Pólitíkin í dag snýst um margt – og margt – en umfram allt snýst hún um spurninguna: Greiðirðu atkvæði með mögulegri framtíð eða endalokum heimsins eins og við þekkjum hann? Það gildir bæði um heimspólitíkina og pólitíkina á Íslandi.
Þessi staðreynd leitaði á mig í síðustu viku þegar ég rakst á hugleiðingu lífsreynds landa á besta aldri. Páll Bergþórsson veðurfræðingur hafði skrifaði eftirfarandi á Facebook í tilefni af 1. maí: „Eiginlega ætti þessi dagur ekki bara að vera helgaður verkamönnum, heldur öllum sem ekki tilheyra auðvaldsstéttinni miklu og fámennu eða áhangendum hennar. Við þurfum að finna hvert annað. Við þurfum nýja hagfræði.“
Mér fannst hann orða þetta svo vel og að sama skapi er þetta svo rétt hugsað, að við þurfum að finna hvert annað. Við að lesa þessa einu setningu leið mér eins og þegar ég var unglingur að loka bók sem hafði snert í mér hjartað á þann hátt að ég fann að hún var á einhvern hátt sannari en aðrar bækur.
Það sem allir vita
Við lifum í heimi þar sem stórfyrirtæki með hættulega mikil ítök í stjórnmálum jafnt sem fjölmiðlum misnota bæði umhverfi og samfélög, á þann hátt að ógnvænlegar náttúruhamfarir verða sífellt algengari og þeir ríkari verða ríkari á kostnað almennings. Vextir og vaxtavextir fita innistæður þeirra ríku á slíkum ógnarhraða að þessi þróun verður sífellt hraðari og ágengari; auðkýfingar keppast við að kaupa jarðir og stofna stórfyrirtæki sem valta yfir náttúruna og mannlífið.
Við vitum þetta öll, sama í hvað flokki – eða ekki flokki – við stöndum. Ég kann varla við að tyggja þennan margtuggða sannleika ofan í lesendur Kjarnans en því miður er málum þannig háttað á Íslandi að þjóðkjörnir ráðamenn fá dollaramerki í augun þegar talið berst að olíuleit á Drekasvæðinu og óafturkræf virkjun á Kárahnjúkum, sem hefur eyðilagt meira en orð fá lýst, verður um ókomna tíð minnisvarði ríkisstjórnarflokkanna, svo fátt eitt sé nefnt.
Að því ógleymdu að ráðamenn dansa nú ástleitnir við þá sem gambla með íslenskar auðlindir á sama tíma og þeir reyna allt hvað þeir geta til að stöðva aðildarviðræður þjóðarinnar við ESB, meðvitaðir um lög og reglugerðir þar á bæ sem geta komið í veg fyrir frekari níðingsskap gegn náttúru Íslands.
Gott fólk er að finna í flestum flokkum
Nú er það ekki svo að ég trúi því að þjóðin skiptist í svart og hvítt: stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar og svo allt góða fólkið. Þvert á móti held ég að það sé ágætis fólk að finna í öllum flokkum, þó að ég sé eindregið á móti flestu því sem núverandi ríkisstjórn hefur stutt.
Í gegnum tíðina hef ég kosið að minnsta kosti fjóra stjórnmálaflokka, stutt einhverja opinberlega en stundum endað með að kjósa aðra, skráð mig í flokka til að kjósa (svindla) í prófkjörum, gegnt starfi barnapíu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins þar sem ég faldi silfurpela fyrir fundarmenn í tómu leikherberginu, deitað framsóknarmann, setið sem fulltrúi ungra kvenna í nefnd flokks, sem ég man ekki lengur hvort var Alþýðubandalagið eða Samfylkingin, dvalið með trúnaðargögn þess sama flokks heima hjá Einari Oddi Kristjánssyni heitnum og beðið hann um að hjálpa mér að skilja þau svo að nefndarmennirnir uppgötvuðu ekki fáfræði mína.
