Við vorum nokkrir íslenskir rithöfundar á PEN-samkundu í fyrra sem hlustuðum á kollega okkar frá Ungverjalandi tala um hvernig alræðisöfl hefðu náð tökum á lýðræðinu þar í landi svo það stæði varla undir nafni lengur.
Ég man að maðurinn sagði meðal annars að lýðræðið hefði verið veikt á lúmskan hátt eins og til dæmis með lagabreytingum sem gerðu aðrar, ívið verri, lagabreytingar mögulegar og þannig koll af kolli.
En hann sagði líka að ein aðferð ráðamanna væri að láta gagnrýni sem vind um eyru þjóta, í stað þess að svara henni málefnalega, hvað þá taka hana til íhugunar. Þeir láta sem gagnrýnisraddirnar séu léttvægar, í besta falli hlægilegt hjal í leiðindapúkum. Ef ég skildi hann rétt þá geta blaðamenn, gagnrýnir þjóðfélagsrýnar, upplýstir menntamenn, rithöfundar og listamenn viðrað skoðanir sínar í mótmælaskyni við aðfarir stjórnvalda en það skiptir engu máli því enginn hlustar á þá. Málflutningur þeirra er afgreiddur sem leiðinda svartagallsraus sem enginn tekur mark á.
Stjórnmálamennirnir þar eru kannski á svipuðum skóm og bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum sem virðist kunna að meta húmor um meint leiðinda rex í ímynduðum hópi sem hann kallar góða fólkið.
Vinir á Facebook
Mér varð hugsað til þessarar samkundu um daginn þegar ég rakst á Facebook-færslu hjá Sigríði Hallgrímsdóttur, aðstoðarmanni núverandi menntamálaráðherra. Hún skildi ekkert í því að pistlahöfundar á Kjarnanum væru að bölsóttast yfir slæmu ástandi á Íslandi því hún vissi ekki betur en að það væri yndislegt að búa á Íslandi. Nú man ég ekki nákvæmlega hvernig hún orðaði færsluna en innihaldið var eitthvað á þessa leið, gott ef hún vorkenndi okkur ekki fyrir að sjá heiminn í svona svörtu ljósi.
Fyrst í stað ætlaði ég bara að leiða færsluna hjá mér. Eins hallærislegt og það hljómar þá langaði mig ekki að þræta opinberlega við Sigríði því ég þekki hana lítillega og kann vel við hana. En í kunningsskapnum liggur einmitt hundurinn grafinn. Á Íslandi mengar vinavæðingin bæði samfélagsumræðuna og stjórnmálin. Innst inni trúum við ekki að samtíðarfólk sem við hittum í jólaboðum, brúðkaupum og Krónunni trúi á gildi sem er búið að margsanna að hafi eyðileggjandi áhrif á samfélög.
Yndislega Ísland
Við trúum því ekki að glaðlegir kunningjar styðji aðgerðir sem geta rænt börnin okkar möguleikanum á að erfa gott samfélag.
Til dæmis með því að styðja óafturkræf náttúruspjöll, varpa skuldum okkar yfir á næstu kynslóðir, styrkja eignarhald á auðlindum að því er virðist í anda rússneskra pólitíkusa, loka á nauðsynlegar gáttir í alþjóðasamstarfi, misnota fjölmiðla í hagsmunaskyni, skera niður sjóði sem standa undir bókaútgáfu og skattleggja hana enn frekar, leggja niður ráðuneyti eftir hentisemi eða breyta þeim í skuggaráðuneyti, lækka námslán þeirra sem læra erlendis, flytja inn vélbyssur á laun, hækka matarskatt á staurblankan almenning og horfa upp á heilbrigðisþjónustuna grotna niður en afneita því að flokkarnir sem þeir trúa á eins og guð sinn hafi átt stóran þátt í Hruninu sem gerði það að verkum að innviðir íslensks samfélags standa varla undir því – fram að því var nú aldeilis talað um bullukolla og leiðindapúka þegar einhver fetti fingur út í eitthvað.
Innst inni trúum við ekki að samtíðarfólk sem við hittum í jólaboðum, brúðkaupum og Krónunni trúi á gildi sem er búið að margsanna að hafi eyðileggjandi áhrif á samfélög.
