Kjarninn vill að sem flestar raddir samfélagsins heyrist varðandi helstu mál líðandi stundar á Íslandi. Í þeirri viðleitni hefur Kjarninn sett saman fjölbreyttan hóp einstaklinga sem hann mun leita álits til varðandi málin sem brenna á samfélaginu hverju sinni. Hópurinn telur á fjórða tug einstaklinga úr öllum kimum þjóðfélagsins og hefur hlotið nafnið Kjarnaþingið. Þing er sett.
Hvað finnst þér um frumvarp fjármálaráðherra, sem heimilar fjármálafyrirtækjum að greiða allt að heil árslaun í kaupauka?
Lilja Dögg Jónsdóttir
hagfræðingur og háskólanemi
Í fljótu bragði virðist manni réttlátt að fyrirtæki stýri því sjálf hvernig þau kjósa að greiða starfsmönnum sínum laun. Fræðunum samkvæmt geta bónusar gagnast vel við að hvetja starfsmenn til að leggja harðar að sér og ná settum markmiðum fyrirtækisins. Það er hins vegar vandasamt verk að haga bónusgreiðslum svo að hvatarnir séu sanngjarnir, bæði fyrir starfsmenn, fyrirtækið og samfélagið. Hið almenna íslenska launaumhverfi þekkir ekki, og skilur því tæpast, hvatann sem bónusgreiðslurnar eru.
Hér í Bandaríkjunum fá til dæmis flestir greidda bónusa eða aðrar hvatagreiðslur, hvort sem það eru fjármálastarfsmenn eða ekki. Togstreitan er því skiljanlega allt önnur heima á Íslandi þar sem slíkar greiðslur eru sjaldséðar. Stóra spurningin í mínum huga er þó hvers vegna fjármálaráðherra velur þessa tímasetningu fyrir breytingar sem þessar; í miðri kjaradeilu, niðurskurði og verkfallahrinu. Það má ætla að íslenskur almenningur hafi í dag, skiljanlega, litla þolinmæði fyrir umræðu um bónusa og fjármálafyrirtæki.
Stefán Bogi Sveinsson
sveitarstjórnarmaður
Það er örstutt síðan áhættusækni fjármálafyrirtækja setti þjóðfélagið á hliðina. Kaupaukar sem þessir hljóta að vera hvati til starfsmanna að huga frekar að skammtímahagnaði en langtíma. Og þá kemur að spurningunni sem Mörður Árnason hafði nýverið eftir Sarkozy, fyrrverandi Frakklandsforseta. Fá þeir þá líka „malusa“? Þurfa þessir sömu starfsmenn að borga ef illa gengur í rekstrinum?
Við eigum að reka hér á landi öflugt fjármálakerfi en við eigum líka að marka þá stefnu, í ljósi biturrar reynslu, að þetta kerfi verði opnara og heilbrigðara en annars staðar í heiminum. Fyrsta skref í þá átt væri að stemma stigu við kaupaukamenningunni frekar en hitt.
Laun í fjármálageiranum eru góð og betri en víðast hvar annars staðar hér á landi. Það eitt og sér á að vera fullnægjandi hvati fyrir starfsmenn að skila góðu verki fyrir sín fyrirtæki. Sé sú ekki raunin er það dapur vitnisburður um almennt vinnusiðferði innan fjármálafyrirtækjanna.
Sveinn Arnarsson
ritstjóri
Það sem kemur helst upp í huga minn við frumvarp fjármálaráðherra er taktleysi. Frumvarpið gengur ekki í takt við samfélagið. Nú á að rýmka tekjumöguleika þeirra sem hvað best standa í íslensku þjóðfélagi.
Óvinsældir ríkisstjórnarflokkanna hafa aukist mikið síðustu mánuði. ESB-málið vefst fyrir þeim og skuldalækkunin fuðraði upp og er að engu orðin. Ríkisstjórnin er óvinsælli nú en vinstristjórnin var á sínum verstu tímum.
Frumvarp fjármálaráðherra er ekki til að auka vinsældir ríkisstjórnarinnar, þvert á móti. Því er „pólitísk taktleysi“ líklega rétta lýsingin á frumvarpinu.