Á morgun, föstudag, kemur út bókin Hamskiptin: þegar allt varð falt á Íslandi eftir Inga Frey Vilhjálmsson, ritstjórnarfulltrúa á DV. Í bókinni rekur Ingi Freyr meðal annars áhrif viðskiptalífsins á hina ýmsu geira fyrir hrun og veltir fyrir sér hver ber ábyrgð á því að fór sem fór.
Hér að neðan er kaflabrot út upphafskafla bókarinnar. Það birtist nú í fyrsta sinn:
„Mér og minni fjölskyldu var fórnað á altari græðgisvæðingarinnar þar sem ekkert var heilagt, ekkert.“ Tilvitnunin er í íslenskan karlmann á fimmtugsaldri sem vill ekki koma fram undir nafni. Maðurinn lenti í því árið 2003, meðan hann starfaði í erlendri stórborg sem iðnaðarmaður hjá íslensku útrásarfyrirtæki, að landsþekktur auðmaður hélt við eiginkonu hans á Íslandi. Auðmaðurinn var stór hluthafi í fyrirtækinu sem iðnaðarmaðurinn starfaði hjá í erlendu borginni. Iðnaðarmaðurinn segist vera viss um að hann hafi verið ráðinn til íslenska fyrirtækisins og sendur til erlendu borgarinnar gagngert til að auðvelda framhjáhaldið á Íslandi.
Hann starfaði hjá fyrirtækinu um sjö mánaða skeið, frá því í apríl 2003 þar til í desember, en þá hafði hann áttað sig á sambandi konunnar við hluthafa fyrirtækisins. Í kjölfarið slitnaði upp úr hjónabandi mannsins og konunnar sem saman áttu eitt barn. Hann segist telja það hafa verið „samantekin ráð“, hjá auðmanninum og íslenska fyrirtækinu sem hann starfaði hjá, að halda honum sem mest frá Íslandi og kom hann aðeins einu sinni til landsins á þessum sjö mánuðum. Vinnuveitandi hans sagði honum að mikilvægt væri að hann dveldi í borginni á meðan verkið sem hann vann að væri óklárað. „Þetta voru samantekin ráð, ekki bara hjá þeim, heldur líka hjá henni. […] Þriggja mánaða verkefni teygðist yfir í meira en sjö mánuði. Við bara biðum á launum á meðan því verkið var stopp. Af hverju hékk ég þarna úti í sjö mánuði? Þetta situr svolítið mér: Þú mátt ekki koma heim, við viljum bara hafa þig þarna úti og við borgum þér bara fyrir það. Ég skildi ekki af hverju ég mátti ekki koma heim.“
Maðurinn var með góð laun — miklu hærri en hann hafði nokkru sinni verið með áður — fyrir vinnu sem ekki krafðist langskólanáms. Á þessum tíma var maðurinn ánægður með sinn hlut. Hann fékk að reyna íslenska góðærið í erlendri heimsborg, vera þátttakandi í útrásinni með óbeinum hætti og hafði fullar hendur fjár. „Ég lifði eins og kóngur. Ég vonaði bara að þetta myndi engan endi taka. Eftir sjö mánaða vinnu kom ég aftur heim til Íslands með tíu eða tólf milljónir í vasanum, þegar ég var búinn að borga allan kostnað og svona. Mér var borgað mjög ríflega.“
Til stóð að maðurinn fengi annað verkefni hjá íslenska fyrirtækinu í erlendu borginni þegar þessari vinnu hans væri lokið. Í einu heimsókninni til Íslands á þessu sjö mánaða tímabili áttaði hann sig hins vegar á sambandi eiginkonu sinnar við auðmanninn og gekk á hana með það. Þetta var í nóvember 2003:
Ég var þarna í sex mánuði, allt þar til ég fer heim til Íslands og sé sms frá honum þar sem hann tjáir konunni minni ást sína eftir að hún var búin að vera á fylliríi með vinnufélögunum að hennar sögn. Hún hafði sofnað heima hjá okkur en svo pípir síminn hennar klukkan 3 eða 4 að nóttu til og ég sé þessi skilaboð frá honum. Þá átti ekkert að hafa verið að gerast en hún þurfti samt að hugsa sig um þegar ég vakti hana og gekk á hana með þetta. Svo kom bara skilnaður eftir að ég hafði farið aftur út að vinna í mánuð. Það stóð til að ég fengi annað verkefni frá fyrirtækinu þarna skömmu eftir þetta en þá var ég ekki lengur inni í myndinni. Svo var bara allt í einu köttað á allt, og þeir hættu meira að segja að heilsa mér. Af hverju ættu þeir ekki að halda áfram að tala við mig eftir að þetta gerðist? Ef þú hættir að heilsa einhverjum þá hefur þú eitthvað að fela, það er einhver skömm sem fylgir því. Þeir vissu upp á sig skömmina og þeir vissu að þeir hefðu verið óheiðarlegir. Þetta var alveg ofboðslega rotið. Hver myndi vilja gera einhverjum eitthvað svona?
Brot úr bókinni birtist líka í Kjarnanum. Lestu hann í heild sinni hér.