Fjórir stærstu sparisjóðir landsins: SPRON, Byr og Sparisjóðirnir í Keflavík og Mýrasýslu, höguðu sér að mörgu leyti meira eins og fjárfestingarfélög en sparisjóðir. Þau voru undir hælnum á stærri bönkum eða ákveðnum viðskiptamannahópum og fjármögnuðu oft á tíðum gjörninga sem stóru bankarnir annaðhvort vildu ekki eða gátu ekki, sökum hámarksútlána til ákveðinna aðila, fjármagnað.
Kjarnastarfsemi þeirra var ónýt, vaxtamunur lítill eða enginn og sumum þeirra tókst meira að segja ekki að hagnast á því að lána út verðtryggð íbúðalán. Lán voru veitt án nægjanlegra trygginga og lánað var til stofnfjárkaupa með veði í bréfunum sjálfum, sem er andstætt lögum.
Í stað þess að þjónustutekjur og vaxtamunur inn- og útlána einkenndi rekstur sjóðanna fyrir bankahrun var uppistaðan í vexti og hagnaði þeirra nánast einvörðungu útlán sem orka í besta falli tvímælis og gríðarlega áhættusamar fjárfestingar í verðbréfum. Auk þess tóku þeir oft á tíðum þátt í fjárfestingarstarfsemi sem skilaði miklu tapi. SPRON átti til að mynda í félögum sem fjárfestu í fasteignum í Berlín og stóðu að útrás Remax og sölu á kvennmannsnærfatnaði í öðrum Evrópulöndum.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar um starfsemi sparisjóðanna sem birt var í síðustu viku.
Tugmilljarða kostnaður lendir á skattgreiðendum
Þær pólitísku hugmyndir sem voru uppi um endurreisn sparisjóðakerfisins með einhverja af þessum sjóðum sem nýtt hryggjarstykki, sérstaklega Sparisjóðinn í Keflavík eða Byr, voru því eftir á að hyggja andvana fæddar. Í þær hefði aldrei átt að ráðast.
Ástand þessara sjóða vegna slælegs reksturs, mikillar áhættusækni, undirlægjusemi við ákveðnar fjármála- og viðskiptablokkir og vanþekkingar eða -getu starfsmanna sem fóru með mikil fjárráð, og dregið er fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, sýna að raunhæfi slíkra hugmynda var ekkert. Niðurstaðan er að heildarkostnaður sem þegar hefur fallið á hið opinbera, skattgreiðendur, vegna erfiðleika og falls sparisjóðanna, er nú þegar rúmir 33 milljarðar króna. Uppistaðan í því tapi er kostnaður vegna Sparisjóðsins í Keflavík, rúmir 19 milljarðar króna án tillits til vaxta.
Auk þess ríkir enn óvissa um hvort og hvað muni falla til vegna uppgjörs við slitastjórn Sparisjóðabankans. Seðlabanki Íslands lýsti 215 milljarða króna kröfu í þrotabú bankans en lítill hluti krafnanna hefur verið samþykktur. Þessar kröfur eru vegna hinna svokölluðu endurhverfu viðskipta þar sem Sparisjóðabankinn var milliliður. Hann fékk lán hjá Seðlabanka Íslands og endurlánaði þau svo til viðskiptabanka og sparisjóða. Viðbúið er því að tugir milljarða króna til viðbótar tapist vegna þessarra lána.
Beintengdir við viðskipta- og bankablokkir
Þrír sjóðanna: SPRON, Sparisjóðurinn í Keflavík og Sparisjóður Mýrasýslu, beintengdu hagsmuni sína við Kaupþing í gegnum beint og óbeint eignarhald á hlutabréfum í Existu, stærsta eiganda bankans. Þegar Kaupþing og Exista féllu var ljóst að sjóðirnir þrír væru komnir í vanda sem þeir gætu ekki yfirstigið. Byr batt sig við hóp sem tengdist stærstu eigendum Glitnis, Baugi og fylgihnöttum, og lánaði honum risavaxnar fjárhæðir. Engar viðskiptalegar forsendur geta talist fyrir sumum þeirra lánveitinga og eru þær til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara.
