Í fyrstu útgáfu Kjarnans, 22. ágúst sl., fjallaði Ægir Þór Eysteinsson blaðamaður ítarlega um málefni Sparisjóðsins í Keflavík, SpKef, og skýrslu sem PWC vann fyrir Fjármálaeftirlitið. Skýrslunni hefur hingað til verið haldið leyndri, þrátt fyrir að SpKef sé gjaldþrota og Landsbankinn hafi yfirtekið eftirstöðvar sjóðsins. Efnisatriði skýrslunnar voru rakin í fréttaskýringu og skýrslan í heild sinni birt á vef Kjarnans. Útgáfan er aðgengileg hér á vefnum, www.kjarninn.is, í PDF-formi og í App-inu okkar í App Store fyrir iPhone og iPad.
Fjármálaeftirlitið (FME) gerði kröfu um að skýrslan yrði tekin úr birtingu vegna upplýsinga sem finna má í skýrslunni sem eftirlitið telur að eigi ekki erindi við almenning. Í beiðni FME hefur eftirlitið m.a. vitnað til laga um bankaleynd. Auk þess hefur FME gefið í skyn að birting skýrslunnar gæti varðað við almenn hegningarlög.
Þessu er ritstjórn Kjarnans ósammála og telur alvarlegt að eftirlitsstofnun, sem starfar í þágu almennings, skuli gefa það í skyn að fjölmiðill sé að gerast sekur um brot á hegningarlögum með því að birta skýrslu um starfsemi SpKef. Ekki síst í ljósi þess hversu skelfingar afleiðingar fall sparisjóðsins hafði fyrir ríkissjóð og íbúa á Suðurnesjum. Samtals þurfti að leggja fram 26 milljarða króna úr ríkissjóði vegna falls sjóðsins og stór hópur fólksins á Suðurnesjum missti ævisparnað sinn.
Að auki telur ritstjórn Kjarnans fráleitt að birting skýrslunnar sem slík feli í sér lögbrot. FME hefur áður reynt að hindra blaðamenn í því að fjalla um fallin fjármálafyrirtæki og starfsemi þeirra, en án árangurs og án þess að dómstólar hafi staðfest að lagatúlkun lögmanna eftirlitsins, þegar kemur að birtingu upplýsinga, sé rétt.
Kjarninn mun ekki fjarlægja skýrsluna um starfsemi sjóðsins af vefnum, en málinu verður fylgt eftir í næstu útgáfu Kjarnans, 29. ágúst nk.
Virðingarfyllst,
Ritstjórn Kjarnans.