegar borið upp á síðkastið að fólk sé farið að fá sam­visku­bit yfir þessu og sé jafn­vel farið að stunda vit­leysu eins og að telja sig þurfa að að henda rusl­inu sjálft.

Rétt er að fyr­ir­byggja þennan mis­skiln­ing alveg með eft­ir­far­andi reglu:

> Réttur bíó­gesta til að henda rusli á gólf byggir á gam­alli venju og er skýr.

Borga pör tvö­falt eða jafnt á við ein­hleypa í sam­eig­in­legum gjöf­um?Al­gengt er í veisl­um, gift­ing­um, afmælum og útskriftum að hópur taki sig til og leggi saman í púkk fyrir gjöf. Kostn­að­inum er þá deilt jafnt á þá sem koma að gjöf­inni en hvernig á að telja pör í hópn­um? Er parið talið sem einn eða tveir hausar í púkk­inu?

Pör geta lent í að ofgreiða í gjöfum ef telja á þau tvö­falt en á móti kemur þá geta þau líka sloppið ódýrt ef þau eru talin sem einn haus, enda fær parið nafnið sitt á kort­ið, tekur þátt í veisl­unni en borgar bara helm­ing á við aðra.

Hér getur auð­vitað skipt máli hversu vel parið þekkir við­kom­andi. Þekkja báðir makar þann sem býður eða bara annar mak­inn? Önnur leið er að spyrja sig að því hvað myndi ger­ast ef parið væri ekki sam­an, yrði þeim báðum boðið í veisl­una? Að vísu verður að fara var­lega í slíkt, enda kannski ekki mjög róm­an­tískt að byrja kvöldið á slíkum vanga­velt­um: „Ef ég myndi hætta með þér þá myndi Maggi aldrei bjóða þér, ástin mín“.

Þetta má einnig nálg­ast út frá veislu­föngum – tekur mak­inn mikið til sín í mat og drykk eða er hann neyslu­grannur og bara í vatn­inu? Ef svo er, má færa rök fyrir því að óþarfi sé að rukka hann fyrir gjöf­ina en ef hann er á beit horfir málið öðru­vísi við.

Ef allt er í hnút má hér henda fram ákveðnum Salómons­dóm, í þá veru að pör greiði 1.5 á við ein­hleypa.

Hér er því sett fram eft­ir­far­andi regla:

> Þegar hópur (þrír eða fleiri) stendur sam­eig­in­lega að gjöf, skal telja pör sem einn aðila í gjöf­inni. Parið skal þá gæta að því að neysla matar og drykkjar í veisl­unni sé í sam­ræmi við þetta hlut­fall.

> Þetta á þó ekki við ef báðir makar þekkja þann sem fær gjöf­ina, svo vel að þeim hefði báðum verið boð­ið. Þá skal parið greiða tvö­falt í gjöf­inni.

Hug­myndin sú að regl­urnar verði kall­aðar „hvers­dags­regl­urn­ar“ og fólk geti þá vísað til þeirra þannig, sbr. „þetta er bara alveg skýrt í hvers­dags­regl­un­um“.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Jódís Skúladóttir þingmaður VG.
Segir náin tengsl á milli hatursglæpa, vændis, kvenhaturs og útlendingahaturs
Þingmaður Vinstri grænna segir að hinsegin fólk sem fellur undir hatt fleiri minnihlutahópa sé útsettara fyrir ofbeldi en annað hinsegin fólk og því sé aldrei hægt að gefa afslátt í málaflokkum sem viðkoma þessum hópum.
Kjarninn 21. maí 2022
Hanna Katrín Friðriksson þingmaður Viðreisnar.
„Hvernig stendur á þessari vitleysu?“
Þingflokksformaður Viðreisnar telur að líta þurfi á heilbrigðiskerfið í heild sinni og spyr hvort það sé „í alvöru til of mikils ætlast að stjórnvöld ráði við það verkefni án þess að það bitni á heilsu og líðan fólks“.
Kjarninn 21. maí 2022
Framsóknarflokkurinn í Mosfellsbæ er í lykilstöðu um myndun meirihluta bæjarstjórnar.
Viðræðum Framsóknarflokksins og Vina Mosfellsbæjar slitið
Framsóknarflokkurinn í Mosfellsbæ tilkynnti Vinum Mosfellsbæjar skömmu fyrir áætlaðan fund þeirra í morgun að ákveðið hefði verið að slíta viðræðum. Líklegast er að Framsókn horfi til þess að mynda meirihluta með Samfylkingunni og Viðreisn.
Kjarninn 21. maí 2022
Gísli Pálsson
„Svartur undir stýri“: Tungutak á tímum kynþáttafordóma
Kjarninn 21. maí 2022
Horft frá toppi Úlfarsfells yfir Blikastaði
Blikastaðir eru „fallegasta byggingarland við innanverðan Faxaflóa“
„Notaleg“ laxveiði, æðardúnn í eina sæng á ári og næstu nágrannar huldufólk í hóli og kerling í bæjarfjallinu. Blikastaðir, ein fyrsta jörðin sem Viðeyjarklaustur eignaðist á 13. öld, á sér merka sögu.
Kjarninn 21. maí 2022
Selur í sínu náttúrulega umhverfi.
Ætla að gelda selina í garðinum með lyfjum
Borgaryfirvöld fundu enga lausn á óviðunandi aðstöðu selanna í Húsdýragarðinum aðra en að stækka laugina. Þeir yngstu gætu átt 3-4 áratugi eftir ólifaða. 20-30 kópum sem fæðst hafa í garðinum hefur verið lógað frá opnun hans.
Kjarninn 21. maí 2022
Í ávarpi sínu fór Katrín yfir þann lærdóm sem hægt er að draga af kórónuveirufaraldrinum, meðal annars að samheldni samfélagsins hafi reynst okkar mestu verðmæti.
Ekki einungis hægt að vísa ábyrgð á launafólk
Katrín Jakobsdóttir segir atvinnulíf og stjórnvöld bera mikla ábyrgð á bráttunni við verðbólguna og að ekki sé hægt að vísa ábyrgðinni eingöngu á launafólk í komandi kjarasamningum.
Kjarninn 20. maí 2022
Ingrid Kuhlman og Bjarni Jónsson
Læknar og hjúkrunarfræðingar styðja dánaraðstoð
Kjarninn 20. maí 2022
Meira úr sama flokkiPistlar