Já, ég hef átt góða vini í öllum flokkum, dáðst að þingmanninum Pétri Blöndal þegar hann sólóar hvað heitastur í sannfæringu sinni, skrifað í málgang Allaballa í Mosó jafnt sem Morgunblaðið eftir hrun og tja ... bara allt þar á milli. Gott ef ég skráði mig ekki í Frið 2000 til að fá gefins tólf klassíska geisladiska, að undirlagi tónelskrar eiginkonu núverandi menntamálaráðherra sem hvatti mig eindregið til þess.
Fyrst ég er að rifja þetta upp rámar mig líka í að hafa á yngri árum tvívegis skráð mig í stjórnmálaflokk til að fá tilboð á flugmiða og gistingu í útlöndum. Einhver álítur mig kannski pólitískt gleðikvendi, já eða efni í diplómata, allt eftir því hvernig á það er litið.
Rómantískur draumur
Hafandi komið svona víða við veit ég að fólkinu í öllum þessum flokkum þykir vænt um börnin sín. Í öllum flokkum eru góðar mömmur og góðir pabbar, góðar ömmur og góðir afar. Þess vegna er svo erfitt að skilja af hverju allir þessir góðu foreldrar styðja ekki af öllu hjarta þau úrræði sem geta stuðlað að því að börnin þeirra öðlist góða framtíð.
Nú hljómar gleðikvendið dramatískt frekar en diplómatískt – en málið er bara að þeir sem horfast ekki í augu við þá vá sem ógnar umhverfinu, og þar með mannlífinu, þeir lifa í rómantískum draumi.
Þess vegna hefur veðurfræðingurinn rétt fyrir sér þegar spáin hans hljóðar á þessa leið: „Við þurfum nýja hagfræði.“
Þess vegna segir hann allt sem segja þarf með orðunum: „Við þurfum að finna hvert annað.“
Því við þurfum að standa saman til að takast á við verkefni sem er okkur ofviða hverju í sínu lagi. Til þess þurfum við að skilja hvert annað. Eygja foreldrið hvert í öðru. Hjálpast að við að bjarga börnunum okkar – og börnum heimsins.
Það getum við Íslendingar gert með því að horfast í augu við ástandið, ræða það opinskátt í samfélagsmiðlunum og hugsa stórt frekar en smátt; velta upp öllu því sem við getum mögulega gert sem fámenn þjóð til að takast á við heimsvandann og móta umhverfisvæna stefnu, bæði í sem mestri þjóðarsátt og vísindasamstarfi við aðrar þjóðir.
Sem móðir hef ég ekki lengur þol fyrir stjórnmálamönnum sem hunsa margsannað hættuástand, þeir minna mig á drukkinn skólabílstjóra.
Grænn 1. maí
Á dögunum blöktu grænir fánar í 1. maí göngunni. Einhverju sinni hefði það þótt mótsagnakennt og sumum finnst jafnvel ennþá að umhverfisvernd hljóti að stríða á móti hagsmunum alþýðunnar, til að mynda fólks sem aflar sér lífsviðurværis á vinnustöðum sem seint myndu teljast umhverfisvænir eða þess sem finnur mögulega á óþægilegan hátt fyrir grænni stefnu á launaseðlinum. Málið er bara að alþýðan og náttúran eru að bugast undan sama tröllinu: valdi auðsins sem virðir ekki líf í nokkurri mynd. Þar af leiðandi hlýtur alþýðan að sjá hag sinn í umhverfisvernd. En nú er svo komið að án róttækrar vitundarvakningar í umhverfismálum verður ekkert að berjast fyrir um það leyti sem börnin okkar ættu, undir venjulegum kringumstæðum, að eiga notalegt ævikvöld með einhvern ellilífeyri á milli handanna. Þegar þar að kemur munu gamlar ljósmyndir feykjast um sandblásna auðn; myndir af okkur, mér og þér, okkur sem lifðum fyrir gróða. Okkur sem hugsuðum ekki: Hversu mikið get ég gefið börnunum mínum? – heldur: Hversu miklu get ég stolið frá börnunum mínum?
Pistillinn birtist fyrst í nýjasta Kjarnanum. Lestu hann hér.