Svo ekki sé minnst á fílinn í stofunni: ráðherrann sem virðist hafa logið að þinginu og reyndi að hafa áhrif á rannsókn lögreglu á eigin störfum, auk þess að skipta sér af fréttaflutningi af málinu (meðan ráðherra í Þýskalandi þurfti að segja af sér fyrir að hafa hringt einu sinni í dagblað til að mótmæla fréttaflutningi). Í rauninni er í hæsta máta furðulegt að enginn í stjórnarliðinu sjái neitt athugavert við verkferlið í þeirri fáránlegu framvindu.
Hvað með Ríkisútvarpið?
Og hvað er með Ríkisútvarpið? Margtóna rödd allra landsmanna sem þarf að fá að njóta sín af óteljandi ástæðum. Á bara að fjársvelta það, búta niður í ekkert, gagnrýna í hvert skipti sem eitthvað heyrist í einhverjum þættinum sem einhverjum stjórnmálamanni þóknast ekki (þá bæði opinberlega og bak við tjöldin), nota hluta útvarpsgjaldsins í allt annað en útvarpsrektsturinn og krefjast þess samt að RUV komi út á sléttu? Og ef ekki, þá bara hóta því!
Ég hélt að það væri ekki hugmynd menntamálaráðherra sem hefur oft gefið sig út fyrir að vilja RUV vel en hann er þá eiginlega tilneyddur til að hafa betri stjórn á liðinu í kringum sig, bæði í flokki sínum og hinum ríkisstjórnarflokkinum, hreinlega til að fólk trúi honum. Nema það sé of mikið af leiðindapúkum með svarta heimsmynd sem fái að tjá sig í útvarpi allra landsmanna á þessu yndislega landi og það sé slíkur þyrnir í augum valdamikilla aðila í þessum flokkum að það sé engin leið að hafa stjórn á þeim. Ég ætla bara rétt að vona að það sé ekki rétt sem ég hef heyrt að aðstoðarmenn ónefndra ráðamanna hafi hringt upp í ríkisútvarp til að gera athugasemdir við efnistök því þá erum við öll komin út á nokkuð hálan ís.
Já, og meðan ég man. Hvað með Icesave-skuldina, hvar er það mál allt saman statt? Veit það einhver? Það skiptir kannski ekki máli. Kannski snýst þetta bara um að þröngva eins mikilli hagsmunagæslu í gegnum kerfið og framast er unnt á einu kjörtímabili.
Svona er yndislega Ísland. Auðvitað er það yndislegt fyrir suma. Annað væri skrýtið.
Öllum er sama
Ef fólk bendir á að íslenskt samfélag sé ekki bara yndislegt heldur líka að ýmsu leyti gallað fær það í besta falli að heyra að því sé vorkunn. Ef það er á annað borð hlustað á það.
Íslensk vinkona mín, sem hefur búið megnið af ævinni erlendis en fylgist með öllu á Íslandi, sagði við mig um daginn: Það skiptir engu máli hvað þú eða aðrir heima skrifa. Þið fáið einhver læk frá þeim sem eru hvort sem er sammála ykkur og það er alltaf sami hópurinn. Hinum er hundaskítssama og þeir halda bara áfram að gera það sem þeim hentar. Það hlustar enginn.
Innst inni veit ég að hún hefur rétt fyrir sér. Ég man að á meðan rithöfundurinn frá Ungverjalandi talaði fóru flisskippir um áheyrendur, honum til töluverðrar undrunar. Hann bjóst ekki við að við færum að hlæja að honum. En við hlógum ekki að honum. Við hlógum að okkur sjálfum því margt sem hann sagði var óþægilega kunnuglegt.
Ísland er gott land, svo gjöfult land að við þessir fáu íbúar verðum að gæta þess að samfélagið fái að blómstra. Það er einungis hægt með því að virða upplýsingaskyldu, opna umræðu og gagnrýna fjölmiðlun á sama hátt og gert er í þróuðum lýðræðislöndum á borð við Norðurlöndin og Þýskaland sem við miðum okkur stundum við. Öflugt ríkisútvarp getur hjálpað heilmikið til í þeim efnum, eðli málsins samkvæmt. Það er vettvangur þjóðarinnar til að ræða málin, skilja ólík sjónarmið og setja hlutina í víðara samhengi. En ef einn valdamesti hópur samfélagsins hlustar aldrei á aðra hópa þess heldur reynir að þagga niður í þeim getur hæglega orðið önnur búsáhaldarbylting. Og í það sinn stígur kannski einhver mótmælandinn svo nálægt Alþingishúsinu að vélbyssuginið gapir framan í hann.