Þegar einkaneysla eykst, er það gott eða slæmt? Er neysludrifinn hagvöxtur slæmur? Hafsteinn Hauksson hagfræðingur á bágt með að skilja af hverju hann er slæmur.
Nokkuð dökkur blettur á pólitískri stefnumótun Evrópuþjóða er kaupauðgisstefnan sem lögð var til grundvallar efnahagsstefnu þeirra langt fram á átjándu öld. Í sem stystu máli reyndu lönd sem fylgdu kaupauðgisstefnunni eftir fremsta megni að efla útflutningsatvinnuvegi og innlenda fullvinnslu afurða, um leið og innflutningur var takmarkaður, meðal annars með háum tollum. Eitt meginmarkmið stefnunnar var þannig að safna gjaldeyrisforða með því að viðhalda sem allra mestum viðskiptaafgangi við útlönd með valdboði og pólitískum afskiptum.
Stefnan stafaði af þeim misskilningi að auðsöfnun auðsins vegna væri eftirsóknarverð. Sem betur fer lagðist hún af þegar leið á átjándu öldina og hópur heimspekinga, sem í dag flokkast sem feður hagfræðinnar, benti réttilega á að það væri rangt. Útflutningur þjónaði vissulega þeim tilgangi að afla gjaldeyris, en gjaldeyririnn væri tilgangslítill nema vegna þess að hann mætti nota til þess að standa undir innflutningi; kaupum á mat og víni, vefnaðarvöru og kryddi. Með öðrum orðum hefðu fullar kistur af gulli takmarkað innra virði, nema upp að því marki sem þær væru ávísun á önnur efnisleg gæði.
Það gæti verið vitleysa í mér, en stundum finnst mér sem eimi eftir af viðhorfi kaupauðgisstefnunnar í afstöðu til hagvaxtar. Eitt dæmi um slíkt eru sum viðbrögð við þjóðhagsreikningum sem birtust fyrir síðustu helgi. Á fyrstu tveimur fjórðungum ársins 2014 hefur samsetning hagvaxtar á Íslandi breyst töluvert; í stað þess að vera drifinn áfram af utanríkisverslun (þ.e. vexti útflutnings umfram innflutning) líkt og var á árinu 2013 er aðaldriffjöður vaxtarins nú einkaneysla. Líkt og búast mátti við er enginn skortur á álitsgjöfum með töluverðar áhyggjur af þessari þróun.
Sjálfur á ég hins vegar erfitt með að skilja af hverju samsetning hagvaxtar sem grundvallast á einkaneyslu ætti að þykja verri en útflutningsdrifins hagvaxtar. Reyndar hélt ég að lokatakmark alls hagvaxtar hlyti að vera það að auka einkaneyslu – að auka þau efnislegu verðmæti sem íbúar hagkerfisins hefðu til ráðstöfunar. Þannig mætti best auka lífsgæði þjóðarinnar (þ.e. ef mér leyfist að líta fram hjá því rétt sem snöggvast að efnisleg gæði og lífsgæði fari ekki endilega alltaf saman). Við fjárfestum í dag til þess að geta framleytt og neytt meira á morgun, og stundum útflutning til þess að hafa ráð á innflutningi. Þjóð sem fjárfestir og flytur út til þess eins að sjá landsframleiðsluna vaxa gæti átt á hættu að breytast í eins konar meinlætahagkerfi, líkt og kaupauðgisþjóðir Evrópu fyrr á öldum.
Hagvöxtur ætti með öðrum orðum ekki að vera takmark í sjálfu sér, heldur leið að bættum lífskjörum – og þá er bæði sjálfsagt og eðlilegt að einkaneysla vaxi samhliða framleiðslu hagkerfisins, í andstöðu við þá siðrænu afstöðu meinlætahagkerfisins að eyðsla hljóti alltaf að vera vond.
Hér skal þó fúslega viðurkennt að þar með er ekki öll sagan sögð. Á endanum er aðalatriðið að neysluvöxturinn sé sjálfbær. Heimili getur vel leyft sér að auka eyðsluna ef tekjur þess hækka, en rétt eins og heimili sem fjármagnar neyslu á yfirdrætti getur hagkerfi lent í vandræðum þegar engin innistæða er fyrir vextinum. Það er nokkuð sem við þekkjum allt of vel, en á árunum 2005-2008 jókst einkaneysla hröðum skrefum, á sama tíma og skuldsetning vatt upp á sig og risavaxinn viðskiptahalli myndaðist við útlönd. Þannig hlóðst upp ójafnvægi sem leiðréttist með hvelli á árunum 2009-2010. Í því ljósi er kannski ekki nema eðlilegt að ákveðinnar totryggni gæti í garð einkaneysludrifins hagvaxtar.
Enn sem komið er virðist þessi vöxtur þó ekki byggður á auknum lántökum. Þvert á móti jókst gengis- og verðleiðréttur útlánastofn til heimila og fyrirtækja á öðrum fjórðungi þessa árs í fyrsta sinn eftir samfelldan samdrátt frá árinu 2010 – og þá aðeins um þriðjung úr prósenti. Hins vegar má vel taka undir sjónarmið þeirra sem telja áhyggjuefni að hve miklu leyti þessi aukna eftirspurn eftir neyslu „lekur“ út úr hagkerfinu í formi innflutnings. Með öðrum orðum á einkaneysluvöxturinn sér stað erlendis að hluta og veldur því að innflutningur eykst hraðar en útflutningur, en það kemur niður á viðskiptajöfnuði þjóðarbúsins. Viðskiptajöfnuðurinn er þó enn jákvæður svo nokkru nemur, svo það er af og frá að ástandið sé sambærilegt við það sem var á árunum fyrir fall gömlu bankanna.
Það er því óþarfi að óttast aukna hlutdeild einkaneyslu í hagvexti enn sem komið er – svo framarlega sem við sofnum ekki á verðinum.