Þegar hugmyndin að þessari grein kviknaði átti útgangspunkturinn að vera að Google-fyrirtækið ætlaði sér að breyta heiminum. Auðvitað leið ekki á löngu þar til ég áttaði mig á því að Google hefur nú þegar umbylt veröld okkar flestra. Sögnin að gúgla er komin með óopinberan þegnrétt í íslensku máli og vísar til þess að við getum hvar og hvenær sem er sótt okkur þekkingu og upplýsingar um næstum því hvað sem er. Það er ekkert smáræði þegar maður hugsar um að Google hefur aðeins verið til í tæp 16 ár.
Hvar byrjaði þetta allt saman?
Eins og flestir vita er kjarninn í Google-veldinu leitarvél fyrirtækisins, sem var upphaflega sett upp sem rannsóknarverkefni af tveimur doktorsnemum í Stanford-háskólanum, þeim Larry Page og Sergei Brin. Þeir stofnuðu Google í september 1998 og var markmiðið að skipuleggja allar upplýsingar heimsins og gera þær aðgengilegri og gagnlegri. Slagorð þeirra var „Don´t be evil“ en tölvurisinn Google, sem safnar miklum upplýsingum um notendur sína, er að sjálfsögðu ekki óumdeildur. Upphaflega snerist allt um leitarvélina en í gegnum tíðina hefur hlaðist utan á vöruframboð fyrirtækisins með gríðarlega hröðum og miklum vexti þess. Nú er markaðsvirði Google litlir 400 milljarðar dollara og telst það vera næstverðmætasta fyrirtæki Bandaríkjanna en keppinauturinn Apple vermir efsta sætið. Þrátt fyrir mikið vöruframboð kemur megnið af tekjum fyrirtækisins enn frá auglýsingum á netinu sem eru birtar í gegnum auglýsingakerfið AdWords. Google vill því fjölga tekjustraumum sínum.
Hvað gerir þetta Google eiginlega?
Meðal annarra mikilvægra lausna Google eru skrifstofuhugbúnaður fyrir fyrirtæki og einstaklinga (Google Drive og Google Apps), Youtube-vídeóvefurinn, bloggþjónustan Blogger, gagna- og vefhýsing, Chrome-vafrinn, Chrome-stýrikerfið fyrir fartölvur, samfélagsnetið Google+, kortaþjónustan Google Maps og Nexus-snjalltæki. Android-stýrikerfi Google hefur gegnt lykilhlutverki í að gera snjallsíma að almenningseign um heim allan. Talið er að snjallsímanotendur verði 1,75 milljarðar á þessu ári og að langflestir þessara síma keyri á ýmsum útgáfum af Android-stýrikerfinu. Tólf gagnaver Google um heim allan eru bakbeinið í þjónustu fyrirtækisins.
Google er sem sagt leiðandi í leitartækni og auglýsingum á netinu og stendur í harðri samkeppni við Apple á snjalltækjamarkaðinum. Google berst einnig við Microsoft á sviði skrifstofuhugbúnaðar á netinu og við Amazon í að veita skýjaþjónustu hvers konar. Eins og rakið verður hér að neðan virðist Google vilja búa til valkosti við snjallsíma eins og við þekkjum þá í dag, vera leiðandi í samgöngutækni og róbótum og koma sterkt inn í heilbrigðisþjónustu.
Kafteinn Tunglskot vísar veginn
Miðpunkturinn í þessu starfi er leynileg rannsóknarmiðstöð sem kallast Google X. Henni stýra þeir Sergei Brin og vísindamaðurinn, rithöfundurinn og frumkvöðullinn Astro Teller. Sá síðarnefndi er með hinn látlausa starfstitil „Captain of Moonshots“, en hugtakið Moonshots vísar einmitt til áhættusamra og framúrstefnulegra lausna á vandamálum sem Google vill takast á við. Um 250 manns með fjölbreyttan bakgrunn starfa hjá rannsóknarstöðinni.
Þetta er brot úr ítarlegri umfjöllun Kjarnans um Google. Lestu hana í heild sinni hér.
Auglýsing