Leiðrétting á forsendubrestinum svokallaða er 6-8,5 prósent samkvæmt dæmum sem birt voru á heimasíðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins í morgun, samkvæmt útreikningum sérfræðinga sem Kjarninn leitaði til. Þegar skuldaniðurfellingartillögur ríkisstjórnarinnar voru kynntar 30. nóvember var fullyrt að leiðréttingin yrði 13 prósent. Því er leiðréttingin einungis brot af því sem þá var talað um að hún yrði.
Þegar „Leiðréttingin“, aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimila, var kynnt í Hörpunni í lok nóvember 2013 fullyrtu Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, að í aðgerðunum fælist 13 prósent leiðrétting á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Hinn svokallaði forsendubrestur yrði því leiðréttur um 13 prósent og kostnaður við þá lækkun yrði um 80 milljarðar króna vegna beinna niðurfærslna á höfuðstól sem myndi greiðast úr ríkissjóði auk þess sem þjóðinni gæfist kostur á því að eyða 70 milljörðum króna af séreignasparnaði sínum í að borga niður húsnæðislán skattfrjálst. Allt í allt yrðu þetta 150 milljarðar króna sem færu í niðurgreiðslu húsnæðislána, annars vegar úr ríkissjóði og hins vegar af séreignarsparnaði landsmanna.
Fyrir skemmstu var útfærsla á aðgerð stjórnvalda kynnt og enn stóð til að heildarumfang hennar yrði 150 milljarðar króna. Til að sú tala næðist var búist við 92 prósent þátttöku. Í morgun voru síðan birtir útreikningar dæma vegna lækkunar höfuðstóls húsnæðislána á heimasíðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Um er að ræða fimm dæmi sem sýna áhrif lækkunar höfuðstóls vegna niðurfellinga sem greiddar verða úr ríkissjóði og áhrif þess að fólk noti séreignalífeyrissparnað sinn til að borga niður húsnæðislán. Dæmin eru eftirfarandi:
Kjarninn fékk sérfræðinga á fjármálamarkaði til að reikna út hversu mikil leiðrétting á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar væri samkvæmt þessum dæmum. Niðurstaða þeirra var að „leiðréttingin“ væri á bilinu 6-8,5 prósent, eða töluvert frá þeim 13 prósentum sem lofað var í nóvember.