Hríðlækkandi heimsmarkaðsverð olíu getur haft veruleg áhrif á útgjöld íslenskra heimila og lækkað rekstrarkostnað þeirra um tugþúsundir króna á árinu, haldist olíuverð lágt eða það lækki enn frekar. Verð á mörkuðum hefur lækkað um 60% frá því í júní 2014 og kostar olíufatið nú minna en 50 dollara. Það hefur ekki verið ódýrara síðan í efnahagskreppunni 2009 og spá markaðssérfræðingar því að verð muni lækka enn frekar og haldast lágt á árinu 2015.
En hvað þýðir verðfallið fyrir útgjöld íslenskra heimila? Í töflunni hér að neðan má skoða nokkur dæmi og stilla töfluna eftir tegund bíls og árlegum akstri. Taflan sýnir mánaðarlegan kostnað við bensínkaup árið 2014 og árið 2015. Fyrir árið 2014 er miðað við að lítri af 95 oktan bensíni hafi kostað 245 krónur, sem er meðaltalsverð samkvæmt ársfjórðungslegum mælingum Hagstofunnar, og fyrir árið 2015 miðast útreikningar við lítraverðið 197 krónur.
Dæmi úr töflunni eru útgjöld eiganda bíls sem keyrir um 14 kílómetra á hverjum bensínlítra, til dæmis eigandi Toyota Corollu eða sambærilegs bíls. Miðað við 12.000 keyrða kílómetra á ári, eða um 1.000 kílómetra á mánuði, nam kostnaður við bensínkaup um 17.500 krónum á mánuði á síðasta ári. Verðlækkanir að undanförnu hafa dregið útgjöldin saman um tæpar 3.500 krónur á mánuði eða rúmlega 40.000 krónur á ársgrundvelli. Útgjaldalækkun jeppaeigenda getur með sama hætti numið yfir hundrað þúsundum á ársgrundvelli.
Hægt er að sjá hvað þinn bíll kemst marga kílómetra á bensínlítranum með einföldum hætti hér, á vefsíðu FÍB.
Frekari lækkanir í kortunum
Bensínverð á afgreiðslustöðvum olíufélaganna hefur lækkað um rúm 22% frá því verðið stóð í um 250 krónur síðastliðið sumar. Búast má við að afgreiðsluverð lækki enn frekar í krafti enn frekari lækkana á heimsmarkaðsverðinu sem nemur um 60% á sama tímabili. Veiking krónunnar gagnvart Bandaríkjadollar getur þó vegið á móti meiri lækkunum en ella. Dollarinn hefur styrkst gagnvart öðrum gjaldmiðlum að undanförnu og er styrkingin meðal annars rakin til sterkari stöðu bandarísks efnahagslífs. Krónan hefur þar ekki verið undanskilin öðrum gjaldmiðlum, veiking gagnvart dollar frá miðjum desember nemur um 5% og skilar sér í dýrari innkaupum olíufélaganna á olíu.
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Fyrsti þátturinn er á dagskrá fimmtudaginn 15. janúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferð til fjár.