Þessi færsla er úr eldra greinasafni Kjarnans og gæti þess vegna birst furðulega.

Nígerísk Nígeríubréf frá nígerískum svindlurum

hafsteinn-gunnar.jpg
Auglýsing

Þann 28. janúar síðastliðinn barst mér skeyti á Fésbókinni – eitt af þessum skeytum sem póstsíu bókarinnar fannst ekki eiga meira erindi við mig en svo að það endaði í Other-hólfinu, heim­kynnum hvers konar furðulegra vinabeiðna frá framandi heimshlutum og svikapósta frá Vestur-Afríku. Þar sýndi póstsían reyndar fádæma dómgreind, því mér varð fljótlega ljóst að markmið sendandans var það eitt að hafa af mér fé.

Sagan sem sendandinn hafði að segja er orðin nokkuð sígilt minni í bréfum af þessu tagi; hann sagðist heita Okwy og vera lögfræðingur íslensks manns, Ivory Brian Hauksson, sem látist hefði af slysförum og skilið eftir sig töluverða fjármuni, um 4,8 milljónir Bandaríkjadala, á læstum reikningi. Þar sem ég bæri sama ættarnafn (Hauksson-ættin á jú víða rætur að rekja) og væri samlandi skjólstæðings hans að auki væri ég kjörinn til þess að aðstoða hinn fróma lögmann við að leysa féð úr bankanum. Og að sjálfsögðu yrði mér ríkulega umbunað fyrir viðvikið. Takk fyrir túkall.

Einhvern tímann hefði mér þótt svolítið gaman að fá svona póst, jafnvel skemmt mér stundarkorn yfir tilhugsuninni um hvort hugsast gæti að sagan væri sönn, en eftir að hafa fengið óteljandi samhljóða bréf í svo til öll tölvupósthólf sem ég held úti fannst mér það ekki lestursins virði; það var hluti af síbyljandi áreitinu sem er orðið óumflýjanlegur fylgifiskur þess að eiga sér rafræna framlengingu á alnetinu.

Auglýsing

Eitt sat hins vegar í mér, sem ég á eftir að minnast á. Fyrir utan það hvað sagan var ófrumleg (óvænti arfur fjarskylda ættingjans er sirkabát elsta lumman í handbók Nígeríusvindlarans) sagðist Okwy vera frá Tógó – en það er eitt af algengustu upprunaríkjum svindlpósta á heimsvísu. Ég móðgaðist hálfpartinn yfir þessu metnaðarleysi; hversu mikill kjáni hélt hann eiginlega að ég væri? Ég hefði þurft að alast upp í umhirðu úlfahjarðar til þess að átta mig ekki á því að tölvupóstur frá ókunnugum lögmanni um óvæntan arf frá vestanverðri Afríku væri eitthvað meira en lítið gruggugur.

Ég bið bara um lágmarksviðleitni, Okwy. Fyrst þú hafðir fyrir því að ljúga til um menntun þína og jafnvel nafn, búa til söguna um Ivory Brian og milljónirnar á bankareikningnum, af hverju hafðirðu þá ekki vit á því að segjast vera frá einhverjum öðrum heimshluta en vesturströnd Afríku? Það hefði kannski ljáð sögunni örlítið meiri trúverðugleika ef þú hefðir verið frá Bandaríkjunum eða Bretlandi eða Sviss – eða bara flestum löndum, öðrum en Tógó.

[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_07_31/49[/embed]

En Okwy er vorkunn. Svona misbrestir virðast vera nokkuð viðloðandi aðferðafræði Nígeríusvindlara. Þrátt fyrir að Nígeríubréf sé orðið að samheiti yfir svindlskeyti af ýmsum toga eftir 30 ára langa sögu kemur enn fram í meira en helmingi slíkra pósta að sendandinn komi frá... Nígeríu! Aðeins einn af hverjum tíu póstum á sér sendanda utan Afríku. Það er næstum eins og svindlararnir vilji ekki að viðtakandinn falli í gildruna. En hvað getur skýrt þessa klúðurs­legu framkvæmd á annars snjallri fjáröflunarviðleitni?

Ekki er það heimska, því sannast sagna sýnist mér Okwy vera töluvert snjallari náungi en ég. Allavega gæti ég ekki búið til forrit til þess að leita uppi tugþúsundir ókunnugra tölvupóstfanga í ríku löndunum, hvað þá sent þeim öllum sérsniðinn póst sem leggur út af eftirnafni þeirra, þótt líf mitt lægi við. Ég veit ekki einu sinni hvar ég ætti að byrja, og samt finnst mér ég nokkuð flinkur á hvort tveggja tölvupóst og Facebook.

Það var ekki fyrr en ég rakst á snilldarlega greiningu Cormac Herley, fræðimanns hjá Microsoft sem hefur rannsakað tölvuglæpi og veföryggi, sem ég áttaði mig á því að Nígeríupóstar frá Nígeríu eru alls ekkert klúður, heldur snilldarleg leikjafræði.

Fjöldapóstur á borð þann sem rataði í pósthólfið mitt er nefnilega aðeins fyrsta skrefið í lengri vegferð, en þannig getur svindlarinn lagt net fyrir óhemjufjölda fólks með litlum sem engum tilkostnaði. Það er ekki fyrr en einhver hefur samband sem svindlarinn þarf að leggja á sig raunverulega vinnu til þess að svara viðkomandi og sannfæra hann um að láta fé af hendi rakna. Og þar komum við að vandamálinu sem Okwy og félagar hans standa frammi fyrir.

