Kjarninn vill að sem flestar raddir samfélagsins heyrist varðandi helstu mál líðandi stundar á Íslandi. Í þeirri viðleitni hefur Kjarninn sett saman fjölbreyttan hóp einstaklinga sem hann mun leita álits til varðandi málin sem brenna á samfélaginu hverju sinni. Hópurinn telur á fjórða tug einstaklinga úr öllum kimum þjóðfélagsins og hefur hlotið nafnið Kjarnaþingið. Þing er sett.
Hvað finnst þér um frumvarp fjármálaráðherra, sem heimilar fjármálafyrirtækjum að greiða allt að heil árslaun í kaupauka?
Karen Kjartansdóttir
upplýsingafulltrúi LÍÚ
Það er gleðiefni að fólk fái vel greitt fyrir vel unnin störf en eðlilega er fólk á varðbergi þegar kemur að þessu fyrirkomulagi. Eftir hrun hafa hér verið meiri hömlur en tíðkast víða annars staðar eftir hrun og ekki að ástæðulausu; hér njóta bankar ríkisábyrgðar að mörgu leyti, hér ríkja fjármagnshöft, viðskiptahindranir og fjármálastofnanir því ekki í eðlilegu umhverfi.
Sú röksemdafærsla hefur heyrst að kaupaukar dragi úr launaskriði. Gott og vel, en ég óska fólki frekar hærri launa fyrir störf sín en kaupauka, þykir það gegnsærra kerfi. Þá hefur verið sagt að kappkostað verði við að koma í veg fyrir að kaupaukar leiði til aukinnar áhættutöku. Mér finnst erfitt að skilja bónusa öðruvísi en að þeir séu verðlaun fyrir áhættu. Ég útiloka þó ekki að hægt að sé að gera þetta vel, enda bjartsýnismanneskja. Kannski ætti að taka þetta kerfi upp miklu víðar, mikið væri til dæmis gaman að verðlauna kennara fyrir framúrskarandi árangur.
Finnur Vilhjálmsson
lögfræðingur
Bankastarfsmenn eru með hæst launuðu stéttum á Íslandi. Þarf líka að hækka bónusana, spyr ég eins og barn (eða bolsi)? Nú eru gömlu góðærisrökin um „alþjóðlega eftirspurn“ eftir þeim víst
áreiðanlega ekki lengur gild. Er þá grimm samkeppni um starfsfólk milli íslensku bankanna? Ekki að heyra. Nema það sé einmitt málið: að sú samkeppni eigi að byrja með rýmkuðum bónusheimildum, sem yrðu fljótt botnaðar og jafnvægi næðist aftur, bara allt að 100% betri kjör. Bakdyrakjarabarátta?
Það virðist talið náttúrulögmál að borga háa bónusa í bönkum. Ég leyfi mér að vera ósammála. Ég sé enga ástæðu til að rýmka þessar heimildir núna. Þvert á móti: það ætti að fara mjög varlega í ljósi reynslunnar. Ég er loks sérstaklega efins um að breyta eigi núgildandi reglum þannig að starfsmenn áhættustýringar, endurskoðunardeildar og regluvörslu komi til greina sem bónusþiggjendur. Samkvæmt núgildandi reglum FME ber að greiða þeim nógu há laun í staðinn.