Alls tilkynnti rannsóknarnefnd um sparisjóðina 21 mál til ríkissaksóknara. Hann á síðan að vísa þeim áfram til þar til bærra embætta. Þau eru sérstakur saksóknari og eftir atvikum Fjármálaeftirlitið. Auk þess rannsakar embætti sérstaks saksóknara nú þegar um tíu mál sem tengjast þeim. Hluti þeirra mála snýr að Sparisjóðnum í Keflavík og er meðal annars byggður á leyniskýrslu endurskoðunarfyrirtækisins PwC um sjóðinn sem skilað var í apríl 2011 og Kjarninn birti í heild sinni í fyrstu útgáfu sinni, 22. ágúst 2013. Hana má nálgast hér.
Heimildir Kjarnans herma að nánast öll þessi mál tengist stærstu fjórum sjóðunum. Þau mál sem vísað var til ríkissaksóknara eru margs konar. Þau snúast meðal annars um meinta markaðsmisnotkun og innherja- og umboðssvik.
Hluti málanna fyrndur
Hluti málanna fellur hins vegar undir sérrefsilög, ekki hegningarlög. Ef refsirammi þeirra er undir tveggja ára fangelsi geta slík mál fyrnst á fimm árum. Samkvæmt heimildum Kjarnans á það við um hluta þeirra mála sem rannsóknarnefndin vísaði til ríkissaksóknara að þau eru fyrnd. Rannsókn málsins gæti hins vegar leitt til þess að viðeigandi embætti færðu sum brotanna undir hegningarlög sem eru ekki þar núna.
Eitt vandamál blasir hins vegar við. Fjármálaeftirlitið hætti hrunrannsóknum í byrjun árs 2013. Þótt innan embættisins sé enn starfandi sérstakur rannsóknarhópur innan vettvangs- og verðbréfaeftirlits er geta þess til að takast á við stórtækar rannsóknir mjög skert.
Þetta skiptir miklu máli, til dæmis varðandi rannsóknir á meintri markaðsmisnotkun, en nokkur slík mál komu út úr vinnu rannsóknarnefndar um starfsemi sparisjóðanna. Sérstakur saksóknari getur ekki tekið upp markaðsmisnotkunarmál nema eftir kæru frá Fjármálaeftirlitinu.
Í svari Fjármálaeftirlitsins við spurningum Kjarnans um málið segir að sum af málunum 21 sem nefndin hafi sent frá sér hafi varðað brot sem heyri undir Fjármálaeftirlitið og muni einungis sæta rannsókn lögreglu að undangenginni kæru frá eftirlitinu. Ef þau kalli á frekari rannsókn að hálfu þess muni hún fara fram. Síðan segir að „þó rannsóknum í kjölfar hrunsins sé formlega lokið hjá Fjármálaeftirlitinu er áfram rannsóknarhópur að störfum[...] og stofnunin því vel í stakk búin til að rannsaka mál“.
Afgerandi niðurstaða
Skýrsla rannsóknarnefndar um sparisjóðina hefur verið gagnrýnd töluvert í fjölmiðlum fyrir að vera ekki nógu afgerandi. Þótt í henni séu ekki dregnar jafn skýrar ályktanir og gert var í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um fall íslenska bankakerfisins sem kom út fyrir fjórum árum er skýrslan hins vegar uppfull af nýjum upplýsingum sem sýna í hversu slæmu ástandi sparisjóðakerfið var á árunum fyrir hrun. Heimildir nefndarinnar voru sambærilegar við þær sem sú fyrsta hafði, utan þess að skerpt var á að fjalla ekki jafn mikið um fjármál einstaklinga. Á þeim örfáu stöðum þar sem nöfn eru ekki nefnd er mjög fljótlega hægt að átta sig á um hverja er að ræða og fletta þeim upp í opinberum gagnasöfnum.
Í skýrslunni er því að finna sannleikann um afdrif sparisjóðakerfisins, og sérstaklega þeirra fjögurra sem ætluðu sér að spila með stóru strákunum. Og hann er ekki fallegur.
Lestu Kjarnann í heild sinni hér.