Markmið hans er alls ekki að fá sem flest viðbrögð við póstunum, enda er einn helsti vandi stéttarinnar fölsk svörun (e. false positives); fólk sem verður forvitið eftir fyrsta póstinn og hefur samband við svikahrappinn, á við hann samskipti sem útheimta tíma og orku en ganga á einhverjum tímapunkti úr skaftinu og millifæra á endanum ekkert fé. Nei, það er lítið á slíku fólki að græða. Svikahrappurinn vill helst einungis svörun frá hinum trúgjörnustu, þeim sem eru líklegir til að láta glepjast og millifæra á hann fé sama hversu undarleg bón hans kann að virðast. Þannig hámarkar hann afrakstur þess tíma sem hann eyðir í samskipti við fórnarlömb sín.

En það er erfitt að greina á milli þeirra netverja sem eru trúgjarnir og þeirra sem eru grandvarir. Þess vegna fundu svikararnir upp á snilldarlegri leið til þess að fá fórnarlömbin sjálf til þess að gefa til kynna hvort þau séu auðginnt. Nígeríusvindlararnir vita best sjálfir að enginn sem býr yfirlágmarkskunnáttu á tölvur, eða kann að nota leitarvél (Google stingur upp á leitarorðinu scam í hvert sinn sem einhver slær upp Nigeria), eða á vini og ættingja sem bera hag hans fyrir brjósti myndi nokkurn tímann svara Nígeríubréfi. Þá stendur eftir nákvæmlega sá hópur sem hrappurinn vill komast í samband við. Hinir auðtrúa.

Með öðrum orðum hafa Nígeríusvindlararnir skýrt markmið með því að hafa Nígeríubréfið eins ófrumlegt og grunsamlegt og hægt er; nefnilega að draga úr falskri svörun. Heimska eða klaufaskapur kemur þar hvergi nærri.

Herley dregur þá ályktun að þessi viðleitni þeirra bendi til þess að fölsk svörun sé meiriháttar veikleiki í viðskiptalíkani Nígeríusvindlara, en stærðfræðileg greining sem hann hefur útbúið leiðir í ljós að með því að auka falska svörun viljandi (t.d. að eyða tíma þeirra í vitleysu, eins og útvarpsþátturinn Tvíhöfði gerði með nokkrum tilþrifum um árið) sé hægt að draga verulega úr gróðavon svikahrappanna og minnka þar með hvatann til þess að stunda svikin. Það gæti jafnvel orðið hluti af skipulögðum vörnum við slíku.

Hvað sem verður er í það minnsta ljóst að þeir sem deila Nígeríubréfum hlæjandi á Fésbókinni, sendandanum til háðungar, eru á villigötum. Okwy er enginn aukvisi, heldur leikjafræðingur – og helvíti snjall. Einmitt þess vegna þarf að passa sig á honum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Odd Emil Ingebrigtsen, sjávarútvegsráðherra Noregs.
Norski sjávarútvegsráðherrann segir að Samherji sé með „laskað mannorð“
Sjávarútvegsráðherra Noregs segist gruna að Samherji sé að reyna að komast í kringum reglur um eignarhald erlendra aðila á norskum fiskveiðikvóta og hefur gripið til aðgerða. Hann felur ekki neikvæðni sína í garð Samherja.
Kjarninn 9. maí 2021
Jón Gnarr
Af þrælmennum
Kjarninn 9. maí 2021
Borgarstjórar skyldaðir til handabanda
Umræður um handabönd hafa, og það ekki í fyrsta sinn, ratað inn í danska þingið. Þingmenn vilja skylda borgarstjóra landsins til að taka í höndina á nýjum ríkisborgurum, en handabandið er skilyrði ríkisborgararéttar.
Kjarninn 9. maí 2021
Ari
„Vægi loftslagsmálanna minnkar ekki þessa dagana“
Þingmaður VG segir að ef Íslendingar standi við það sem þeir hafa samþykkt af áætlunum um loftslagsmál og geri aðeins betur hafi þeir að minnsta kosti staðið við sinn skerf í málaflokknum.
Kjarninn 8. maí 2021
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Býður sig fram í 2. sæti – stefnir á að verða í framvarðasveit flokksins í Reykjavík
Brynjar Níelsson ætlar að bjóða fram krafta sína fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu kosningar en hann hefur verið á þingi síðan 2013.
Kjarninn 8. maí 2021
Nichole Leigh Mosty
Ég vil tala um innflytjendur
Leslistinn 8. maí 2021
Jón Sigurðsson
Ein uppsprettulind mennskunnar
Kjarninn 8. maí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er einn þeirra sex sem eru með stöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á viðskiptaháttum fyrirtækisins.
Fjallað um rannsókn á Samherja í skráningarlýsingu Síldarvinnslunnar
Hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar hefst á mánudag. Á meðal þeirra sem ætla að selja hlut í útgerðinni í því er Samherji, sem verður þó áfram stærsti eigandi Síldarvinnslunnar. Fjallað er um rannsókn yfirvalda á Samherja í skráningarlýsingu.
Kjarninn 8. maí 2021
Meira úr sama flokkiPistlar
None